Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:50:22 (2098)

1999-11-23 15:50:22# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:50]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið meira. Ég held þegar upp er staðið að við séum í sjálfu sér að tala um það hvort að við eigum að vera í hernaðarbandalagi og vera í hernaðarsamstarfi og varnarsamstarfi við Bandaríkin. Þar greinir okkur á og það er út af fyrir sig allt gott við það að línur séu skýrar og það verður að segjast um vinstri græna, að þeirra stefna er skýr. Þeir vilja herinn burt. Aftur á móti veit Samfylkingin ekki enn hvort hún vill herinn burt eða ekki og það hefur ekkert heyrst meira um það frá þeim samtökum hvorum megin hryggjar þeir vilja vera í þessum málum. Ég virði því skoðanir vinstri grænna þó að ég sé þeim mjög ósammála.

Ég vil svo aðeins að lokum nefna að hv. þm. Ögmundur Jónasson leiðrétti mig áðan varðandi yfirlýsingar um innrás Rússa í Tsjetsjeníu. Þeir hafa sagt hér á Alþingi að þeir mótmæltu innrás Rússa í Tsjetsjeníu. Það hafa þeir sagt í umræðum á Alþingi en ekki beinlínis lagt fram um það tillögu. Það er ágætt að það komi fram. Eigi að síður þá hafa Rússar gert þetta á allt annan hátt en allt það sem gert var af hálfu NATO-ríkjanna á Balkanskaganum, þar sem opinber umræða og fréttaflutningur af málinu var mjög opinn í raun. Fréttaflutningur um ástandið í Tsjetsjeníu þar sem að Rússar hafa gert innrás er hins vegar lokaður öllum og enginn veit neitt hvað er að gerast. Á þessu er gríðarlegur munur og sýnir hvernig vesturveldin undir forustu NATO vinna til að upplýsa fólk um gang mála.