Upplýsingatækni í skólum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:22:46 (1763)

1999-11-18 10:22:46# 125. lþ. 28.2 fundur 170. mál: #A upplýsingatækni í skólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvernig ráðuneytið hefur lagt þetta mál fyrir. Varðandi yfirlýsingu þá sem hv. þm. las ber að hafa í huga að þeir sem að henni stóðu gáfu yfirlýsinguna í tilefni af því að þeir vildu stofna til samstarfs við einkaaðila. Þeir voru í sjálfu sér ekki að andmæla því að Íslenska menntanetið yrði selt heldur gáfu þeir yfirlýsingu um að þeir væru reiðubúnir til samstarfs við þann aðila sem keypti Menntanetið um þá þætti sem hv. þm. rakti úr yfirlýsingu þeirra. Samstarf einkaaðila og skóla, sérstaklega á framhaldsskóla- og háskólastigi hefur þannig stóraukist. Við sjáum það t.d. varðandi fræðslunet, símenntunarmiðstöðvar og alls kyns nýtt framtak sem menn hafa sýnt á sviði menntamála. Þar er um að ræða náið samstarf á milli skóla og fyrirtækja. Hvers vegna skyldi ekki líka verða gott samstarf um þennan faglega þátt sem lýtur að nýtingu upplýsingatækninnar í skólum? Einkafyrirtækin þróast mun hraðar en opinber fyrirtæki geta gert og bregðast fyrr við nýjungum en opinber fyrirtæki gera.

Ég held að lykillinn, í þeirri stöðu sem við erum núna, að því að tryggja skólum sem besta þjónustu á sviði upplýsingatækni sé að fá öfluga einkaaðila til samstarf við skólakerfið á sömu forsendum og við sölu Íslenska menntanetsins.