Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:57:13 (1303)

1999-11-11 14:57:13# 125. lþ. 23.7 fundur 103. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, flm. tillögunnar, hefur gert grein fyrir þeim hugmyndum sem að baki búa og er allt gott um það að segja. Tillagan gerir ráð fyrir að fela forsrh. að láta Byggðastofnun gera tilraun með rekstur.

Ég verð að viðurkenna að ég tel það ekki æskilegt fyrirkomulag að Byggðastofnun hefji rekstur á einstökum atvinnuþáttum eða þjónustuþáttum í þjóðfélaginu. Stofnunin er allra góðra gjalda verð og þekkir vel til, ekki síst að sjálfsögðu víða úti á landi. En ég get ekki fallist á að það sé hinn eðlilegi gangur eða hin eðlilega leið til að ná fram því markmiði að bæta almenningssamgöngukerfið í landinu.

Það er alveg ljóst að almenningssamgöngur eiga mjög undir högg að sækja. Annars vegar er um að ræða strætisvagnaþjónustuna sem rekin er á höfuðborgarsvæðinu á vegum sveitarfélaganna og síðan rekstur sérleyfishafa um þjónustu á tilteknum svæðum með áætlunarbílum. Síðan eru það flugsamgöngurnar sem eru auðvitað mikilvægur þáttur í samgönguþjónustunni innan lands. Sjóflutningar tíðkast ekki lengur hvað varðar fólksflutninga, þeim er því ekki til að dreifa nema hvað varðar ferjurnar.

[15:00]

Það er alveg ljóst og ég hef fengið glöggar skýringar á því að bæði rekstur sérleyfisleiðanna og sömuleiðis flugleiðanna á mjög undir högg að sækja. Það eru miklir erfiðleikar hjá þeim aðilum sem veita þessa þjónustu milli landshlutanna og það er alveg deginum ljósara að að óbreyttu verður þessari þjónustu ekki haldið uppi á sumum leiðum. Annars staðar er þetta í góðu eða sæmilegu ástandi. Þá er auðvitað spurt hvað sé til ráða. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni þá veitir ríkissjóður nokkurn stuðning til sérleyfisrekstrarhafanna. Einnig er óbeinn stuðningur við þessa þjónustu, almenningssamgönguþjónustuna hér á höfuðborgarsvæðinu með endurgreiðslukerfi þannig að þarna eru í gangi millifærslur sem er nauðsynlegt að hafa í huga. Ég get alveg tekið undir það með flutningsmanni, hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, að almenningssamgöngukerfið er partur af ferðaþjónustunni og það er alveg ljóst að margir innlendir og erlendir ferðamenn velja þann kost að fara með áætlunarbílum eða fljúga á milli staða án þess að leggja sjálfir til ökutækin eða flugvélar þannig að það skiptir ferðaþjónustuna máli hvernig þessi þjónusta er byggð upp. Ég held að það hefði kannski verið eðlilegra að sveitarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu hefðu tekið þetta mál upp og það hefði borið að á Alþingi þannig að leitað væri eftir stuðningi við aðgerðir heimamanna sem sæju um þennan tilraunarekstur að öllu leyti með einhverjum tilstyrk frá opinberum aðilum sem væri á grundvelli góðs rökstuðnings um það. Ég vil ekkert vísa þeim möguleikum frá mér. En ég teldi það miklu vænlegri kost, ekki síst vegna þess að sveitarfélögin og aðilar á vegum þeirra hafa verið að skoða þessa möguleika. Ég lýsi því þeirri skoðun minni að ástæða sé til þess að skoða hvort beri að gera slíka tilraun, en hún væri best komin í höndum heimamanna sjálfra með einhverjum stuðningi opinberra aðila.

Hér hefur komið fram að á vegum samgrn. er verið að vinna að úttekt á sérleyfisþjónustunni og þeirri úttekt er að ljúka. Háskóli Íslands hefur unnið það verk í nánu samstarfi við samgrn. og þess er að vænta að innan skamms muni sú skýrsla liggja fyrir. Þar er gerð tilraun til þess að meta stöðuna og fara yfir þá kosti sem eru til staðar og einnig að gera sér grein fyrir því hvaða kröfur eigi að gera til þessarar þjónustu. Ég get ekki upplýst það hér og nú að þess sé að vænta að samgrn. byggi tillögur á þessari úttekt en í mínum huga er alveg ljóst að það þarf að gera breytingar og ná samstöðu um breytt fyrirkomulag sem gæti eflt þjónustuna og skapað meiri möguleika til þess að hún batni. Þá er auðvitað eðlilegt að taka inn í þá skoðun það sem sveitarfélögin eru að gera í dag í þessari þjónustu, þ.e. akstur grunnskólabarna og akstur vegna framhaldsskólanemenda sem er sömuleiðis sums staðar verið er að sinna. Allt þetta þarf að skoðast í einu lagi.

Herra forseti. Ég hlýt að endurtaka þá afstöðu mína að ég tel að það sé ekki hin eðlilega leið að fela Byggðastofnun rekstur á slíku tilraunaverkefni heldur væri það best komið í höndum á heimamönnum. En samgrn. er að vinna að úttekt á þessum málum og væntanlega sjást tillögur í þeim efnum innan tíðar.