Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 10:43:23 (1110)

1999-11-04 10:43:23# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GE
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[10:43]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess í upphafi máls míns að vekja athygli á því að aðeins hæstv. fjmrh. er viðstaddur þegar farið er yfir fjáraukalög sem má kannski kalla öðru nafni skrá yfir ákveðin mistök sem hafa verið unnin og sem er skrá yfir aðgerðir og e.t.v. aðgerðaleysi hinna mismunandi ráðuneyta. Ég tel því þetta jafnóeðlilegt og við fjárlagaumræðuna að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli ekki vera viðstaddir. Ég geri enga kröfu, herra forseti, um að kalla í einstaka ráðherra en ég vonast til þess að hæstv. fjmrh. beri þessi boð. Þetta er óeðlilegt. Þetta eru mikilvægustu ráðstafanir sem við erum að fjalla um á hverju einasta ári, það eru aðgerðir til að lagfæra það sem aflaga hefur farið í fjárlagagerðinni og svo auðvitað fjárlagagerðin sjálf. Ég vona að virðulegur forseti fylgi þessu máli eftir til forsn.

Herra forseti. Ég sagði að það gæti verið um að ræða skrá um ákveðin mistök og að sjálfsögðu einnig um lög sem höfðu ekki áhrif á fjárlagagerðina í upphafi ársins þannig að staðreyndir voru ekki fyrirliggjandi vegna lagasetningar sem urðu eftir að fjárlög voru samþykkt.

[10:45]

Í ræðu hæstv. fjmrh. voru nefnd atriði, t.d. um óvæntan tekjuauka um 3 milljarða vegna sölu FBA. Það mun auðvitað koma inn í fjáraukalögin á þeim tíma sem við höfum fram að afgreiðslu þeirra. Það eru sem sagt tvær umræður eftir. Þá vonast ég til að fyrirliggjandi staðreyndir um það sem út af stendur hjá hinum ýmsu ráðuneytum verði líka lagðar á borðið.

Herra forseti. Ég tel að það sé ástæða til að velta fyrir sér fjáraukalögum og hlutverki þeirra. Til hvers eru fjáraukalög? Eins kemur upp spurningin: Hvernig eru þau notuð? Ég held að eðlilegt sé að velta þessu upp öðru hverju, einkum ef mönnum finnst að lögin sem verkfæri séu notuð öðruvísi en til er ætlast. Ég set þessar spurningar fram vegna þess að ég tel til þess ríka ástæðu og í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur ítrekað á undanförnum árum bent á að ekki er gert ráð fyrir augljósum útgjöldum í fjárlagafrv. ár eftir ár. Reyndar hefur verið bent á, ekki bara útgjöld heldur vanáætlaðar tekjur sl. þrjú ár. Þar vitna ég til nál. minni hluta fjárln. undanfarin þrjú ár, bæði varðandi útgjöld og tekjur.

Fjáraukalög eru nauðsynlegt tæki til að lagalega sé hægt að verja ófyrirséð útgjöld og nýjar lagasetningar sem að sjálfsögðu verða til á hverju ári. Í ár má reikna með að tekjuhlið frv. hljóði upp á 10 milljarða auk þeirra 3 milljarða sem hæstv. fjmrh. nefndi áðan varðandi sölu á FBA. Þar má því búast við 13 milljörðum meiri tekjum en hins vegar er ekkert fjallað um útgjöldin, vanáætluð útgjöld, það er ekki komið að því.

Áætluð niðurstaða eins og hún liggur fyrir núna er 10 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir. Það er að sjálfsögðu gott að hafa borð fyrir báru í tekjuáætlun. En ég bendi á að vanáætluð útgjöld, ég endurtek, vanáætluð útgjöld --- og þá vísa ég til aðgerða eða aðgerðaleysis ráðuneytanna --- eru skv. frv. sögð 4,9 milljarðar. Ég tel að rauntalan af þeim grunni sem fyrir liggur hjá hv. fjárln. sé nær 7 milljörðum í vanáætluð útgjöld. Þar er um of mikinn mun að ræða miðað við að skekkjan í þessu frv. er núna við 1. umr. einhvers staðar nálægt 3 milljörðum.

Vanáætluð útgjöld eru mest í heilbrigðisþætti frv. og byggjast fyrst og fremst á vanáætlun í fjárlagafrv. vegna ársins 1999. Ég get sagt það hér að samkvæmt minnisblaði sem ég kynnti í þingflokki mínum í desember sl. --- ég byggði þær upplýsingar á framlögðum upplýsingum einstakra aðila sem komu til viðtals í fjárln. --- þá gerði ég grein fyrir því að líklega yrði um 2,6 milljarða halla að ræða í heilbrigðiskerfinu. Staðreyndin er sú að ég hafði rangt fyrir mér. Þar er líklega um 4 milljarða halla að ræða, bara í heilbrigðiskerfinu.

