Áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 13:37:30 (2074)

1999-11-23 13:37:30# 125. lþ. 31.8 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta. Frv. er samið af sérstökum starfshópi með fulltrúum frá samgrn., menntmrn., Siglingastofnun Íslands, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Slysavarnaskóla sjómanna. Starfshópurinn átti mjög nána samvinnu við hagsmunaðila sem að málinu koma, en það er einkum Samband ísl. kaupskipaútgerða, Samtök atvinnulífsins, Vélstjórafélag Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasamband Íslands. Fullyrða má að sátt ríki um efni þessa frv. meðal hagsmunaaðila.

Starfshópurinn sem samdi frv. var skipaður af samgrh. 8. maí 1998 en hópnum var falið að undirbúa framkvæmd og gera tillögur um nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar vegna fullgildingar Íslands á alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna, svokölluð STCW-samþykkt sem er að stofni til frá 1978 en var breytt í verulegum atriðum árið 1995.

Starfshópnum var jafnframt ætlað að gera tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar vegna tilskipunar frá Evrópusambandinu um lágmarksþjálfun sjómanna frá 1974. Sú tilskipun er hluti þeirra gerða sem taka verður inn í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins.

Megintilgangur frv. er því að tryggja að íslenskir sjómannaskólar og menntun íslenskra sjómanna uppfylli alþjóðlegar kröfur með því að aðlaga íslenska löggjöf að fyrrnefndri alþjóðasamþykkt um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna og að tilskipun Evrópusambandsins um lágmarksþjálfun sjómanna. Með því á að tryggja að menntun og atvinnuskírteini íslenskra sjómanna verði viðurkennd annars staðar en hér á landi.

Alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna var samþykkt á allsherjarþingi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar sumarið 1978. Hún öðlaðist gildi 28. apríl 1984 þegar hún hafði verið fullgilt af 25 ríkjum sem áttu meira en helming af samanlögðum kaupskipaflota heimsins. Samþykktin var fyrsta tilraun þjóða heims til að setja alþjóðlegar lágmarkskröfur um þjálfun og menntun áhafna kaupskipa. Hún er talin ein mikilvægasta alþjóðasamþykkt sem gerð hefur verið til að auka öryggi sjómanna.

Tilefni samþykktarinnar var í upphafi ekki síst að mikils misræmis hafði gætt um menntunar- og þjálfunarkröfur sjómanna á flutninga- og farþegaskipum í einstökum aðildarríkjum IMO. Áður hafði hvert ríki sett eigin kröfur í þessum efnum og engir alþjóðastaðlar voru til um útgáfu atvinnuskírteina til handa skipstjórnar- og vélstjórnarmönnum á flutninga- og farþegaskipum. Brýnt var því að samræma þessar kröfur til að auka öryggi skipa og áhafna.

Í samþykktinni er kveðið á um lágmarksstaðla sem samningsaðilum er skylt að uppfylla en þeir mega þó setja strangari kröfur og ganga sum ríki lengra í námskröfum sínum til atvinnuréttinda. Með gildistöku samþykktarinnar átti hún því að hafa þau heildaráhrif að auka hæfniskröfur til sjómanna um heim allan.

Ísland varð fullgildur aðili að samþykktinni 21. júní 1995 og voru þá sett lög um áhafnir íslenskra kaupskipa og lögum um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna breytt til samræmis við kröfur samþykktarinnar.

Seint á níunda áratugnum kom í ljós að samþykktin náði ekki í öllum tilvikum tilgangi sínum þótt stuðningur við hana væri orðinn mjög víðtækur, en hinn 1. júlí 1995 höfðu 113 ríki sem áttu 94,6% af skipastóli heims fullgilt hana. Meginorsök þessa virtist vera að aðilar samþykktarinnar höfðu ekki samræmda túlkun á framkvæmd hennar. Mörg ríki vanræktu að tryggja að farið væri með fullnægjandi hætti að kröfum hennar. Af þeim sökum var ekki lengur hægt að treysta á STCW-skírteini til sönnunar á hæfni. Með því að dró úr trúverðugleika samþykktarinnar og stjórnmálamenn og almenningur höfðu af því áhyggjur að sjóslys voru í auknum mæli rakin til mistaka jókst gagnrýni á samþykktina og IMO.

