Lækkun húshitunarkostnaðar

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:46:18 (1093)

1999-11-03 15:46:18# 125. lþ. 18.9 fundur 78. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 78 spyr hv. þm. Kristján Möller:

,,Hvernig verður staðið við þau fyrirheit um lækkun húshitunarkostnaðar sem fram komu í tillögu svokallaðrar byggðanefndar forsætisráðherra og allir þingflokkar stóðu að á 123. löggjafarþingi 1998--1999?``

Till. til þál. um stefnu í byggðamálum var lögð fram á Alþingi í nóvember 1998. Tillagan miðar að þrenns konar aðgerðum. Í fyrsta lagi að verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis, væntanlega bæði á rafmagni og heitu vatni, verði fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur. Í öðru lagi verði heimilt að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu rafmagns til stuðnings við nýjar hitaveitur á köldum svæðum. Í þriðja lagi verði áhersla lögð á fræðslu og ráðgjöf til þess að upplýsa þá sem nota mikla orku til að hita hús sín.

Svar við fyrsta liðnum er þetta: Fjárveitingar til niðurgreiðslna á rafhitun voru hækkaðar úr 487 millj. kr. í 600 millj. kr. í fjárlögum þessa árs. Með þessari rúmlega 100 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til niðurgreiðslna á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis var á þessu ári, fyrsta árinu sem tillagan nær til, hægt að hækka niðurgreiðslurnar úr 1,47 kr. á kwst. í 1,77 kr. á kwst., eða úr 44.100 kr. í 53.100 kr. á íbúð á ári miðað við 30 þús. kwst. notkun á ári. Með hækkun niðurgreiðslna ríkissjóðs lækkaði hitunarkostnaður meðalnotandans miðað við algengasta hitunartaxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins um rúmlega 12%. Benda má á í þessu sambandi að ef ekki kæmu til niðurgreiðslur úr ríkissjóði, afsláttur Landsvirkjunar og Rafmagnsveitnanna og endurgreiðslur á hluta af virðisaukaskatti, þyrftu notendur að greiða rúmlega 156 þús. kr. fyrir 30 þús. kwst. notkun á ári. Notendur greiða hins vegar ríflega 73 þús. kr. eða tæplega 47%.

Rafhitunarkostnaður á landsbyggðinni hefur gjarnan verið borinn saman við hitunarkostnað hjá Hitaveitu Reykjavíkur, nú Orkuveitu Reykjavíkur. Í lok síðasta áratugar og fram á miðjan þennan var hlutfallið milli Rafmagnsveitnanna og Hitaveitu Reykjavíkur um 2,2, þ.e. Rarik var dýrara. Nú er það komið niður í 1,62 og hefur aldrei verið lægra. Það hefur því náðst verulegur árangur í því að lækka orkuverðið frá því sem áður var, enda er þessi framkvæmd í samræmi við þá tillögu sem hér var samþykkt.

Til undirbúnings næstu skrefa við lækkun á kostnaði við hitun íbúðarhúsnæðis í landinu þarf að kanna nokkra þætti. Í fyrsta lagi þarf að leggja mat á verð á orku til hitunar hjá meðaldýrum hitaveitum. Það liggur ekki fyrir hver sá kostnaður nákvæmlega er.

Í öðru lagi þarf að taka afstöðu til þess hvernig starfandi hitaveitur sem selja orku á hærra verði en meðaldýrar hitaveitur verði styrktar til þess að íbúar á þeim veitusvæðum þurfi ekki að greiða hærra verð en þeir sem fá niðurgreiddu raforkuna.

Í þriðja lagi þarf að endurskoða reglur um hvernig haldið verði áfram að greiða niður til hitunar íbúðarhúsnæðis. En það er vilji ríkisstjórnarinnar, og á það verður lögð áhersla, að við 2. umr. um fjárlög nú verði þessi upphæð hækkuð og þá í kringum 30 millj. kr. þannig að nákvæmlega sé farið eftir þeim áföngum sem þáltill. gerði ráð fyrir.

Annar liðurinn snýr að því að í fjárlögum þessa árs og frv. til fjáraukalaga er gert ráð fyrir því að verja 90 millj. kr. til stuðnings lagningar nýrra hitaveitna á köldum svæðum. Á ríkisstjórnarfundi í gær lagði ég fram tillögur að reglum um þær stuðningsaðgerðir og voru þær samþykktar þannig að þær hafa verið frágengnar. Gert er ráð fyrir því að miða við fimm ára niðurgreiðslutímabil og sú upphæð til fimm ára verði endurgreidd til nýrra hitaveitna og að þær nýju hitaveitur geti ráðstafað þeim fjármunum með tvennum hætti, þ.e. annars vegar til þess að lækka stofnkostnað viðkomandi hitaveitu eða til þess að greiða þeim sem hafa mestan kostnað af því að breyta sínu íbúðarhúsnæði samfara því að taka inn hitaveiturnar þannig að það verði til þess að lækka þann kostnað.

Sem svar við þriðja liðnum varðandi hvað hafi verið gert til þess að ná og kynna möguleika á aðgerðum til lækkunar á kostnaði, þá er að fara nú af stað sérstakt sparnaðar\-átak í orkumálum á vegum Orkustofnunar og ráðuneytisins, sérstakir orkudagar fyrir landsbyggðina.