Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:25:46 (1220)

1999-11-10 14:25:46# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvort fólk geti fundið möguleika til að drýgja tekjur sínar með því að þiggja matargjafir hjá hjálparstofnunum. Hugsanlega á þetta við í einhverjum örfáum tilvikum. En ég er að tala um alla þá sem neyðast til að fara og biðja sér aðstoðar, þá sem eru aldraðir og hafa mjög lítið til að framfleyta sér af, fátæka launamenn í fullri vinnu sem ná ekki endum saman, ekkjur með börnin sín sem hafa þurft að krjúpa svo lágt að þiggja matargjafir. Ég er að tala um þá sem hafa gert allt sem þeir gátu til að láta enda ná saman. Það sem þeir fá í laun dugir ekki til vegna þeirra kjarasamninga sem gilda í landinu. Það verður alltaf þannig, hv. þm. Pétur Blöndal, að einhverjir notfæra sér að fá ódýrari mat en fæst í Hagkaup eins og hv. þm. talaði um.

Mér er líka fullljóst að einstaklingar þurfa mismikið til að framfleyta sér. Þess vegna deili ég á að ekki skuli hafa verið hægt sl. fimm ár að reikna út viðmiðunargrunn til framfærslu fyrir einstaklinga á Íslandi. Í fimm ár hef ég óskað eftir því. Það er ömurlegt að búa við það að ekki skuli vera hægt að reikna út þennan framfærslugrunn. Hann er ekki til. Hann er ákaflega mismunandi. Félagsmálastjórar miða við a.m.k. 10 þús. kr. hærri upphæð en það sem lágmarkslaun á Íslandi hljóða upp á.