Þessar ábendingar mínar og minni hlutans voru nefndar óráðsíutillögur þegar við gerðum grein fyrir því að útgjöldin væru vanáætluð. Ég segi bara: Til hvers benda staðreyndirnar? Að mínu mati er um að ræða skort á yfirsýn og agaleysi, aðgerðaleysi varðandi fjárútstreymi umfram það sem fjárlög segja til um eða einhver blekkingarleikur sem ég skil ekki hvaða tilgangi þjónar. Það er nærri því eins og verið sé að taka gamla köku og hella yfir hana glassúr svo hún líti betur út.

Ég gæti, herra forseti, rakið þetta minnisblað í einstökum liðum. Ég lagði það fram og það er til á skrá með dagsetningunni 12. des. á síðasta ári. Ég gæti rakið þetta blað í einstökum liðum. Ég leyfði mér að sýna hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni þetta minnisblað til þess að leggja áherslu á mál mitt. Nú er u.þ.b. einn og hálfur mánuður síðan ég benti á þessar skekkjur. Strax í umræðum á vorþinginu spurði ég hæstv. heilbrrh. hvernig staðan væri og benti á það sem minni hluti fjárln. hafði fjallað um. Samt sem áður var þetta plagg, í sólskinsbúningi, lagt fyrir fjárln. og hv. Alþingi, með upplýsingum --- ekki þeim sem eru fyrirliggjandi heldur sem betur hentar að leggja fyrir hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég tel að það sé ástæða til að breyta vinnubrögðum. Lögin um fjárreiður ríkisins gefa möguleika til betri árangurs í stjórnun en áður var. Tæknibúnaður er til staðar til að ná betri árangri en raun ber vitni. Raunin er hins vegar aðgerðaleysi í þeirri von að góðærið muni skila tekjum umfram útgjöld. Þess vegna er tekið svo lauslega á málum sem ég hef þegar rakið.

Hvernig er svo staðan? Hún er þannig að afkoma ríkissjóðs er góð. Afkoma sveitarfélaganna er slæm. Afkoma þeirra sem hæstar hafa tekjur í þjóðfélaginu hefur aldrei verið betri. Afkoma þeirra sem hafa lægst launin er slæm. Ég vil meina að það sé ekki tekið af alvöru á þessu máli, nema að því leyti --- sem ber að fagna að sjálfsögðu og ég geri það nú sem áður --- að afgangur ríkissjóðs er nýttur til greiðslu skulda í ár og á næsta ári. Ég tel hins vegar að við verðum að greiða það sem út af stendur í rekstri einstakra stofnana. Við verðum að horfa til þess og það á ekki að þurfa að japla um einstök smáatriði sem út af standa þegar frv. er lagt fram. Það á ekki að láta heildarátökin um svona frv., sem eru raunverulega uppgjörsatriði frá liðnu ári, í þann farveg sem nú er gert.

Auðvitað á sumt af því sem ég hef verið að segja kannski frekar heima í umræðunni um fjárlög. Ég vil taka það fram, herra forseti, að ég hélt því fram í útvarpsviðtali að fjáraukalögin væru skrípaleikur með tilliti til þess hvernig tillögur um aukin útgjöld settar fram, ef borin eru saman t.d. menntmrn. og heilbr.- og trmrn. Þetta álit mitt byggist á því að gerðar eru tillögur fyrir menntmrn., að mestu leyti um það sem ráðstafað hefur verið --- að mestu leyti, segi ég. Þó liggja fyrir upplýsingar eins og t.d. um Háskólann á Akureyri, um landbúnaðarháskólann og nokkrar aðrar stofnanir þar sem búið er að gera ráðuneytinu grein fyrir því sem á vantar. Það er ljóst en hefur ekki verið sett inn í frv.

Tillögur um útgjöld heilbrigðiskerfisins eru jafnframt óraunhæfar og vantar 1,2 milljarða upp á samkvæmt því sem nú liggur fyrir. Ég vil minna á það, herra forseti, að hugmyndir um sparnað hafa gjörsamlega brugðist í fjárlagafrv. fyrir árið 1999. Ég minni á hugmyndir um lyfjakaupasparnað, hugmyndir um sparnað vegna tannlæknakostnaðar, hugmyndir vegna sparnaðar við röntgenmyndatökur, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta brást. Kannski væri ástæða til að spyrja: Hvers vegna brugðust þessar aðgerðir? Á síðasta ári, þegar var verið að ræða um fjárlögin 1999, lýsti minni hlutinn yfir efasemdum um þessar áætlanir vegna þess að engar útskýringar voru á því hvernig ná ætti þessum árangri. Ég tel að þarna hafi verið um óraunhæfar væntingar að ræða eins og nú liggur fyrir. Það var óraunhæft að gera sér væntingar um stórfelldan sparnað á þessum sviðum.

