Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:30:20 (2095)

1999-11-23 15:30:20# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta, svo það liggi rétt fyrir, að þessi tillaga hefur ekki áður verið flutt af Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Hreyfing okkar er ekki það gömul. Hins vegar var sambærileg tillaga flutt hér á síðasta þingi, ef við sleppum vorþinginu, af þingmönnum úr þremur þingflokkum sem hér sátu þá. Ég sem 1. flm. var úr þingflokki óháðra og þáv. hv. þm. Ragnar Arnalds, úr þingflokki Alþýðubandalagsins, og Kristín Halldórsdóttir, þingflokki Samtaka um kvennalista, vorum flutningsmenn þessarar tillögu á síðasta þingi.

Varðandi það sem hv. þm. Kristján Pálsson nefndi síðan, að hér væri skammur tími ætlaður til verka, þá er það út af fyrir sig rétt. Ég minni þó á að þegar talað er um febrúarlok árið 2000 er kveðið á um bráðabirgðaskilagrein, einhvers konar athugun og könnun sem síðar verði grundvöllur frekari viðræðna um málið. Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að hafa þarna öllu lengri frest er einfaldlega sú að ef menn vilja taka málið alvarlega þá eru uppsagnarákvæði í núgildandi bókun milli bandarískra og íslenskra stjórnvalda virk frá og með aprílmánuði 2000. Vilji Alþingi koma að málinu og fara yfir þessa stöðu, þá þarf það að gerast á allra næstu mánuðum. Síðan væri væntanlega einhver tími til stefnu til frekara framhalds málsins.

Vel að merkja þá er mér ljóst og enginn ruglingur í þeim efnum, samanber greinargerð og fylgiskjöl, að hér er eingöngu um að ræða bókun sem í gildi er milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Varnarsamningurinn sjálfur er að sjálfsögðu ekki tímabundinn og gildir öðru máli um hann. En sá misskilningur komst á flot á sl. hausti að sjálfur varnarsamningurinn væri að renna úr gildi. Svo er ekki, því miður hlýt ég auðvitað að segja.

Það að hér er eingöngu fjallað um brottför hersins en ekki vikið orðum að NATO, þýðir það viðurkenningu okkar á aðildinni að NATO? Svarið er: Nei. Það kemur skýrt fram í greinargerð að við sjáum framtíðina þannig fyrir okkur að Ísland verði utan hernaðarbandalaga. Við leggjum áherslu á uppbyggingu lýðræðislegra fjölþjóða- eða alþjóðastofnana eins og ÖSE, stofnunarinnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, og Sameinuðu þjóðanna. Það er miður hvernig ýmsir atburðir á alþjóðavettvangi á undanförnum missirum hafa orðið til að veikja þessar stoðir þar sem allar þjóðir eiga aðild með lýðræðislegri aðkomu að þessum málum.

Það er enginn vafi á því að Bandaríkjamenn, sérstaklega repúblikanar á Bandaríkjaþingi, hafa markvisst unnið að því að veikja Sameinuðu þjóðirnar og stöðu þeirra. Framganga NATO hefur einnig orðið til þess að veikja stöðu stofnunarinnar um öryggi og samvinnu í Evrópu svo mjög að forsvarsmenn þar hafa orðið að bera hönd fyrir höfuð sér í þeim efnum. Ég get upplýst að ég átti sem nefndarmaður í Evrópunefnd Norðurlandsþings sæti á fundi með Knut Vollebæk, sem fór með formennsku í ÖSE á sl. kjörtímabili þeirrar stofnunar. Þó að sá ákaflega hógværi maður væri varkár í orðum þá neitaði hann því ekki að vaxandi áhyggjur væru innan stofnunarinnar um öryggi og samvinnu í Evrópu af skörun verkefna vegna þess hlutverks sem NATO hefur tekið sér sjálfdæmi um í þessum efnum. Við sjáum fyrir okkur að lýðræðislega uppbyggðar fjölþjóða- og alþjóðastofnanir af því tagi leysi hin gömlu og úreltu hernaðarbandalög af hólmi. Auðvitað er hverjum hugsandi manni ljóst að sjálftaka mesta hernaðarstórveldis veraldarinnar og þess klúbbs sem það hefur í kringum sig, á valdi og verkefnum í heiminum er skelfileg þróun. Því miður hefur það markað yfirbragð alþjóðamála æ meira á undangengnum missirum, þ.e. fádæma hroki Bandaríkjamanna og sjálfdæmi þeirra um hvað þeir kjósa að aðhafast í alþjóðamálum.

