Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:26:48 (2093)

1999-11-23 15:26:48# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki séð að hv. þm. sé með einhverjum ráðum að leysa úr vandamálum Suðurnesjamanna ef þessi tillaga þeirra yrði að veruleika með því að leggja þarna fram í texta einhverjar tvær setningar. Það leysir ekki nokkurn einasta vanda. Það tæpir kannski á því hvaða vandi mundi koma upp ef sú staða kæmi sem þeir óska eftir. Ég hygg að hv. málflytjendur viti afskaplega lítið hvað mundi gerast í atvinnumálum Suðurnesjamanna ef slík tillaga yrði samþykkt.

Ég sakna þess að fyrst vinstri grænir sáu sérstaka ástæðu til að mótmæla því hvernig NATO reyndi að stilla til friðar í Serbíu og Kosovo á sl. ári og í vetur, að þeir skyldu ekki hafa mómælt hernaði Rússa í Tsjetsjeníu sem mér skilst að sé með dálítið sérstökum hætti. Fyrst þeir hafa sérstaklega illan bifur á stórveldum. Ef við lítum á stórveldi eins og Bandaríkjamenn eru þeir að sjálfsögðu ekki hvítþvegnir en aftur á móti held ég að trúverðugleiki þeirra sé miklu meiri og meira mark takandi á því sem þeir segja en t.d. Rússar. Ef við ætlum að bera þetta saman þá geta Bandaríkjamenn þess vegna verið hvítir.