Af fyrrgreindum ástæðum var ákveðið að gera grundvallarbreytingar á samþykktinni. Meginmál hennar var óbreytt en nýr viðauki var tekinn inn í stað þess gamla auk þess sem svokallaður STCW-bálkur, kóði, var tekinn inn í hana. Í meginmáli og viðauka eru lagalegar kröfur en þær eru nánar útlistaðar í bálknum. Hin endurskoðaða alþjóðasamþykkt var undirrituð 7. júlí 1995 af 71 aðildarríki, þar á meðal Íslandi, og tók gildi 1. febrúar 1997. Fram til 1. febrúar 2002 mega samningsaðilar þó gefa út og viðurkenna skírteini sem giltu fyrir þann dag og varða sjómenn sem hófu nám eða byrjuðu að safna siglingatíma fyrir 1. ágúst 1998. Í ársbyrjun 2002 eiga allir skipstjórnar- og vélstjórnarmenn á flutningaskipum og farþegaskipum að hafa fengið í hendur skírteini gefin út samkvæmt samþykktinni. Nýju skírteinin eiga að tryggja að lögmætir handhafar þeirra hafi þá þekkingu og hæfni sem kveðið er á um í samþykktinni. Önnur skírteini verða ekki viðurkennd og þar með er komið í veg fyrir að skipstjórnar- og vélstjórnarmenn gegni ábyrgðarstöðum um borð í flutninga- og farþegaskipum án löglegra skírteina.

Almennt hefur verið talið að menntun íslenskra sjómanna sé í samræmi við þær lágmarkskröfur sem samþykktin kveður á um enda hafa íslenskir stýrimenn og vélstjórar vandkvæðalaust fengið atvinnuskírteini sín viðurkennd í öðrum löndum. Íslensku sjómannaskólarnir hafa lagað nám og námskrár sínar að samþykktinni. Með frv. þessu eru gerðar nauðsynlegar breytingar til samræmis við endurskoðuðu samþykktina. Engin bein úttekt hefur verið gerð af hálfu IMO á menntun sjómanna á Íslandi en í endurskoðuðu samþykktinni er kveðið á um að samningsaðilar skuli senda IMO gögn um framkvæmd hennar innan lands og hvernig menntun og þjálfun sé háttað. Starfshópur sá sem fyrr er nefndur vann og tók saman ítarleg gögn á ensku um framkvæmd menntunar og þjálfunar sjómanna á Íslandi, sem höfðu m.a. að geyma námskrár Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands, gildandi atvinnuréttindalög og ýmsar reglugerðir því tengdar og voru þau gögn send til IMO í lok júlí 1998. Þessi gögn er nú verið að meta innan IMO af þar til kvöddum sérfræðingum. Í framhaldi af því verður gefinn út svokallaður hvítlisti sem er skrá yfir þau ríki sem að mati IMO uppfylla ákvæði samþykktarinnar. Mjög mikilvægt er að Ísland komist á þennan hvítlista til þess að menntun og skírteini íslenskra sjómanna verði viðurkennd á alþjóðavettvangi.

[13:45]

Ef Ísland kæmist ekki á listann yrðu afleiðingarnar m.a. þær að skírteini okkar manna yrðu litin hornauga og íslensk skip jafnvel stöðvuð í erlendum höfnum. Þannig kynnum við að verða settir í hóp með vanþróuðum þjóðum á sviði siglinga. Stýrimenn og vélstjórar með íslensk skírteini kynnu að eiga erfitt með að fá störf um borð í erlendum skipum en þeir íslensku skipstjórnar- og vélstjórnarmenn sem eru við störf erlendis núna ættu á hættu að missa störf sín.

