Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:11:09 (2041)

1999-11-22 19:11:09# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:11]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er varðandi þessar 190 millj. Það er kannski óþarfi að við deilum sérstaklega um það atriði. Ég hygg að vandinn sé sá að lífeyrissjóðurinn er svo lélegur að þó að þessar 190 millj. kæmu inn þá mundu bændur ekki finna nokkurn mun á því heldur eingöngu ríkið. Það er svo sem gott að ríkið fyndi svolítinn mun á því, því að greiðslur ríkisins mundu lækka vegna tekjutryggingar vegna þess að bóndi sem búinn er að greiða í lífeyrissjóðinn, við skulum segja góður meðalbóndi, er samt sem áður langt fyrir neðan tekjutryggingu í greiðslum úr lífeyrissjóði. Það er, eins og hæstv. ráðherra sagði, áhyggjuefni.

Ég vil spyrja ráðherrann hvort þetta sé ekki réttur skilningur. Af því að hæstv. ráðherra bað um fyrirgefningu landbn. á því hversu seint málið er fram komið, og það er rétt að þetta er seint fram komið og gerir okkur óhægt um vik, þá vil ég segja, ekki síst vegna þess að ráðherrann er nýkominn af fundi páfa, að af hálfu landbn. og sem formaður hennar þá er honum hjartanlega fyrirgefið.