Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:49:47 (2035)

1999-11-22 18:49:47# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:49]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Þetta er mál sem horfir til bóta fyrir landbúnaðinn, þ.e. lagt er upp með sparnað og einföldun á lagaumhverfi landbúnaðar. Það er gott mál og margar ábendingar hafa komið hér fram í þessari umræðu. Það er vissulega rétt sem bent hefur verið á að talað er um sparnað upp á 32 millj. á ári, samt eru allir endurráðnir nema einn. Varla kostaði sá starfsmaður 32 millj. Hvaða kostnaður minnkar svona með því að hafa sama starfsfólk, sama húsnæði og nánast sömu verkefni? Skýringin kann að liggja í því að 190 millj. færast frá Framleiðsluráði landbúnaðarins yfir til Bændasamtaka Íslands, þeim ætlað að mynda þar sjóð og ég hygg að vextir af þeim sjóði verði nýttir til að greiða niður kostnað. Það hefur komið fram að hugsanlegt væri að verja þessum fjármunum öðruvísi, þetta eru auðvitað peningar sem bændur eiga. Það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan og fyllilega athugandi að lífeyrissjóðurinn njóti þeirra. Hitt er annað mál að hagur lífeyrissjóðsins og þar með hagur þeirra bænda sem hætta búskap og ætla að lifa á lífeyrisgreiðslum og eftirlaunum er svo, að þrátt fyrir að þessar 200 millj. kæmu inn í lífeyrissjóðinn yrðu þær eingöngu til þess að minnka örlítið tekjutryggingargreiðslurnar frá ríkinu. Svo slappur og bágur er Lífeyrissjóður bænda og ekki er vansalaust hvernig þeim málum er háttað.

Við munum fara vandlega yfir þetta mál í hv. landbn. og ég vænti þess að þar verði málið sem allra fyrst til lykta leitt. Meiningin er að frv. verði að lögum og taki gildi frá 1. janúar árið 2000. Við þurfum því að hafa hraðar hendur og ég vona að það takist og heiti á hv. nefndarmenn í landbn. að vinna vel að því.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að nóg væri af lánastofnunum fyrir bændur eða fyrir menn sem ættu eignir til að veita lán. Ég veit hins vegar að ýmsar lánastofnanir eru ekki óðfúsar að lána bændum út á fasteignir í sveitum og telja þær sumar helst ekki veðhæfar. Ákveðið var að fara þá leið að stofna Lánasjóð landbúnaðarins upp úr Stofnlánadeild landbúnaðarins vegna þess að þar voru 2 milljarðar sem höfðu myndast af viðskiptum við bændur og voru eign bænda. Því var ákveðið að hafa þennan hluta ekki með í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins heldur stofna sérstakan lánasjóð fyrir landbúnaðinn. Það má auðvitað deila um slíkt, en það eru önnur lög sem gilda um Lánasjóð landbúnaðarins og ástæða til að skoða það bara í öðru samhengi hvernig þeim málum verður fyrir komið, en ég þakka fyrir ágætar umræður.