Samningur um flutning dæmdra manna

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 20:07:33 (1030)

1999-11-02 20:07:33# 125. lþ. 17.7 fundur 113. mál: #A samningur um flutning dæmdra manna# þál. 1/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[20:07]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á viðbótarsamningi við samning frá 21. mars 1983, um flutning dæmdra manna, sem gerður var í Strassborg 18. desember 1997.

Megintilgangur samningsins um flutning dæmdra manna er að gera fullnustu refsingar mögulega í öðru ríki en þar sem hún er ákveðin. Að baki samningnum búa þau mannúðarsjónarmið að gera dómþola kleift að afplána refsingu í heimalandi sínu og jafnframt það sjónarmið að á þann veg sé fremur unnt að stuðla að félagslegri endurhæfingu hans og búa hann undir að koma út í þjóðfélagið á ný.

Markmiðið með viðbótarsamningnum við samninginn um flutning dæmdra manna er að gera flutning á fullnustu dóms mögulegan í tveimur tilvikum: Annars vegar þegar dómþoli leitast við að komast hjá fullnustu eða frekari fullnustu með því að flýja til landsvæðis þegnríkisins áður en hann hefur afplánað dóminn. Þetta hefði í flestum tilvikum þær afleiðingar að dómur yrði ekki fullnustaður. Hins vegar þegar dómur eða stjórnvaldsákvörðun, sem leiðir af honum, felur í sér ákvörðun um brottvísun eða flutning dómþola úr landi að fullnustu lokinni. Í báðum þessum tilvikum er gert ráð fyrir að unnt sé að flytja fullnustu dóms án samþykkis dómþola.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.