Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:31:05 (1501)

1999-11-16 16:31:05# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt við það að afstaða einstakra þingmanna, afstaða einstakra embættismanna eða félagasamtaka sem láta sig þetta mál snerta, breytist frá einum tíma til annars. Það ætti hv. þm. að þekkja best, því það kom fram í umræðunni fyrr í dag að formaður samtaka vinstri rauðra hafði þá skoðun fyrir fáum árum síðan að það ætti að byggja álver á Reyðarfirði. En nú hefur hans afstaða breyst. Er það nokkuð óeðlilegt? Nei, það er ekkert óeðlilegt. En hv. þm. verður að vera sanngjarn í sinni umfjöllum. Það eru ekki bara vinstri rauðir eða vinstri grænir sem hafa rétt til þess að skipta um skoðun. Aðrir verða að hafa þann rétt líka.