Beiðni um fundarhlé

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 13:53:49 (1617)

1999-11-17 13:53:49# 125. lþ. 27.93 fundur 156#B beiðni um fundarhlé# (um fundarstjórn), KHG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í gær fór fram mikil umræða um dagskrármálið. Það var ekki vefengt að rétt væri að taka málið á dagskrá, ekki í einni einustu ræðu. Það eru margir á mælendaskrá, síðast þegar ég vissi voru um 16 manns á mælendaskrá. Þeir hljóta að bíða eftir því með óþreyju að fá að komast að til að flytja mál sitt. Helmingurinn af þeim er úr stjórnarandstöðunni og helmingurinn af ræðumönnum úr stjórnarliðinu. Ég held því að við ættum að sameinast um að haga fundarstjórn eins og til var ætlast og samkomulag er um, að umræðan haldi áfram. Ég vænti þess að formaður þingflokks vinstri grænna staðfesti það og það sé samkomulag um að umræðan haldi áfram í dag.

Hins vegar er sjálfsagt að beita sér fyrir því að þingflokksformenn hittist síðar í dag en við getum gert það undir umræðum, þurfum ekki að trufla þingsalinn eða halda honum í iðjuleysi á meðan við tölum saman.