Hv. þm. vísaði til þess sem segir í upphafi greinargerðar um nýlega atburði og umræður. Ég fór nú yfir þá atburði og nefndi í framsöguræðu minni. Að öðru leyti vísa ég þarna almennt til umræðna um hvernig Keflavíkurstöðin og viðbúnaður Bandaríkjamanna hér hafi verið og sé hlekkur í kjarnorkuvígbúnaðarstefnu Bandaríkjanna og NATO. Því verður ekki á móti mælt þó menn geti og muni halda áfram að deila um hvort hér hafi verið lengur eða skemur kjarnorkuvopn eða ekki. Hitt er ljóst og óumdeilt að Keflavíkurstöðin hefur með ýmsum hætti verið skipulagsbundinn hluti af kjarnorkuvígbúnaðaruppbyggingu Bandaríkjanna og NATO, fyrir því eru óhrekjandi sannanir í skjölum. Fyrir hafa legið plön um að flytja hingað kjarnorkuvopn og nota aðstöðuna hér með ýmsum hætti í kjarnorkuvígbúnaði. Viðbúnaðurinn hér hefur gagngert verið hluti af kjarnorkuvígbúnaðarvörnum, samanber hlustunarkerfi, kafbátaleitarflugvélar o.fl. í þeim dúr.

Síðan er rétt að hafa í huga að vafasamt hefur reynst að treysta yfirlýsingum stórvelda um vígbúnað sinn, bæði fyrr og nú, eins og m.a. kom fram hér í orðaskiptum áðan. Vestrænir fjölmiðlar standa berrassaðir með það á bakinu að hafa hlaupið apríl og birt skefjalausan áróður í miðjum styrjaldarátökum, gagnrýnislaust að mestu leyti. Svo langt hefur gengið að ýmsir sómakærir fjölmiðlamenn hafa opinberlega beðið íbúa Vesturlanda afsökunar á að hafa látið hafa sig að ginningarfíflum í þeim efnum.

Ég, herra forseti, ætla áfram að hafa þá framtíðarsýn að Ísland verði herlaust land, óhersetið land. Við hljótum að eiga okkur þann draum í brjósti, allir Íslendingar, að geta búið í landinu án þess að hér sé erlendur her. Menn geta sjálfsagt og munu sjálfsagt, því miður, halda áfram að deila um hvort forsendur séu til þess. Hvaða afleiðingar það hins vegar hefði að herinn hyrfi úr landinu er bæði þarft og skylt að ræða. Mér finnst eðlilegt að hv. þm. Kristján Pálsson nefni það hér til sögunnar að hann hefur áhyggjur af atvinnumálum á því svæði sem sérstaklega hefur orðið fyrir áhrifum af dvöl hersins hér.

Í fyrsta lagi er að því að hyggja að mikilvægi hersins sem gjaldeyrisskapanda og vinnuveitanda hefur sem betur fer farið hratt minnkandi á undanförnum árum. Það er af tveimur ástæðum, vegna samdráttar í umsvifum og vegna þess að önnur gjaldeyrissköpun hefur aukist. Í fylgiskjali með þessari tillögu er birt tafla sem sýnir hvernig nettótekjur í gjaldeyri af veru varnarliðsins, sem hluta af landsframleiðslu, hafa mjög farið lækkandi, frá því að þær voru hátt á fjórða prósent þegar mest var í kringum 1983 og kannski einnig á fyrstu árum hersetunnar, ég hef ekki gögn yfir það. Þær voru komnar niður í 1,9% árið 1995 og hafa farið lækkandi síðan. Ég hef ekki handbærar tölur um það en veit að þær hafa farið lækkandi bæði með vaxandi útflutningi og áframhaldandi samdrætti í umsvifum hersins.

Íslenskum starfsmönnum hefur fækkað hjá varnarliðinu. Sá fjöldi hefur dregist saman um líklega um tvö hundruð starfsmenn núna á fáeinum árum. Þeir voru árið 1990 tæp 1.100 en voru um 880 í janúarlok 1997 og hefur væntanlega heldur fækkað en hitt. Alls störfuðu á þeim tíma um 1.660 Íslendingar á Keflavíkurflugvelli. Þeir sem þarna starfa umfram þá tæplega 900 sem starfa hjá varnarliðinu eru starfsmenn verktaka og opinberra stofnana, íslenskra stofnana á vellinum. Þessi tala hefur væntanlega ekki breyst mikið vegna þess að starfsmönnum íslenskra stofnana hefur væntanlega fjölgað en starfsmönnum sem vinna hjá varnarliðinu og verktökum hefur fækkað. Auk þess hefur sú breyting orðið á að verktakar sem þarna voru nær einvörðungu í verkefnum fyrir herinn eru nú komnir út á almennan markað og ekki lengur hægt að telja þá starfsmenn eingöngu með atvinnu af dvöl hersins hér. Að síðustu minni ég á að um þriðjungur af starfsmönnum þarna er af Reykjavíkursvæðinu en ekki af Suðurnesjum. Ef við lítum á hlut Suðurnesjanna sem slíkra þá er hann væntanlega ekki nema tveir þriðju af þessum tölum, þeim hlutföllum sem ég sá síðast um þetta.