Afhending ofannefndra gagna er nauðsynlegt aðhald fyrir samningsaðila til að tryggja að þeir hrindi ákvæðum samþykktarinnar í framkvæmd. Eftir 1. ágúst 1998 var þess krafist að kennsla í öllum viðurkenndum sjómannaskólum yrði í samræmi við endurskoðuðu samþykktina. Sjómenn sem hófu nám í viðurkenndum sjómannaskólum eftir áðurnefndan dag og standast próf verða þar af leiðandi að uppfylla kröfur um fræðilegt nám. Auk þess er krafist tiltekins siglingatíma.

Í 1. gr. frv. er fjallað um gildissvið laganna. Lögunum er ætlað að taka til allra þeirra sem starfa um borð í íslenskum flutninga- og farþegaskipum og eru skráð samkvæmt lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.

Jafnframt er miðað við að frv., verði það að lögum, gildi um farþegabáta og skemmtibáta eftir því sem við á og nánar er tilgreint. Um farþegabáta er fjallað í 6. gr. frv., þ.e. um skírteini sem krafist er til að starfa um borð í farþegabátum og um mönnun farþegabáta. Um skemmtibáta er fjallað í 7. gr. frv.

Gildissviðið er heldur rýmra en alþjóðasamþykktin en hún miðast við að einstök ríki geti sett reglur sem gilda aðeins á skýldum hafsvæðum og strandsiglingum. Alþjóðasamþykktin tekur aðeins til skipa sem sigla á opnu hafi og undir hana falla ekki herskip, fiskiskip, skemmtibátar eða tréskip af frumstæðri gerð.

Í 2. gr. frv. fjallað um orðskýringar. Hér eru einstök orð sem notuð eru í frv. skilgreind. Byggt er á sömu skilgreiningum og notaðar eru í alþjóðasamþykktinni og þeim skilgreiningum sem koma fram í gildandi atvinnuréttindalögum, sbr. 2. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, nr. 112/1984, og 1. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984.

Nokkur ný hugtök eru skilgreind sem ekki hafa verið skilgreind eða notuð í íslenskri löggjöf áður, t.d. farþegabátur, námsstig, fjarskiptamaður, skýld hafsvæði, öryggismönnun, sjómannaskóli, ábyrgðarsvið, stjórnunarsvið, rekstrarsvið og stoðsvið.

Hugtakið skírteini er skilgreint sem viðeigandi staðfesting er nær bæði til skírteina sem eru útgefin af viðkomandi yfirvaldi og áritana í samræmi við ákvæði laganna og alþjóðasamþykktarinnar. Tekið er fram að skírteini eða áritun á skírteini nái til ábyrgðarsviðs sem tilgreint er, til ákveðinnar tegundar skipa, t.d. olíu- og efnaflutningaskipa, eða ákveðinna vélagerða, t.d. eimvéla eða gastúrbínuvéla og svo dísilvéla.

Hugtakið sjómannaskóli er skilgreint sem menntastofnun sem viðurkennd er af menntamálaráðherra eða samgönguráðherra, en það er með tilliti til þess að Slysavarnaskóli sjómanna heyrir undir samgönguráðuneytið samkvæmt lögum nr. 33/1991.

Í 3. gr. er gerð krafa um að allir skólar sem annast menntun og þjálfun áhafna skipa sem frv. tekur til skuli uppfylla kröfur laganna, alþjóðasamþykktarinnar og skuldbindinga samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, er miðað við að Starfsgreinaráð sjávarútvegs og siglinga geri tillögur til menntamálaráðherra um námskrár framhaldsskóla, þ.e. sjómannaskóla, þar með talið menntun og þjálfun áhafna flutninga- og farþegaskipa. Miðað er við að Starfsgreinaráð leiti umsagnar Siglingastofnunar Íslands um efni slíkra námskráa enda ber Siglingastofnun Íslands ábyrgð á framkvæmd alþjóðasamþykktarinnar gagnvart IMO sem setur reglur um menntun og þjálfun áhafna skipa á alþjóðavettvangi.

Um Slysavarnaskóla sjómanna gilda lög nr. 33/1991. Skólinn fellur undir samgönguráðuneytið og er því miðað við að samgönguráðherra staðfesti námskrá skólans hvað varðar menntun og þjálfun sjómanna.

Miðað er við að menntamálaráðuneytið og Siglingastofnun Íslands hafi eftirlit með því að kröfum skv. 1 mgr. sé fullnægt.

