Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:54:17 (1475)

1999-11-16 14:54:17# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, VS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Það er mjög eðlilegt og raunar nauðsynlegt að umræða fari fram á hv. Alþingi um uppbyggingu álvers á Reyðarfirði og virkjun Jökulsár í Fljótsdal með uppistöðulóni á Eyjabökkum. Það er nú þegar ljóst að umræðan er óþægileg fyrir stjórnarandstöðuna, alveg sérstaklega er hún erfið fyrir hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrím J. Sigfússon, sem kallaði tillöguna sýndarmennskutillögu í umræðunni fyrr í dag og nú hefur verið upplýst af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að þingmaðurinn studdi álver á Austurlandi í ágúst 1990.

Hér er um að ræða aðalumræðuefni þjóðarinnar um þessar mundir en því miður vantar mjög mikið upp á að nægilegar upplýsingar liggi fyrir hjá fólki almennt til að það geti mótað sér afstöðu til málsins. Þetta kom hvað best í ljós í þeirri könnun sem gerð var opinber í gær og segir m.a. að 80% þjóðarinnar viti ekki hvað hið lögformlega umhverfismat er, á sama tíma og u.þ.b. 80% þjóðarinnar virðist vilja að framkvæmdin fari í lögformlegt umhverfismat. Þetta sýnir betur en nokkuð annað fáránleika málsins. En það er ekki við fólkið að sakast, það er við okkur stjórnmálamennina að sakast og það er við fjölmiðla að sakast. Þess vegna er óskandi að umræðan verði málefnaleg og upplýsandi en í raun er ekki um það að ræða að taka ákvörðun um hvort farið skuli í þessar framkvæmdir eða ekki, þ.e. virkjanaframkvæmdirnar, þar sem það er löngu ákveðið með tilstilli allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi í dag. Þeir hafa ýmist komið beint að þeirri ákvarðanatöku eða í gegnum þá flokka sem þeir eru sprottnir upp úr. Ég tel ekki nauðsynlegt að útskýra það frekar. Ég tel hins vegar augljóst að margir hv. þm. eru að fiska í gruggugu vatni í þessu deilumáli. Í því sambandi vil ég ítreka að nú eins og svo oft áður skiptir máli að láta ekki stundarhagsmuni á vafasömum atkvæðaveiðum ráða ferð, horfa þarf á málið heildstætt með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar í huga. Þetta mál vekur bjartsýni og eftirvæntingu í hugum margra landsbyggðarmanna. Við erum með fjöregg landsbyggðarinnar í höndunum, fjöregg Austfirðinga, sem kallað er álvershlussa af einum hv. þm. Reykvíkinga. Nú er bara að þreyja þorrann og góuna og sjá málið ganga upp og verða að veruleika, og ég kvíði engu.

Afstaða manna skiptist í grófum dráttum í fjóra hópa. Í fyrsta lagi eru þeir sem telja sjálfsagt að virkja og reisa álver og finnast Eyjabakkarnir ekki skipta miklu máli, teljast varla náttúruverndarsinnar. Í öðru lagi þeir sem vilja virkja og reisa álver þar sem það er þjóðhagslega hagkvæmt og stórkostlegt byggðamál og sjá eftir því landi sem fer undir uppistöðulón. Þessi hópur vegur og metur þá hagsmuni sem málið snýst um og kemst síðan að niðurstöðu, en er engu að síður náttúruverndarsinnar. Í þriðja lagi er hópurinn sem vill ekki virkja af því það skaðar náttúruna og vill heldur ekki álver vegna þess að þau eru stór og ljót fyrirtæki, oftast í eigu útlendinga. Þessi hópur veltir efnahagsmálum yfirleitt ekki mikið fyrir sér. Fjórði hópurinn er sá eini að mínu mati sem kemur fram af óheiðarleika. Það er hópurinn sem segist í sjálfu sér ekki hafa afstöðu til virkjunarinnar, en segist vilja að framkvæmdin fari í svokallað lögformlegt umhverfismat. Hugsunin sem býr að baki þeirri framsetningu er að dulbúa aðferð til að koma í veg fyrir að það verði virkjað. Því miður eru of margir sem ekki virðast kynna sér málið og skipa sér í þann hóp.

Við þingmenn höfum á borðum okkar skýrslu sem segir frá því hvaða áhrif það hefur á náttúru og mannlíf að virkja norðan Vatnajökuls og að byggja 120 þús. tonna álver á Reyðarfirði. Sú skýrsla er nákvæmlega sú skýrsla sem yrði send skipulagsstjóra ef málið hefði fallið undir lög frá 1993 um mat á umhverfisáhrifum. Sá misskilningur að þessi skýrsla sé ekki marktæk af því hún sé unnin af Landsvirkjun virðist teygja sig inn í sali Alþingis, miðað við ræður hv. þm. Frjálslynda flokksins fyrr í umræðunni. Samkvæmt margnefndum lögum frá 1993, um mat á umhverfisáhrifum, er það framkvæmdaaðilinn sem vinnur frummatsskýrsluna. Allt tal um að þessi skýrsla sé ekki trúverðug vegna þess að hún sé unnin af Landsvirkjun byggist því á vanþekkingu. Ég vek athygli á því að sú skýrsla er tilbúin til framlagningar nú í nóvember, þannig að það er fyrst nú sem það ferli sem tengist skipulagsstjóra hefði getað hafist. Það er þess vegna líka byggt á misskilningi að það ferli hefði getað hafist fyrir löngu eins og sumir halda fram og því hefði lögformlegt umhverfismat ekki þurft að tefja tímann.