Aðlögunarsamningar undir stjórn ríkisstjórnarinnar eru gjörsamlega úr böndum og niðurstöður Kjaradóms allt aðrar en gert var ráð fyrir. Hvað er verið að bjóða upp á? Þessi atriði ásamt öðrum óraunhæfum áætlunum gera það að verkum eins og ég lýsti áðan að umframútgjöld verða t.d. í heilbrigðisgeiranum a.m.k. 4 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir. Samt er gerð tillaga í þessu plaggi um 2,9 milljarða útgjöld.

Það sem ég er hér að benda á eru staðreyndir. Ég veit að þessar upplýsingar liggja fyrir. Ríkisendurskoðandi er sennilega að miklu leyti búinn að fara yfir þær niðurstöður sem liggja fyrir frá hinum ýmsu stofnunum.

Já, ég kalla þetta skrípaleik eins og ég lýsti í viðtali. Ég kalla það skrípaleik þegar ekki er farið eftir fyrirliggjandi staðreyndum. Það verður fróðlegt að vita þegar uppgjörið liggur fyrir hvort ég þarf að kyngja fullyrðingum mínum í þessu máli, hvort um skrípaleik er að ræða eða ekki. Ég er tilbúinn til þess ef annað kemur á daginn. Það er eiginlega, herra forseti, óeðlilegt að staðreyndir sem hv. fjárln. fær á sitt borð, eftir að búið er að kynna það hjá hæstv. ríkisstjórn, skuli ekki liggja fyrir í þessu registri yfir vanáætlun, registri yfir mistök, aðhaldsleysi og agaleysi.

[11:00]

Vissulega er ætlunin að gera upp rekstrarhallann frá 1998 með því frv. sem hér liggur fyrir. Mér sýnist að menn ætli sér að gera það en á rekstrarhallanum sem fyrirséður er vegna 1999 er ekki tekið nema mjög takmarkað.

Þegar ég hef verið að tala um tekjur stofnana og raunhæfan grunn þá á ég við stofnanir sem margsinnis hafa lagt fram rök fyrir því að sértekjuáætlanir sem þeim eru fengnar séu rangar. Þá nefni ég t.d., sem ég nefndi áðan, núverandi landbúnaðarháskóla á Hvanneyri. Þar er gert ráð fyrir um það bil 10 millj. kr. meiri sértekjum en stofnunin treystir sér til þess að afla. Gert er ráð fyrir að Landmælingar Íslands hafi í sértekjur a.m.k. 10--12 millj. kr. meira en þær hafa nokkra möguleika til að afla sér. Á svona atriðum tel ég að þurfi að taka. Þetta á við að heita megi allar stofnanir ríkisgeirans. Þar er gert ráð fyrir meiri tekjum en stofnanirnar eiga möguleika á að fá. Ég tel að þessu þurfi að breyta. Þeir sem þarna eiga í hlut hafa ekki fengið áheyrn með þau rök sem færð eru fram til að sýna þessa skekkju.

Herra forseti. Það má vel vera að hæstv. fjmrh. finnist að fast sé slegið þegar farið er yfir málin eins og þau liggja fyrir núna vegna þess að á stundum hafa menn sagt: Það tekur því ekki að vera að ræða gerða hluti. Við skulum bara fara yfir þetta og afgreiða. En nú er nóg komið. Það getur vel verið að einhver kalli þetta sleggjudóma. Ég segi bara að stundum þarf að slá með sleggju svo að árangur náist. Fagmenn í málmiðnaði vita að það má ná árangri með því að hita og kæla þegar efni er mótað. Við málmiðnaðarmenn grípum seint til sleggjunnar en við þekkjum verkfærið og notum það ef ástæða er til.

Herra forseti. Það má auðvitað velta því fyrir sér af hverju ég nota svona orðalag í ræðu minni. Svarið er: Vegna þess að verkfærið fjáraukalög er ekki rétt notað. Framsetning þess byggir aðeins að hluta á þeim staðreyndum sem fyrir liggja. Lagasafn fjárlaganna á að vera eins og verkfærataska. Það á að nota þau verkfæri sem við eiga í hverju tilviki og verkfærin eiga að vera í röð og reglu í töskunni. Árangurinn verður bestur með réttu skipulagi og réttum vinnubrögðum.