Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 15:49:20 (1233)

1999-11-10 15:49:20# 125. lþ. 22.4 fundur 134. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., Flm. MÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Flm. (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir ræðu hans. Ég veit að hann er fróðleiksmaður um málefni ríkis og kirkju og réttlætismaður í þeim efnum líka.

Gárungar, kunningjar mínir, hafa kallað þetta litla frv. mitt frv. gegn þjóðkirkjunni og háskólanum. Það var ekki sú merking sem ég lagði í frv. þó auðvitað komi það að einhverju leyti við báðar þessar stofnanir. Auðvitað verður frv. af þessu tagi til þess að vekja upp umræðu um tengsl ríkis og kirkju álíka þeirri sem hv. þm. drap á hér áðan. Ég tek undir það með honum að kominn er tími til að þingið og samfélagið allt ræði í alvöru hvernig á að hátta þessum samskiptum og ræði það þá einmitt á heimspekilegum og trúarlegum forsendum en ekki stofnanalegum sem okkur sæmir ekki þegar um trúarskoðanir manna og grundvallarviðhorf til hinna hinstu raka tilverunnar er að ræða.

Frv. mitt beinist ekki gegn þjóðkirkjunni. Það miðast við mannréttindi þess hóps sem utan hennar stendur eins og ég rakti í ræðu minni. Hins vegar geta þau rök enn átt við sem notuð voru á þinginu 1913 að menn hlypu hópum saman úr þjóðkirkjunni og þá gætu þau rök Bjarna frá Vogi einnig átt við að hún væri ekki þess virði að vera til ef menn hlypu úr henni um leið og helsið væri af þeim. Ég er þó ekki viss um að svo verði. Ég held að mjög margir þeir sem eru í þjóðkirkjunni núna eða öðrum söfnuðum séu það af einhverri sannfæringu og tiltekinni sannfæringu hversu mikil sem hún er, kannski af ákveðnum vana og af hefð og ég virði þá afstöðu þeirra.

Það er fróðlegt að þegar Svíar voru að undirbúa löggjöf sína um þessi efni, þá sem nú gengur í gildi, gerðu þeir skoðanakönnun um hvað fólk mundi gera ef ríki og kirkja yrðu aðskilin með þeim hætti sem þeir eru að gera, sem er ekki fullkominn aðskilnaður, en m.a. sá aðskilnaður að menn séu ekki lengur skyldir að borga til kirkjunnar. Úr þeirri skoðanakönnun kom það að 53% hinna aðspurðu sögðu að þeir mundu örugglega halda áfram í sænsku þjóðkirkjunni. 24% í viðbót eða samtals 77% sögðu að þeir mundu væntanlega vera áfram í þjóðkirkjunni og aðeins 6% í þessari könnun sögðu að þeir mundu hlaupa hópum saman úr henni. Ég held því að samþykkt þessa frv. og reyndar frekari aðskilnaður ríkis og kirkju mundi ekki skaða þjóðkirkjuna, þvert á móti.

Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. Hjálmars Árnasonar fyrir framlag sitt. Það er erfitt að bera saman trúfélög við eitthvað annað, hvað sem er annað í mannlífinu. Það er viðkvæmt og það er hættulegt. Þó er kannski hægt að taka þá áhættu ef við reynum að ímynda okkur eitthvað það annað sem gæti verið hliðstætt því réttleysi og óréttlæti sem ég tel að hér hafi ríkt. Við teljum líka að heilbrigð sál sé ekki síst háð hraustum líkama. Það er almenn skoðun í þjóðfélaginu og hefur verið lengi að hvers kyns íþróttaiðkun sé mönnum holl og góð og ríkinu mikilvæg uppspretta sparnaðar í heilbrigðisgeiranum.

Auðvitað má segja sem svo að ef við höldum okkur við það að menn utan trúfélaga borgi sérstakan skatt, eitthvað annað en í trúfélögin, þá gætum við eins skyldað alla menn til að borga til íþróttafélaga --- ég mundi borga til KR og hv. þm. Hjálmar Árnason sennilega til sameiginlegs körfuknattleiksliðs Njarðvíkur og Keflavíkur --- og þeir sem ekkert vildu borga ættu þá að borga í einhvern sérstakan sjóð sem gæti t.d. séð þingmönnum fyrir heilsuræktarferðum til Færeyja.