Í 4. gr. er fjallað um útgáfu og skilyrði fyrir skírteinum. Samkvæmt gildandi lögum eru skírteini til skipstjórnar- og vélstjórnarmanna gefin út af sýslumönnum úti á landi og tollstjóranum í Reykjavík, sbr. 13. gr. laga nr. 112/1984, um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, og 9. gr. laga nr. 113/1984, um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Í 1. mgr. er miðað við óbreytt fyrirkomulag í þeim efnum. Hins vegar er lagt til að sýslumenn og tollstjórinn í Reykjavík hafi samráð við Siglingastofnun Íslands við útgáfu þeirra til að tryggja að samræmi verði í útgáfu skírteinanna hjá öllum embættum sem hafa slíka útgáfu með höndum.

Í 2. mgr. er lagt til að Siglingastofnun Íslands gefi út alþjóðleg skírteini samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og er það ekki breyting frá því sem ákveðið var árið 1995, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum og 5. mgr. 9. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum. Þykir sú skipan nauðsynleg til að tryggja samræmda útgáfu skírteinanna þar sem um verður að ræða alþjóðleg skírteini sem geta veitt réttindi til starfa á öllum flutninga- og farþegaskipum sem skráð eru í ríkjum sem aðilar eru að alþjóðasamþykktinni en þau eru núna um 130 talsins.

Í 3. mgr. er kveðið á um að hver sem fær útgefið skírteini verði að uppfylla kröfur um siglingatíma, aldur, heilbrigði, menntun og þjálfun, hæfni og próf. Um þessi skilyrði á að fjalla nánar í reglugerð, sbr. 17. gr. frv. Ákvæði þetta er í samræmi við gildandi atvinnuréttindalög.

Í 4. mgr. er kveðið á um að skipstjóri á íslensku skipi skuli ávallt vera íslenskur ríkisborgari. Hins vegar er gert ráð fyrir því að ríkisborgarar á EES-svæðinu geti starfað sem skipstjórar á íslenskum flutninga- og farþegaskipum hafi þeir nauðsynlega þekkingu í íslensku tal- og ritmáli. Þessi regla er í samræmi við reglur annarra ríkja á EES-svæðinu þar sem einstök lönd gera kröfu um að skipstjóri á skipum þess séu innlendir.

Í 5. mgr. er kveðið á um að yfirmenn á stjórnunarsviði sem þar eru taldir upp skuli hafa þekkingu á íslenskum lögum og reglum sem varða störf þeirra og að þeir geti tjáð sig innbyrðis á sama tungumáli um starfssvið sitt.

Í 6. mgr. er gerð krafa um að frumrit skírteinis skuli vera um borð í skipinu sem skírteinishafi starfar á. Þetta ákvæði er í samræmi við alþjóðasamþykktina og gildandi atvinnuréttindalög, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og 113/1984, með síðari breytingum. Þessi krafa er nauðsynleg vegna alþjóðlegs hafnarríkiseftirlits.

Í 7. mgr. er miðað við að Siglingastofnun Íslands haldi skrá yfir öll útgefin skírteini.

Í 5. gr. eru talin upp þau skírteini sem krafist er til starfa um borð í flutningaskipum og farþegaskipum og eru þau flokkuð eftir því hvaða ábyrgðarsviði starfið tilheyrir, þ.e. stjórnunarsvið, rekstrarsvið og stoðsvið. Þessi flokkun og heiti skírteina byggist alfarið á alþjóðasamþykktinni. Jafnframt er miðað við það að í reglugerð verði kveðið á um önnur skírteini, t.d. skírteini sem taka sérstaklega til ekjufarþegaskipa og efnaflutningaskipa.

6. gr. fjallar um farþegabáta en skv. 2. gr. frv. er farþegabátur hvert það skip minna en 500 brúttótonn í strandsiglingum eða í siglingum innan skýldra hafsvæða og á stöðuvötnum sem siglir með farþega í atvinnuskyni, t.d. í stuttar skoðunar- eða veiðiferðir, og samþykkt er sem slíkt af Siglingastofnun Íslands.