Atvinnuástandið hér er eins og raun ber vitni, þensla á vinnumarkaði og umframeftirspurn eftir vinnuafli, þannig að það ætti ekki að valda langvarandi erfiðleikum að þetta starfsfólk fyndi sér á einhverju aðlögunartímabili verkefni við annað.

Þá er að því að hyggja að mjög víða hafa sambærilegar breytingar orðið, t.d. bæði í Bretlandi og Þýskalandi. Ég þekki dæmi frá allmörgum yfirgefnum herflugvöllum þar sem mikil mannvirki voru yfirgefin og færð yfir til borgaralegra nota. Þar hefur víða, öfugt við það sem menn óttuðust, hlaupið stóraukinn kraftur í atvinnustarfsemi svæðanna við breytingarnar. Það er einfaldlega vegna þess að þegar her pakkar niður, dregur saman umsvif sín og hverfur brott af svæðinu þá hafa þeir sem búa á svæðinu fengið að reyna samdrátt og daufa tíma. En það hefur reynst mikil eftirspurn eftir slíkri aðstöðu til annarra nota, t.d. í Bretlandi. Menn þekkja kannski dæmin, m.a. af Flugfélaginu Atlanta sem ég hygg að sé að einhverju leyti með starfsemi á slíku svæði.

Víðar er það svo að t.d. flugrekendur hafa sóst eftir því að fá aðstöðu þar sem hægt er að hafa afnot af flugbrautum og flughlöðum, yfirgefnum mannvirkjum sem áður voru til hernaðarlegra nota. Þeir sem stunda flugrekstur, m.a. viðhald flugvéla, birgðahald og varahlutalager hafa reynst áhugasamir um að nota aðstöðuna og ýmiss konar smáiðnaður sem getur blómstrað í tengslum við þær greiðu samgöngur sem nálægð við alþjóðaflugvöll býður upp á. Ég er þess vegna, herra forseti, alveg sannfærður um að það fælust miklir möguleikar í því fyrir einmitt Suðurnesin að blómstra sem aldrei fyrr, með yfirtöku þessarar aðstöðu og mannvirkja til borgaralegra nota og almennrar atvinnustarfsemi. Að sjálfsögðu væri eðlilegt að leggja af mörkum fjármuni til slíkrar aðlögunar.

Þegar til lengri tíma er litið er ég sannfærður um að það mundi verða atvinnulífi og byggð á þessu svæði til verulegrar blessunar að ganga í gegnum slíkar breytingar. Það yrði á allan hátt heilbrigðara en það ástand sem menn hafa þarna búið við. Það er þekkt úr atvinnusögu margra byggðarlaga og við sambærilegar aðstæður, hvort sem eini stóri vinnuveitandinn er her eða einhver annar slíkur aðili, að það er veruleg hætta á stöðnum og að doði færist yfir ef menn ganga að öruggri atvinnu vísri hjá aðila sem hefur ekki miklar skuldbindingar við svæðið og er þar ekki rótfastur. Ég gæti alveg farið yfir það með hv. þm. við tækifæri hversu mikil blessun það var, t.d. í mínu heimabyggðarlagi, að þar var byggð upp herstöð á sjötta áratugnum og hún síðan allt í einu lögð niður einn góðan veðurdag um 1970. Þá sátu heimamenn eftir með sárt ennið. Þeir voru vanir því að treysta á atvinnuna og umsvifin sem þarna voru og hugðu ekki að því sem skyldi að byggja upp eigin atvinnugreinar.

Allra síðast, herra forseti, nokkur orð í lokin um friðarhreyfinguna NATO sem að hv. þm. Kristján Pálsson gerði hér að umtalsefni. Ég held að það eina sem hægt sé að segja að hafi verið jákvætt við hina hörmulegu atburði á Balkanskaganum og framgöngu NATO þar hafi verið að kjaftæðið um NATO sem friðarbandalag afhjúpaðist. Það afhjúpaðist auðvitað rækilega. Það var búið að reyna að segja okkur í umræðunni undanfarin missiri að þetta væri eins konar friðarklúbbur, eins og huggulegt teboð og ætti ekkert orðið skylt við hernað, styrjaldarátök eða mannfall.

En hvað kom á daginn? Annað kom jú á daginn. Nú held ég að umræðan sé þó að því leyti raunsærri en áður var. Þarna var auðvitað grímulaus vígbúnaðar- og árásarhyggjan á ferð. Það hefur auðvitað ekki staðið á því að aðrir vísi til þessa fordæmis. Bæði Indverjar og Pakistanar sögðu við Vesturlönd: Hvað eruð þið að ibba gogg þó að við kunnum að fara hérna í smá stríð? Hugsið bara um ykkar Kosovo. Og til hvers vísa Rússar núna í Tsjetsjeníu? Hvers vegna eru Vesturlönd jafnhölt og raun ber vitni þegar kemur að því ástandi? Það er vegna fordæmisins frá Kosovo.