Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 11:49:13 (1119)

1999-11-04 11:49:13# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[11:49]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Ég vil enn minna á að við samþykkt fjárlaga í desember lágu þær gríðarlegu launahækkanir sem orðið höfðu á sjúkrahúsum að mestu leyti fyrir. Þær urðu því miður ekki hjá þeim hluta starfsfólksins sem lægst var launað. Ég tel að við gerð fjárlaga, eins og við bentum þá á, hefði verið hægt að áætla mun betur útgjöldin vegna þeirra launahækkana en gert var. Ég tel það ámælisvert að halda forsvarsmönnum sjúkrahúsa ævinlega á hnjánum fyrir fjárveitingavaldinu, jafnvel þó allt sé gert til að reka sjúkrahúsin eins hagkvæmt og hægt er. Af því dæmi sem ég tók hér áðan get ég borið --- ýmsir tilsjónarmenn sem hafa verið sendir þangað suður eftir til þess að fylgjast með rekstrinum geta verið mér sammála í því --- að sjúkrahúsið er mjög vel rekið og sparnaðar gætt í hvívetna. En þess er gætt að stofnunin fari að þeim lögum sem henni er ætlað að uppfylla. Það hefur hún gert og staðan er eins og hún er. Mér finnst að ríkisvaldinu sé skylt að koma til móts við það ef hún á annað borð ætlar að reka þessi sjúkrahús áfram.