Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:48:54 (1874)

1999-11-18 14:48:54# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Nú sígur á seinni hluta þessarar umræðu sem ég vil þakka fyrir að hefur verið mjög málefnaleg og nokkuð upplýsandi. Þó er því ekki að neita að um málið eru tiltölulega skiptar skoðanir. Sem betur fer eru þær skiptu skoðanir ekki einvörðungu milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þar af leiðandi er málið nánast þverflokkspólitískt.

Það sem menn hafa lagt sérstaka áherslu á í þessari umræðu er fyrst og fremst að velta því upp hvað eftir annað, og hafa þá farið langt aftur í tímann, hvað hafi breyst frá því að Alþingi veitti árið 1981 heimild til að virkja Jökulsá í Fljótsdal. Þar vil ég tína til nokkur atriði og kannski sérstaklega þau fjögur sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í þessari umræðu.

Í fyrsta lagi held ég að við séum sammála um að frá upphaflegum áformum hafi orðið allveruleg breyting á náttúruvernd. Í þeim hugmyndum sem nú liggja fyrir um byggingu Fljótsdalsvirkjunar er miklu frekar hugað að náttúruverndarsjónarmiðunum en áður var. Nær helmingi minna af grónu landi fer undir vatn en upphafleg áform gerðu ráð fyrir. Einnig er gert ráð fyrir því að skurðir sem rista átti þvert og endilangt um alla Fljótsdalsheiði, eins og fram kemur í frummatsskýrslu Landsvirkjunar, hefðu haft veruleg áhrif á dýralíf á svæðinu. Þau áform eru ekki lengur uppi heldur er gert ráð fyrir að leiða vatnið í gegnum göng, 32 km leið úr miðlínunni niður í stöðvarhúsið. Þetta held ég að menn séu nokkuð sammála um.

Í öðru lagi hefur verið deilt um hvort framkvæmdir sem þessar, hvort sem það eru virkjunarframkvæmdirnar eða bygging álversins á Reyðarfirði, séu í raun mikið byggðamál og um það eru skiptar skoðanir. Ég tel framkvæmdirnar mikilvægt byggðamál og að mikilvægi þeirra hafi ekkert minnkað, kannski aukist, frá því að menn lögðu upphaflega af stað með virkjanaáform og hugmyndir um uppbyggingu stóriðju á Austurlandi. Hér hefur verið farið rækilega yfir þau mál og ég ætla ekki að endurtaka umræðuna um allar þær vonir og væntingar sem bundnar hafa verið við einstök verkefni, bæði fyrir austan og sunnan, en því miður hefur allt of lítið komið út úr því.

Í þriðja lagi hafa þjóðhagsleg áhrif af þessu ekki verið dregin í efa. Þau eru jafnmikilvæg ef ekki mikilvægari en þegar menn lögðu af stað í upphafi.

Það sem fyrst og fremst hefur breyst eru viðhorfin til umhverfismála. Þau hafa ekki aðeins breyst á síðustu 25 árum, heldur fyrst og fremst á síðustu árum, kannski fjórum eða fimm árum. Þá þurfa menn að velta því fyrir sér af hverju þessi viðhorf hafa breyst. Það er full ástæða til að taka tillit, eftir því sem hægt er, til breyttra viðhorfa í þessum efnum.

Viðhorfin hafa breyst vegna þess að ástandið í þjóðfélaginu er allt annað en fyrir fjórum árum. Ég veit að þeir hv. þm. sem hér eru vita að ástandið er mun betra en þá. Á þeim tíma, árið 1995, þegar atvinnuleysið var í algleymingi, kaupmáttarhrunið var í algleymingi, skattahækkanirnar voru í algleymingi og fjárlagahallinn var upp á tugi milljarða kr., þá var hér um algert kreppuástand að ræða. Við þær kringumstæður voru menn tilbúnir til að stíga hvaða skref sem var til að komast úr kreppunni.

Fyrir tilverknað uppbyggingar orkufreks iðnaðar tókst þetta á síðustu árum, árunum 1995--1999, með augljósum árangri. Árið 1994 vorum við í 1. sæti af þeim þjóðum sem skapa þegnum sínum bestu lífsgæðin. Í dag, fjórum árum síðar, erum við í fimmta sæti yfir þær þjóðir heims sem skapa þegnum sínum bestu lífsgæðin. Við höfum náð þessum árangri sem enginn dregur í efa að við höfum náð m.a. fyrir tilstuðlan þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað í orkufrekum iðnaði.