Í 7. gr. er hins vegar fjallað um skemmtibáta, en skv. 2. gr. frv. er skemmtibátur hvert það skip sem ekki er notað í atvinnuskyni og ætlað er til skemmtisiglinga óháð þeirri orku sem knýr skipið. Skv. 1. gr. frv. tekur það aðeins til skemmtibáta sem skráðir eru á skipaskrá. Samkvæmt lögum um skráningu skipa á að skrá skip á skipaskrá sem eru 6 metrar á lengd eða lengri, mælt milli stafna. Núna eru á íslenskri skipaskrá um 230 skemmtibátar og eru flestir þeirra um 5--30 brúttótonn. Þetta er í fyrsta sinn sem fjallað er sérstaklega um skemmtibáta í lögum og krafist skírteinis til að stjórna slíkum skipum. Erlendis hafa í mörg ár gilt ítarleg ákvæði um menntun og þjálfun þeirra sem stjórna skemmtibátum. Margir þeirra sem eiga skemmtibát hafa hins vegar aflað sér menntunar á þessu sviði.

Það krefst kunnáttu og þekkingar að stjórna skemmtibáti eins og öðrum bátum. Því er nauðsynlegt að þeir sem stjórna slíkum bátum hafi til þess þá lágmarksþekkingu sem krafist er af öðrum sem um svæðið sigla og nauðsynleg er til að fyllsta öryggis sé gætt. Þeir þurfa að geta sannað þekkingu sína með einhverjum hætti. Stjórnendur skemmtibáta verða að kunna að haga sér í samræmi við siglingareglurnar á umferðarleiðum til að tryggja öryggi bátsins og manna um borð og annarra sem á sjó sigla. Þeir þurfa einnig að geta staðsett bátinn og komist aftur til lands þótt aðstæður séu erfiðar. Einnig verða þeir að geta brugðist rétt við hættum á neyðarstundu. Aukin hætta er á mistökum ef kunnáttan er lítil. Mistök og vanþekking getur valdið tjóni, jafnt á skemmtibátnum sjálfum sem öðrum skipum og umhverfi, auk meiðsla á fólki. Það tjón sem hlýst af mistökum eða vanþekkingu ber síðan tryggingafélag bátsins.

Með hliðsjón af þessu er eðlilegt að gerðar séu kröfur til að mega stjórna skemmtibátum á sama hátt og gert er um önnur farartæki. Í reglugerð verður nánar kveðið á um þær námskröfur sem gerðar eru til þeirra sem óska eftir að fá skírteini til að stjórna skemmtibát og miðar frv. við að svokallað 30 brúttórúmlesta námskeið sé fullnægjandi, en tekið verður upp heitið 50 brúttótonna námskeið eftir gildistöku þessa frv., verði það að lögum.

Í 18. gr. frv. er lagt til að ákvæði 7. gr. taki gildi 1. janúar 2002, þ.e. ákvæðið sem snýr að skemmtibátunum þannig að enn er nokkur umþóttunartími. Eftir þann tíma verða allir sem sigla skemmtibátum að hafa aflað sér tilskilinnar menntunar og þjálfunar og hafa fengið útgefið skírteini sem 7. gr. gerir kröfu um.

Í 8. gr. er fjallað um viðurkenningu erlendra skírteina. Megintilgangur með alþjóðasamþykktinni er eins og fyrr hefur komið fram að gera samræmdar kröfur um menntun og þjálfun sjómanna á flutninga- og farþegaskipum. Í þeim tilgangi gátu aðildarríki samþykktarinnar fyrir 1. ágúst 1998 sent IMO gögn um menntun og þjálfun sjómanna í sínu heimalandi. Um 90 ríki sendu slík gögn og á undanförnum mánuðum hafa fulltrúar á vegum IMO farið yfir þau gögn og metið hvort ríkin uppfylli kröfur alþjóðasamþykktarinnar. Í maí næstkomandi stefnir IMO að því að gefa út svokallaðan hvítlista, sem er listi yfir þau ríki sem hafa uppfyllt ákvæði samþykktarinnar að mati IMO.

