Þjóðhagslegar forsendur álvers á Reyðarfirði

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:33:41 (1409)

1999-11-15 15:33:41# 125. lþ. 25.1 fundur 144#B þjóðhagslegar forsendur álvers á Reyðarfirði# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég teldi að hæstv. fjmrh. hefði átt að svara spurningunni og það taldi ég ómálefnalegt að gera ekki. Hyggst fjmrn. láta gera eða er það að láta gera sjálfstætt mat á þessum þjóðhagslegu forsendum í ljósi yfirgnæfandi hagsmuna, þar á meðal eigenda hagsmuna ríkisins? Er hæstv. fjmrh. ekki að hugsa um þá ábyrgð sem hvílir m.a. á herðum hans, hæstv. ráðherrans, af þessum sökum? Dettur mönnum í hug að hér verði farið út í framkvæmdir, spyr hæstv. ráðherra, nema ásættanlegt raforkuverð náist? Já, mönnum dettur það í hug. Þegar menn sjá það í ársskýrslum Landsvirkjunar að það raforkuverð sem stóriðjan er núna að borga ár eftir ár, 86, 88 og upp í 90 og eitthvað aura á kílóvattstund er langt frá því að duga til að afskrifa núvirtar fjárfestingar í virkjunum til að framleiða rafmagn handa stóriðju. Þeir útreikningar eru borðliggjandi og það vantar mikið upp á að raforkuverðið dugi. Þá er von að mönnum detti það í hug af því að sporin hræða.

Ég hvet hæstv. fjmrh. til að fara nú upp í Arnarhvol og líta á þetta mál með starfsmönnum sínum og koma svo hér betur nestaður til umræðna.