Við búum alveg örugglega við mesta kaupmátt í sögu lýðveldisins. Spurningin er hvort við ætlum að halda áfram á þessari braut eða hvort við erum tilbúin að stöðva hjól atvinnulífsins og hugsanlega ganga nokkur skref til baka. Þeir sem hugsa styst segja að engin hætta sé á þessu, þetta sé allt í fínu lagi, við þurfum engar áhyggjur að hafa, allt sé hér í góðu lagi og muni halda áfram að verða svo. Það er mikil tálsýn ef menn halda að svo sé.

Þá ályktun dreg ég út frá því að hagvöxturinn byggist á fjárfestingum og atvinnustigið byggist á hagvextinum og fjárfestingunni. Þetta hangir allt saman. Fjárfesting í orkufrekum iðnaði mun minnka mjög á næstu árum. Ég vil nefna sem dæmi:

Árið 1998 var fjárfesting í orkufrekum iðnaði 24,8 milljarðar kr. Á þessu ári verður hún 16,8 milljarðar. Þá geng ég út frá því að þetta sé fjárfesting miðað við þá samninga sem búið er að gera um orkufrekan iðnað á Austurlandi. Á næsta ári mun hún fara niður í 9,2 milljarða, árið 2001 niður í 400 milljónir og árið 2002 niður í 200 milljónir.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að ef ekkert verður að gert myndast hér aftur hætta á svipuðu ástandi í efnahags- og atvinnumálum og í upphafi þessa áratugar. Ef hins vegar þessar framkvæmdir ganga eftir þá munum við vera með fjárfestingarstig í kringum 20 milljarða kr. frá árinu 2000 og fram til ársins 2003.

Nú kunna einhverjir að segja að ekki sé endilega víst að allt fari á þessa leið þó að orkufrekur iðnaður dragist saman. Aðrir kunna að spyrja: Þurfum við endalaust og alltaf að vera með í gangi framkvæmdir í orkufrekum iðnaði upp á 20 milljarða kr. í fjárfestingu árlega? Nei, svo er ekki vegna þess að með þeim framkvæmdum sem við höfum lokið og þeim fyrirtækjum sem farin eru af stað, eftir því sem þeim fjölgar meir, því styrkari stoðum skjótum við undir efnahagslífið með varanlegri aukningu landsframleiðslu og útflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Við verðum hægt og bítandi betur í stakk búin til þess að takast á við kreppuna þegar hún kemur. En við erum ekki það vel í stakk búin að við séum örugg í þeim efnum.

En það eru nokkrir sem hafa áhyggjur af þessu. Og hverjir eru það? Það eru þeir sem hafa kannski mestra hagsmuna að gæta í þessum efnum. Það er fólk sem veit og skilur að launakjör þess og atvinnustig getur ráðist af því í hvaða framkvæmdir verður ráðist á þessu stigi. Samþykkt Verkamannasambands Íslands sem gerð var á 20. þingi ber þess glögg merki. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hana:

,,Fljótsdalsvirkjun ásamt álveri við Reyðarfjörð eru án efa áhrifamestu aðgerðir til að vinna gegn þeirri miklu byggðaröskun sem átt hefur sér stað mörg undanfarin ár á Austurlandi.

Álver við Reyðarfjörð mun hafa mikil áhrif á íbúa- og efnahagsþróun á Austurlandi auk jákvæðra áhrifa á íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Mikilvægt er að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun hefjist að nýju sem fyrst þannig að ekki verði sett í uppnám áform um uppbyggingu álvers við Reyðarfjörð.``

Þetta þing Verkamannasambandsins, þeir sem þar voru saman komnir vita að launakjörin, ráðstöfunartekjur þessa fólks, atvinnustigið og atvinna getur m.a. hangið á því hvort þarna tekst vel til. Við erum í tiltölulega öruggum störfum, a.m.k. næstu þrjú eða fjögur árin á meðan ekki er kosið, erum með ríkistryggingu á launum okkar og þurfum kannski ekki að hafa miklar áhyggjur af. En þetta fólk byggir kannski alla sína afkomu á því að nóg sé að gera. Það hefur áhyggjur og við skulum hlusta á orð þess.

Þá ætla ég að koma að einstökum spurningum hv. þingmanna. Hér hafa ekki verið bornar fram margar spurningar en þó eru þær nokkrar. Um leið ætla ég að fá að leiðrétta nokkrar rangar fullyrðingar sem slegið hefur verið fram við þessa umræðu.

