Innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:13:04 (1788)

1999-11-18 11:13:04# 125. lþ. 28.5 fundur 87. mál: #A innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðalatriði í þessu máli er að þjóðir heims taki sig saman um að koma einhverju viti í nýtingu sjávarspendýra og þar eigum við góða bandamenn, sérstaklega í Noregi og í Japan. Við stóðum þétt með þessum og öðrum þjóðum á sínum tíma í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þessar þjóðir halda því fram að ýmislegt hafi breyst innan veggja þess eða sé líklegt til að breytast í framtíðinni. Ég ætla ekki að leggja endanlegt mat á það. En það er alveg ljóst að þessar samstarfsþjóðir okkar, bæði Japanar og Norðmenn, hvetja okkur til að koma til starfa í Alþjóðahvalveiðiráðinu á nýjan leik. Síðar í dag mun ég mæla fyrir tillögu um að Íslendingar gerist aðilar að CITES og það er m.a. vegna þess að við viljum hefja þar baráttu, að koma þar ýmsum hvalategundum út af friðunarlista en á CITES-listanum eru allar hvalategundir við Ísland friðaðar og viðskipti með þær afurðir bannaðar. Það er mjög mikilvægt að við förum inn í þetta samstarf og ég vænti þess að Alþingi geti samþykkt það. Að mínu mati eru því vaxandi líkur fyrir því að við göngum í Alþjóðahvalveiðiráðið. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að ekki eru aðstæður til að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið til þess að taka eingöngu þátt í fundum þess, við höfum allt annað að gera. Það verður að vera ákveðinn tilgangur í því, það verður að vera sá tilgangur að nýta hvalastofnana við Ísland og vinna með öðrum þjóðum í heiminum að koma upp á nýjan leik sjálfbærri nýtingu á sjávarspendýrum og reyna að vinna því betri skilning í heiminum en eins og þingheimur veit hefur hann verið afar lítill.