Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:35:36 (1177)

1999-11-04 16:35:36# 125. lþ. 20.94 fundur 124#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vandi Lánasjóðs ísl. námsmanna við að gegna skyldum sínum er ekki löggjöfin. Hún er góð og þetta var á sínum tíma framsækin tímamótalöggjöf á félagslegum grunni þar sem útgangspunkturinn er að tryggja jafnrétti til náms án tillits til efnahags og tryggja námsmönnum og fjölskyldum þeirra eftir atvikum mannsæmandi lífskjör.

Vandinn er sá að þessi ágætu lög hafa hins vegar ekki verið framkvæmd. Menntmrh. Sjálfstfl. hafa mann fram af manni allt frá dögum Ragnhildar Helgadóttur staðið þannig að framkvæmdinni með skerðingum, upptöku vaxta, eftirágreiðslum námslána og síðan allt of þungbærum endurgreiðslureglum að það hefur stórlega spillt fyrir því að sjóðurinn væri það félagslega jöfnunartæki og trygging fyrir jafnrétti til náms sem hann á að vera lögum samkvæmt.

Yfirklór hæstv. menntmrh. og ríkisstjórnarinnar núna rétt fyrir síðustu alþingiskosningar þegar allt í einu voru til peningar til að draga til baka að hluta til skerðingarnar sem keyrt hafði verið á allt kjörtímabilið breyta því miður litlu um þetta. Auðvitað er það svo að til þess að sjóðurinn geti sinnt skyldum sínum þurfa að liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um t.d. framfærsluþörfina og þegar kostnaður veður upp úr öllu valdi eins og vegna stórhækkaðrar húsaleigu o.s.frv. þarf að vera hægt að bregðast við slíku. Ég tek því undir þær óskir málshefjanda að úr því verði bætt.

Mér er hins vegar alveg ljóst, herra forseti, að vandi Lánasjóðs ísl. námsmanna verður ekki í reynd og til frambúðar leystur nema með einu og það er með því að koma Sjálfstfl. út úr menntmrn. og út úr lánasjóðnum en hann hefur legið ofan á hvoru tveggja eins og mara undanfarin ár eins og allir vita.