Ég met mikils sérfræðinga okkar á þessu sviði, en Alþingi og hv. alþm. hafa aldrei gefið frá sér þann rétt og þá skyldu að hafa skoðun á málum. Það sýnir best tvískinnunginn í máli manna, eins og kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að leggja í fyrri hluta ræðu sinnar áherslu á að hin svokallaða lögformlega leið sé farin en segja svo í lok ræðunnar að vinstri grænir vilji friða Eyjabakka. Ég hefði borið meiri virðingu fyrir hv. þm. ef hún hefði sleppt dulbúnu aðferðinni við að eyðileggja málið en sagst einfaldlega vera á móti Fljótsdalsvirkjun.

[15:00]

Hefði verið farið að lögum frá árinu 1993 í þessu máli þá hefði skipulagsstjóra verið send margnefnd skýrsla. Hann hefði síðan kallað eftir athugasemdum utan úr þjóðfélaginu og hugsanlega eftir viðbótarupplýsingum frá framkvæmdaaðila, þ.e. Landsvirkjun. Þetta átti að verða stór stund hjá fjórða hópnum sem ég talaði um áðan. Á þessum tíma átti að grípa til allra tiltækra ráða til að tefja og skemma fyrir.

Nú þegar búið er að rannsaka og undirbúa framkvæmdir fyrir um 3 milljarða kr. vegna þessara framkvæmda, dettur þá einhverjum í hug að mikið vanti af upplýsingum? Það vantar ekki upplýsingar til þess að venjulegur Íslendingur sem les og hlustar geti tekið afstöðu með eða á móti virkjun í Fljótsdal, með eða á móti uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni, nánar tiltekið á Austurlandi.

Ég ítreka enn að þessi umræða snýst ekki um hvort fram skuli fara mat á umhverfisáhrifum skv. lögum um það efni frá árinu 1993 eða ekki. Sumir hafa í þessari umræðu kallað það að fara að settum reglum. Það að svo skuli ekki gert er ákveðið með samþykkt þeirra laga. Auk þess tel ég að slíkt hefði ekki verið gert þrátt fyrir að umrætt bráðabirgðaákvæði hefði ekki verið samþykkt.

Það er algild regla, bundin ákvæðum stjórnarskrár, að lög skuli ekki vera afturvirk. Landsvirkjun hafði leyfi fyrir virkjun í Fljótsdal sem veitt var af iðnrh. árið 1991 og greiddi fyrirtækið einn og hálfan milljarð fyrir á núvirði á grundvelli samnings frá 11. ágúst 1982. Virkjunarleyfið telst því eign fyrirtækisins samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Leyfisveiting ráðherra byggist á heimild Alþingis til virkjunarinnar frá 1981.

Hæstv. forseti. Við megum engan tíma missa í þessu máli. Þá er ég ekki fyrst og fremst að hugsa um samningaviðræður sem við eigum í við erlenda aðila vegna uppbyggingar álvers og þá viljayfirlýsingu sem undirrituð var á Hallormsstað sl. sumar heldur þá staðreynd að landsbyggðin má ekki veikjast enn frekar. Auk þess vantar um 20 milljarða kr. í þjóðarbúið árlega til þess að endar nái vel saman. Varanleg áhrif þessara framkvæmda á þjóðarframleiðslu verða 1,2% og útflutningur eykst um ríflega 4%. Skyldi þetta ekki hafa eitthvað með það að gera hver kaupmáttur fólks verður í landinu og lífsskilyrði almennt á komandi árum og áratugum? Það er því í meira lagi ósanngjarnt þegar því er haldið fram að stjórnvöld hafi ekki áhyggjur af lífsmöguleikum komandi kynslóða. Þetta mál snýst einmitt um að tryggja lífsmöguleika komandi kynslóða.

Þegar Framsfl. kom að stjórn landsins á nýjan leik árið 1995 var atvinnuleysi að festast í sessi og fjárfesting í lágmarki. Á síðasta kjörtímabili var tekin ákvörðun um að stækka álverið í Straumsvík og byggja álver Norðuráls á Grundartanga. Mér fannst orka tvímælis hvort réttlætanlegt væri að fara í svo miklar framkvæmdir hér á suðvesturhorninu vegna þeirra áhrifa sem það kynni að hafa á landsbyggðinni. Raunin varð hins vegar sú að þessar framkvæmdir urðu vendipunkturinn í atvinnumálum þjóðarinnar. Það var þjóðfélagslega hagkvæmt að fara út í þessar framkvæmdir en þá var ákveðið að ef upp kæmu fleiri tækifæri á þessu sviði yrðu þau stóriðjuver byggð upp á landsbyggðinni.

