Rannsóknir á útkomu samræmdra prófa

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:06:56 (1052)

1999-11-03 14:06:56# 125. lþ. 18.3 fundur 108. mál: #A rannsóknir á útkomu samræmdra prófa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom í svari mínu í umræðum á dögunum hefur verið safnað miklum upplýsingum og þær upplýsingar hafa verið metnar og athugaðar af fjölmörgum aðilum en hvort nákvæm rannsókn fari fram sem skýrir mun á milli einstakra skóla er annað atriði. Menn verða að safna upplýsingum lengur saman til að sjá þann mun og draga það saman til að geta komist að haldbærum niðurstöðum um hvers vegna munur er á milli einstakra skóla.

Innan Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála hefur ekki verið greint á milli skóla eða staða þeirra rannsökuð, enda telja menn að afla þurfi ítarlegri upplýsinga að því er þann þátt varðar sérstaklega. Aftur á móti eru gögn á stofnuninni úr innlendum rannsóknum og samanburðarrannsóknum milli landa sem gefa vísbendingar um þá þætti sem líklegir eru til að vega þungt í skýringum á þessum mun. Jafnframt hafa einkunnir úr samræmdum prófum verið notaðar í nokkrum rannsóknarverkefnum á stofnuninni og þær tengdar við ýmsa þætti án þess að athygli hafi beinst sérstaklega að mun á frammistöðu nemenda í einstökum skólum. Loks eru til gögn þar sem frammistaða úrtaksnemenda á samræmdum prófum hefur verið tengd ýmsum félagslegum og sálfræðilegum þáttum. Ekkert framangreindra gagnasafna nægir til að svara spurningu um hvað skýrir mun á útkomu einstakra skóla á samræmdum prófum. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir velta fyrir sér spurningu hv. þm.

Það sama á við um þær rannsóknir sem gerðar hafa verið utan stofnunarinnar með einni undantekningu. Í nýlegu BA-verkefni við Háskóla Íslands sem kynnt var fjölmiðlum á þessu ári á vegum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur kom m.a. fram sú velþekkta staðreynd að í hverfum Reykjavíkurborgar þar sem menntunarstig er hátt eru skólar með háar einkunnir á lokaprófum grunnskóla. Það er einnig vel þekkt úr erlendum rannsóknum að stéttastaða foreldra hefur áhrif á frammistöðu einstakra nemenda. Engu að síður er eðlilegt að líta á þessi tengsl milli frammistöðu skóla og íbúasamsetningar sem lýsandi fyrir ákveðna stöðu sem hefur komið upp í Reykjavík en ekki sem skýrt orsakasamband milli hverfis og útkomu skóla á samræmdu prófi. Það hefur án efa mikil áhrif á skólann hvar hann er staðsettur og hvaðan nemendur koma, en það samband er flókið. Einnig hefur það örugglega áhrif á innra starf skólans hvaða starfsmenn ráðast til hans og hvar skólinn er staðsettur.

Því má ekki heldur gleyma að sambandið milli skóla og íbúasamsetningar hverfis getur verið gagnvirkt. Vel menntaðir foreldrar gætu sótt í hverfi þar sem eru skólar með háa meðaleinkunn á samræmdum prófum og starfsmenn gætu sóst eftir því að starfa í skólum sem eru í slíkum hverfum. Út frá fyrirliggjandi þekkingu er ekki hægt að fullyrða um þá orsakaþætti sem skipta mestu máli í Reykjavík og enn síður á landsbyggðinni, segir Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Til þess verður að gera vandaða rannsókn á landsvísu sem beinist að tengslum ofangreindra þátta og mun fleiri við útkomu á samræmdum prófum.

Nú er í undirbúningi rannsóknarverkefni sem beinist að þeim mun sem fram kemur á útkomu einstakra skóla á samræmdum prófum. Menn telja að búið sé að safna nægum upplýsingum til að slíkar rannsóknir á þeim mun fari fram. Að undirbúningi verkefnisins standa Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, Háskólinn á Akureyri og félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Á næstu vikum verður leitað eftir fjárstuðningi til verkefnisins og ráðgert er að það hefjist á næstu mánuðum ef fjármögnun tekst. Verði ráðist í verkið er líklegt að það skili bæði fræðilegum og hagnýtum afrakstri sem nýst getur til skilnings á mun einstakra skóla á samræmdum prófum en ekki síður til skólaþróunar.

Menntmrn. hefur einnig unnið að því að útfæra reglur um sjálfsmat skóla og eftirlit með þeim þar sem einnig yrði unnt að líta á fleiri þætti en samræmdu prófin þegar skilgreindur er munur á milli skóla.

Ég vil láta þess getið í þessum umræðum að fámennir skólar með færri en 11 nemendur sem útskrifast úr 10. bekk grunnskóla hafa ekki fengið birtar tölur um niðurstöður af þessum prófum í þeim upplýsingum sem RUM hefur gefið út. Þeir ályktuðu um það nú á dögunum eða fóru þess á leit við menntmrn. að unnt yrði að taka saman upplýsingar til þriggja ára og setja inn í grunn og spurningin var sú hvort birta mætti niðurstöðurnar ef þær næðu til þriggja ára. Tölvunefnd hefur nú fjallað um þetta erindi og svarað menntmrn. og sagt að hún hafi ekkert við þetta að athuga. Þar með munu meiri upplýsingar bætast í þann grunn sem við erum að safna saman í og verður síðan notaður til rannsókna bæði á mun milli skóla og líka varðandi aðra þróun í okkar skólastarfi.