Meginreglan er sú að ekki er heimilt að viðurkenna skírteini sem gefin eru út af ríki sem ekki er aðili að samþykktinni eða af ríkjum sem eru aðilar að samþykktinni en hafa ekki uppfyllt ákvæði hennar. Á grundvelli alþjóðasamþykktarinnar er Siglingastofnun heimilt að viðurkenna skírteini frá ríkjum sem eru aðilar að alþjóðasamþykktinni og er lagt til að gerðar verði sömu menntunarkröfur til erlendra ríkisborgara og innlendra.

[14:00]

Tilskipun ráðsins 89/48/EBE fjallar um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár. Tilskipun ráðsins 92/51/EBE, sem vísað er til í lagagreininni, fjallar hins vegar um viðurkenningu á starfsmenntun og starfsþjálfun sem fyrrnefnda tilskipunin tekur ekki til og ekki er fjallað um í sérstökum tilskipunum. Í tilskipuninni er gerð grein fyrir hvernig farið skuli með umsóknir um viðurkenningu á starfsmenntun og starfsþjálfun. Almennt er miðað við að hafi umsækjandi fengið útgefið prófskírteini í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins sé ekki unnt að synja honum um heimild til að starfa í viðkomandi starfsgrein með sömu skilyrðum og ríkisborgurum viðkomandi ríkis. Þrátt fyrir þetta getur gistiríkið gert vissar ráðstafanir, ef verulegur munur er á menntun umsækjanda og þeirri menntun sem gerð er krafa um í gistiríkinu. Hér má nefna að í slíkum tilvikum getur gistiríkið gert kröfu um að umsækjandinn ljúki tilteknum aðlögunartíma eða taki hæfnispróf.

Í tilskipun Evrópusambandsins, sem jafnframt gildir á Evrópska efnahagssvæðinu, um lágmarksþjálfun sjómanna 94/58/EB, sbr. breytingu 98/35/EB, er fjallað um hvernig standa eigi að viðurkenningu á skírteinum ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í 9.--10. gr. er kveðið á um undaþágunefnd sem starfar samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laganna um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984, með síðari breytingum, og 8. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum, fjalli einnig um undanþágur til starfa á flutningaskipum eða farþegaskipum. Miða skal við að fulltrúar útgerða og stéttarfélaga eigi sæti í nefndinni eftir því á hvaða tegundum skipa og til hvaða starfa undanþágur eru til umfjöllunar hverju sinni. T.d. fulltrúi útgerðar eftir flokkun skipa og fulltrúa stéttarfélaga eftir því hvaða félagi sá sem óskar eftir undanþágu.

Um undanþágur skv. 6. og 7. gr. sem taka til farþegabáta og skemmtibáta ákveður Siglingastofnun eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.

Í 10. gr. er kveðið á um hvernig með skuli fara ef veita á undanþágu til að gegna tilteknu starfi um borð í skipi. Ákvæði greinarinnar byggjast alfarið á ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar.

Í 11. gr. er gert ráð fyrir að þeir sem hafa skírteini fyrir gildistöku frv., það er nauðsynlegt að undirstrika það, verði það að lögum, haldi sínum réttindum óskertum, enda fullnægi þeir öðrum kröfum frv. t.d. um endurnýjun skírteina og viðhald skírteina. Við gildistöku frv., verði það að lögum, er þessum aðilum heimilt að fá gefin út ný skírteini þó gildistími þeirra sé ekki runninn út.

Í 2. mgr. er miðað við að svokölluð 30 brúttórúmlestanámskeið, hið svokallaða pungapróf, verði hér eftir nefnt 50 brúttótonnanámskeið í samræmi við breyttar mælireglur skipa. Miðað er við að þeir sem hafa lokið 30 brúttórúmlestanámskeiðinu við gildistöku frv., verði það að lögum, fái samsvarandi réttindi á skip sem eru 50 brúttótonn og minni. Til þess að fá réttindi til að vera skipstjóri eða stýrimaður á farþegabát verður viðkomandi enn fremur að sækja sérstakt námskeið sem Sjómannaskólinn skipuleggur í samráði við Siglingastofnun Íslands og er miðað við að það námskeið varði atriði sem snúa sérstaklega að farþegaflutningum og viðbrögðum yfirmanna á hættustundu gagnvart farþegum.

