Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:14:29 (1883)

1999-11-18 15:14:29# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli þeim orðum hæstv. iðnrh. að einungis tveir hv. þm. hafi gert athugasemdir við þessa skýrslu sem hér liggur fyrir. Ég hef bæði í ræðum mínum og andsvörum nefnt atriði, konkret atriði úr skýrslunni sem ég geri athugasemdir við. Hvað hefur breyst? spyr hæstv. ráðherra. Það hefur eitt og annað breyst í tilhögun stíflunnar. Ég hef líka getið um það í ræðum mínum fyrr í umræðunni. Margt hefur breyst til batnaðar og við erum sammála um það. Það breytir því ekki að breytingar kalla á lögformlegt mat á umhverfisáhrifum, hvort sem þær eru til góðs eða ills. Breytingar krefja okkur um að skoða málið betur. Þó að margir skurðir hafi farið í burtu þá eru samt eftir 5,6 km af skurðum og það eru eftir níu stíflur auk Eyjabakkastíflu sem á að reisa til þess að hjálpa bergvatni að fara inn í miðlunarlónið. Skurðirnir eru 5,6 km að lengd. Ég frábið mér því að ég hafi ekki gert efnislegar athugasemdir við þessa skýrslu og ég geri þær enn.