Þjóðhagslegar forsendur álvers á Reyðarfirði

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:32:27 (1408)

1999-11-15 15:32:27# 125. lþ. 25.1 fundur 144#B þjóðhagslegar forsendur álvers á Reyðarfirði# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það má kalla það skæting að rifja upp að hv. þm. sat í ríkisstjórninni sem tók fyrstu skóflustunguna að þessari virkjun. Ég lít ekki á það sem sérstakan skæting að rifja það aðeins upp.

Hitt er annað mál að ekki er búið að ganga frá samningum um lykilþætti í þessu verkefni. Það hefur t.d. ekki verið samið um raforkuverðið við álverið og dettur einhverjum manni í hug að farið verði út í samninga sem muni ekki borga sig, að farið verði út í framkvæmdir á þessum vettvangi sem verða ekki arðbærar? Ég held að það sé forsenda sem ástæðulaust sé að gefa sér.

Hitt er annað mál að hérna eru miklir hagsmunir í húfi eins og þingmaðurinn sagði. Ég veit ekki til þess að lífeyrissjóðirnir muni blandast inn í sjálfa virkjunina. Ég held að það hafi verið arðsemisútreikningar á virkjuninni sem þingmaðurinn vitnaði til en ekki á heildarpakkanum með álverinu en auðvitað liggja fyrir alls kyns útreikningar um þetta mál sem Þjóðhagsstofnun hefur m.a. blandað sér í og vonandi munu menn ganga úr skugga um arðsemi þessa alls áður en gengið verður endanlega frá samningum.