Í 3. mgr. er miðað við að þeir sem hafa lokið 1. stigi Stýrimannaskóla við gildistöku frv. verði það að lögum fái réttindi til að verða skipstjóri eða stýrimaður á farþegabáti minni en 500 brúttótonn í strandsiglingum þegar viðkomandi hefur sótt og staðist sérstakt námskeið sem sjómannaskóli skipuleggur í samráði við Siglingamálastofnun Íslands. Miðað er við að það námskeið varði atriði sem snúi sérstaklega að farþegaflutningum og viðbrögðum yfirmanna á hættustundu gagnvart farþegum.

Í 4. mgr. er miðað við að breyttar mælingareglur eigi ekki að leiða til þess að skírteinishafi missi réttindi til starfa á skipi ef stærð skipsins mælist svo í brúttótonnum að skírteinishafi hafi ekki lengur réttindi til að starfa á því skipi sem hann hafði áður samkvæmt brúttórúmlestastærð skipsins.

Ákvæði 12. gr. frv. byggjast alfarið á ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar. Við það er miðað að í reglugerð verði nánar kveðið á um vaktstöðu þeirra sem standa vaktir. Þessar reglur eru þær fyrstu sem settar hafa verið í íslensk lög um vaktstöðu á íslenskum skipum. Ríki sem eru aðilar að alþjóðasamþykktinni hafa tekið þau ákvæði orðrétt úr henni. Hér er því um samræmdar alþjóðareglur að ræða en vaktreglur alþjóðasamþykktarinnar hafa verið kenndar í íslenskum sjómannaskólum síðan 1981. Þessar vaktreglur IMO voru endurskoðaðar ásamt alþjóðasamþykktinni árið 1995 og hafa verið þýddar í heild á íslensku og munu birtast í væntanlegri reglugerð.

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur sett reglur um hvíldartíma og vinnutíma sjómanna á flutninga- og farþegaskipum en Ísland hefur ekki enn fullgilt þær reglur. Í undirbúningi eru innan Evrópusambandsins tilskipanir um vinnutíma og hvíldartíma sem taka m.a. til flutninga- og farþegaskipa og munu þær væntanlega taka gildi innan fárra ára á EES-svæðinu.

Í 1. mgr. 13. gr. er kveðið á um skipan mönnunarnefndar flutningaskipa. Þessi grein er efnislega samhljóða 10. gr. laganna um áhafnir íslenskra kaupskipa, nr. 59/1995. Samkvæmt gildandi lögum eiga Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna að tilnefna hvort sinn fulltrúa í nefndina en þau hafa sameinast og er því lagt til að samtök atvinnulífsins tilnefni tvo.

Í 2. mgr. er kveðið á um að Siglingastofnunin ákveði mönnum farþegaskipa og farþegabáta og er það í samræmi við lög nr. 75/98, sem kváðu á um breytingar á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1995, í þessa átt.

Í 14. gr. er kveðið á um hvernig ákveða skuli mönnun flutninga og farþegaskipa. Meginreglan er sú að sérhvert flutninga- og farþegaskip skuli mannað á öruggan hátt þannig að öryggi áhafnar skips og mannslífa á sjó sé tryggt. Miðað er við að Siglingamálastofnun Íslands gefi út öryggismönnunarskírteini fyrir hvert flutningaskip og farþegaskip þar sem kveðið er á um lágmarksmönnun, samsetningu áhafna og skírteini fyrir einstakar stöður.

Í 17. gr. frv. er miðað við að samgrn. setji reglugerð á grundvelli laganna í samráði við menntmrn. þar sem kveðið er á um ýmis atriði er varða gerð námskrár og kennslu í sjómannaskólum og eftirlit með að fullnægt sé kröfum laga og reglugerða í því sambandi. (Forseti hringir.) Þessi reglugerð mun liggja frammi þegar hv. samgn. fær frv. til meðferðar.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til hv. samgn. og til 2. umr.