Niðurskurður í samgöngumálum

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:19:20 (1396)

1999-11-15 15:19:20# 125. lþ. 25.1 fundur 142#B niðurskurður í samgöngumálum# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þá erum við búin að heyra, það kom greinilega fram hér, að menn vildu gjarnan fara í niðurskurð framkvæmda til þess að draga úr þenslu, draga úr spennu. Hitt hefur kannski ekki komið fram svo glögglega, þ.e. að u.þ.b. helmingur þessa niðurskurðar í vega- og hafnamálum verður úti á landi. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. samgrh. útskýri það örlítið betur hér hvernig hann hyggst haga sínum tillögum, vegna þess að ef við tökum Reykjavíkurflugvöll til hliðar, þær 100 milljónir sem þar eru, þá segja mínar heimildir að það sem eftir er, þ.e. vegamálin og hafnamálin, skiptist þannig að meiri hluti niðurskurðarins verði úti á landi. Ég óska eftir því að ráðherra komi og segi okkur eins nákvæmlega og hann getur á þessu stigi máls frá því hvernig þetta stendur.

Það er alveg ljóst að úti á landi eru menn órólegir. Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna eru órólegir vegna þess sem þeir þykjast vita að er í vændum. Ég held það sé eins gott að samgrh. geri uppvíst nú þegar hvernig hann hyggst standa að þessum málum.