[15:00]

Því er haldið fram að stórtap verði á orkusölunni og vitnað er í hagfræðinga sem hafa sent frá sér lærðar greinar í þeim efnum. Hagfræðingur sem hér hefur oft verið vitnað í er Sigurður Jóhannesson. Í útvarpsþætti þar sem forstjóri Landsvirkjunar og nefndur Sigurður mættu ekki alls fyrir löngu var farið nákvæmlega yfir einstaka þætti útreikninga Sigurðar. Það efast enginn um að Sigurður reiknar hárrétt og það geta allir reiknað rétt. En útkoman ræðst af því hvaða forsendur menn gefa sér í dæminu. Ég vona að menn skilji það. Í þessum þætti var farið yfir þrjá meginþættina sem skipta máli í útreikningunum, í fyrsta lagi raforkuverðið, í öðru lagi afkastageta Fljótsdalsvirkjunar og í þriðja lagi reiknivextirnir. Og forsendurnar sem Sigurður gaf sér, og reiknaði enginn með öðru en að hann væri að reikna rétt, eru allar rangar. Og þá er von á því að útkoman verði röng. Raforkuverðið er allt of lágt því að hagfræðingurinn gefur sér að orkuverð verði það sem stóriðjan er að borga í dag. Það hefur aldrei nokkurn tímann staðið til að semja um orkuverð úr nýrri virkjun eins og um orkuverð væri að ræða sem verið er að selja úr 25 eða 30 ára gömlum virkjunum sem eru að fullu afskrifaðar. Það hefur aldrei staðið til og hefur komið skýrt fram, en þegar menn gefa sér þetta og álverð á heimsmarkaði með því lægsta sem þekkist, þá verður útkoman auðvitað skökk. Í öðru lagi gaf Sigurður sér að afkastageta Fljótsdalsvirkjunar væri 1.250 gígavattstundir á ári. Það er líka rangt. Menn þurfa ekki annað en að lesa gögnin hér á borðunum. Gert er ráð fyrir því að afkastageta verði 1.400 gígavattstundir á ári. Og er nema von að niðurstaðan sé vitlaus. Í þriðja lagi eru reiknivextirnir líka allt of háir. Það er gert ráð fyrir 6% í staðinn fyrir 5,5% raunvöxtum, eins og t.d. allar alþjóðastofnanir miða við og ekki raunvexti, heldur nafnvexti, sem eru þá enn þá lægri en þetta. En við gerum þó ráð fyrir 5,5% raunvöxtum. Og þegar þetta er allt tekið saman er mjög auðvelt að sýna fram á að það sé stórtap, en forsendurnar eru vitlausar eins og ég hef farið hér yfir.

Eitt af því sem líka hefur verið gert mikið úr er áhættan af framkvæmdunum sem þarna er verið að ráðast í og að menn taki svo mikla áhættu. Málið er allt saman sett upp með þeim hætti eins og það sé ríkið sem taki áhættuna, þetta séu allt saman peningar frá skattborgurunum sem komi inn í fyrirtækið. Það er af og frá. Það er gert ráð fyrir því að einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir verði fjárfestarnir í fyrirtækinu. Það eru þeir aðilar sem eiga að bera ábyrgð á því hvort þeir vilji taka þátt í byggingu álversins á Reyðarfirði, það eru þeir sem eiga að bera ábyrgð á því. Auðvitað veit ég, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem situr í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að hann mun ekki taka ákvörðun um slíka framkvæmd nema vera algjörlega sannfærður um að góður arður sé af því verkefni fyrir sjóðfélaga viðkomandi sjóðs til framtíðar litið. Ég ætla honum ekki að gera annað og það er ekki hægt að ætlast til annars af nokkrum manni sem situr í stjórn þessara sjóða en að hann geri það. Og þannig munu þessir menn vinna, þeir munu taka ákvarðanir á grundvelli þessa.

Ýmist er talað um að álverið sé of stórt eða of lítið. Reynslan er þessi: Lítið álver, 60 þús. tonna álver á Grundartanga --- við erum að tala um helmingi stærra álver fyrir austan --- er mjög vel rekið og gengur vel, þannig að það er ekki of lítið. Ef það er of stórt ... (Gripið fram í: Við erum að tala um 480 þús. tonna álver.) 480 þús. tonna álver erum við að tala um að hugsanlega geti risið á Reyðarfirði, 180 þús. tonn á Grundartanga, en lítið álver á Grundartanga gengur vel.