Heimasíða "Hraunals" um álverið á Reyðarfirði

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:03:16 (1382)

1999-11-15 15:03:16# 125. lþ. 25.1 fundur 139#B heimasíða "Hraunals" um álverið á Reyðarfirði# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. umhvrh. Hún lýtur að opinberri kynningu á frummatsskýrslu vegna 480 þús. tonna álbræðslu sem fyrirhugað er að reisa á Reyðarfirði.

Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu Hrauni ehf., sem gefin var út um miðjan síðasta mánuð, kemur fram að nú liggi fyrir frummatsskýrsla um fyrirhugað álver á Reyðarfirði. Hvergi er þess getið hvernig nálgast megi skýrsluna eða upplýsingar hennar. Þegar frekari umfjöllun um málið fór síðan í gang í fjölmiðlum fóru að heyrast fregnir af vefslóðum þar sem hægt væri að skoða skýrsluna, m.a. slóðin eldur.eldhorn.is/8080 en þegar að var gáð reyndist hún læst með notendanöfnum og lykilorðum sem lágu ekki á lausa. Þá heyrðist líka nefnt veffang verkfræðiskrifstofu að nafni Hönnun og ráðgjöf og slóðin hogr.is. Inn á þá síðu kemst maður þegjandi og hljóðalaust og af henni er hægt að komast inn á hlekk merktan Álver í Reyðarfirði, mat á umhverfisáhrifum. Sá hlekkur leiðir mann svo inn á slóð merkta einhverju sem heitir hraunal og þar er maður kominn inn á síðu sem er gjörsamlega ófær öllu venjulegu fólki. Hún er svo flókin og óaðgengileg sem frekast getur verið með kröfu um aðgangs- og lykilorð. Aðgengi er svo flókið að þau hjá Hönnun og ráðgjöf virðast hafa gert sér grein fyrir því og hafa nú sett upp sérstakan hnapp sem merktur er aðgangsvandamál, notið Login: hraunal. Hér er trúlega átt við lykilorðin. Svo þegar maður kemur loksins inn á skýrsluna tekur ekki betra við. Þá birtast myndlausir textar og maður þarf að galdra fram eitthvað nýtt til að fá myndirnar. Maður fær bara einhverja auða ramma eins og sjá má af þeim blöðum sem ég er með. Af framansögðu má vera ljóst að aðgengi að frummatsskýrslu um umhverfisáhrif fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði er afskaplega takmarkað og notendafjandsamlegt.

Mér þætti því fróðlegt að vita hvort hæstv. umhvrh. hefur skoðað þessa síðu (Forseti hringir.) og í ljósi þess hve erfitt er um vik fyrir venjulegt fólk, (Forseti hringir.) hvort hún muni vilja beita sér fyrir því að aðgengi að skýrslunni verði einfaldað (Forseti hringir.) og hvort hún er í framhaldi af því tilbúin að beita sér fyrir því að fresturinn (Forseti hringir) verði framlengdur.