Niðurskurður í samgöngumálum

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:21:38 (1398)

1999-11-15 15:21:38# 125. lþ. 25.1 fundur 142#B niðurskurður í samgöngumálum# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki enn heyrt þá sveitarstjórnarmenn sem búa á þeim svæðum sem minnst eða ekki hafa orðið vör við þensluna, sýna því mikinn skilning ef það ætti að fara að skera niður heima hjá þeim. Því fer fjarri.

Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að meiri hluti niðurskurðar í hafnamálum verði á landsbyggðinni. Grunur minn er sá, þó að ráðherra hafi ekki viljað staðfesta það, að stór hluti, jafnvel nánast helmingur þess niðurskurðar sem fyrirhugaður er í vegamálum verði líka úti á landi.

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst það merkileg nálgun þegar menn ætla að slá á spennu að beina niðurskurðinum á þau svæði þar sem spennan er engin. Þó að menn taki undir að við þurfum að fara varlega til þess að halda sjó í efnahagsmálum þá verða menn að horfa á hlutina út frá þeim veruleika sem blasir við en ekki eftir reglustikuaðferðinni sem mér sýnist að hér hafi verið beitt.