Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:40:24 (1509)

1999-11-16 16:40:24# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn hefur staðfest að hann vill hætta við að virkja. Hann tók líka fram að hann teldi að allir þeir sem létu sig náttúruvernd einhverju skipta væru honum sammála. Þá vitum við það. Allir sem ekki eru honum sammála láta sig náttúruvernd engu skipta. Það er náttúrlega mjög gott að geta skreytt sig með þessu. En mér er það alveg óskiljanlegt hvernig menn geta sagt svona. Ég veit ekki betur en að menn hefðu fjallað um þessi vatnasvæði af mikilli alvöru og gaumgæft þetta mjög vel og verið taldir miklir náttúrusinnar. Hér er ég með fyrir framan mig bók Orkustofnunar frá 1981. Ritstjóri hennar er Hjörleifur Guttormsson. Þar er farið mjög nákvæmlega í dýralíf og plöntulíf og allt sem þetta varðar og þar er gengið út frá því að þessi svæði verði virkjuð. Ég vona nú að andlegur faðir þeirra græningjanna sé ekki kominn í hóp þeirra manna sem láta sig ekki náttúruvernd neinu skipta. Ég skil heldur ekki hvernig það má vera að það sé slæmt fyrir Austfirðinga að fá stóriðju eins og aðrir landsmenn.