Nú blasir það tækifæri við okkur að gera stórátak á Austurlandi með fjölgun starfa, á framkvæmdatíma um 730 manns og til frambúðar um 270 manns miðað við 120 þús. tonna álver. Það yrðu um 570 störf miðað við að 240 þúsund tonna álver verði reist til viðbótar og tekið í notkun árið 2008.

Tölur um búferlaflutninga á Miðausturlandi á árunum 1971--1999, þ.e. 27 ára tímabili, sýna að 2.385 fleiri fluttu frá svæðinu en til þess eða 85 að meðaltali á ári. Í nóvember 1997 voru birtar niðurstöðutölur rannsóknar um orsakir búferlaflutninga sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Byggðastofnun. Könnunin sýnir að aðeins 50,5% þeirra sem höfðu fæðst á svæðinu og voru á lífi 1992 bjuggu þar enn. Fólk vill búa á Austurlandi en hins vegar þarf að skapa því aðstæður til þess. Ljóst er að verulegur þáttur í ákvarðanatöku fólks um búsetu er af sálrænum toga. Mikill vöxtur í atvinnulífi höfuðborgarsvæðisins á síðustu árum hefur virkað sem sterkt aðdráttarafl á íbúa landsbyggðarinnar. Það sama mun gerast ef atvinnulíf á Austurlandi tekur slíkan fjörkipp sem hér um ræðir.

Málið snýst ekki bara um störf á Austurlandi miðju, það snýst líka um svokölluð afleidd störf. Fyrir hvert eitt starf í álveri í Reyðarfirði verður til eitt til viðbótar á Miðausturlandi og 1,3 annars staðar á landinu. Afleidd störf verða samkvæmt þessu fleiri utan svæðisins en innan og með bættum samgöngum við Norðurland er augljóst að áhrifa mun gæta t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem Akureyri er langstærsti bær landsbyggðarinnar. Með bættum samgöngum verður um þriggja tíma akstur þaðan til Reyðarfjarðar.

Nú kem ég frekar að náttúruverndarþætti málsins. Ég tilheyri þeim sem ég flokkaði í hóp tvö í upphafi máls míns. Ég tel það vera fórn að sökkva Eyjabökkum en tel það verjandi vegna þess að við hljótum að nýta náttúruauðlindir okkar að ákveðnu marki hér eftir sem hingað til. Það er gleðilegt að samkvæmt könnun sem í gær var birt telur 60% þjóðarinnar að áfram eigi að virkja vatnsafl.

Hv. þingmönnum ber skylda til að taka afstöðu í þessu máli. Málið snýst annars vegar um að byggja upp atvinnulíf til frambúðar á Austurlandi og skapa fleiri hundruð ný störf, auka þjóðarframleiðslu um 1,2% en leggja nokkra tugi ferkílómetra gróins lands á Eyjabökkum undir uppistöðulón. Hinn kosturinn er að taka virkjanaleyfið af Landsvirkjun og greiða milljarða í skaðabætur. Með því yrði tekin ákvörðun um að virkja ekki norðan Vatnajökuls. Fólki mun þá halda áfram að fækka á Austurlandi og lífsskilyrði munu óhjákvæmilega versna í landinu.

Hæstv. forseti. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan samþykkt Náttúruverndarráðs sem hér hefur verið til umfjöllunar var gerð. En Náttúruverndarráð var ekki andvígt virkjun. Það er ekki nema gott um það að segja að umhverfisvakning hefur átt sér stað, þess sjást víða merki. Sem dæmi um breytt viðhorf nefni ég línulagnir. Ég tel fullvíst að í dag hefði þeirri ákvörðun sem tekin var í ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl., um háspennulínu þvert yfir hálendið, verið mótmælt kröftuglega, hefði hún komið til framkvæmda. Frágangur í tengslum við vegagerð hefur tekið miklum framförum á síðustu árum en auðvitað er verið að skemma mikið land á þann hátt. Akstur utan vega er eitt vandamál sem tekið hefur verið á og nú stendur til að lögfesta skaðabótakröfur því tengdar. Það er langt frá því að fullkominn árangur hafi náðst og nú í miðri rjúpnavertíð er því miður víða pottur brotinn.

Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti: Fyrr í umræðunni setti hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fram skilgreiningu á því sem kallað hefur verið sjálfbær þróun. Í því felst að rýra ekki möguleika komandi kynslóða. Ég fullyrði að það er ekki hægt að halda því fram að verið sé að rýra möguleika komandi kynslóða með þeim framkvæmdum sem hér um ræðir. Ég segi: Það er verið að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Það er verið að auka möguleika Íslendinga framtíðarinnar til bættra lífskjara og þess að búa hér á landi. En eins og allir vita er ekki lengur hægt að líta á það sem sjálfsagðan hlut að vilji ungs fólks standi til þess.