Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 16:25:42 (2109)

1999-11-23 16:25:42# 125. lþ. 31.12 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., BergH
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Bergljót Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þar sem þetta er síðasti dagur minn á þingi og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson mun væntanlega taka málið upp aftur þegar hann kemur, ætla ég að nota tækifærið og koma sjónarmiði mínu á framfæri núna.

Fyrst byggðakvóti var á annað borð settur á er Frjálslyndi flokkurinn sammála því sjónarmiði að honum skuli úthlutað til fiskiskipa sem gerð eru út frá viðkomandi sveitarfélögum. Einnig er rétt að útgerðir þeirra fiskiskipa sem litlar aflaheimildir hafa fái forgang enda leggi þær útgerðir fram aflaheimildir á móti og semji við fiskvinnslu á svæðinu um kaup og vinnslu á þeim afla sem þær skuldbinda sig til að landa til fiskvinnslu innan sveitarfélagsins. Ekki er hægt að nota þennan kvóta sem einhvern gjaldmiðil. Þetta virðist vera orðinn nýr gjaldmiðill á Íslandi svona eins og gullið í Fort Knox í Ameríku. Það yrði náttúrlega slæmt ef það tæki sig síðan til og flytti sig sjálft af landi brott og ekkert yrði eftir.

Í núverandi kvótabraskskerfi eru þeir sem þegar hafa komið sér fyrir í braskinu með mun betri fjárhagslega stöðu til að bjóða í leigu aflaheimilda og þeir stærstu geta boðið hæsta verðið. Nýliðum er þetta kerfi næstum lokað á því ofurverði sem sægreifunum, sem kvótann fengu afhentan, tekst að halda uppi vegna þess að samkeppnisstaða kvótalítilla útgerða er allt önnur en þeirra sem hafa um árabil verið vinningshafar í ríkislottóinu því að annað er ekki hægt að kalla þetta gjafakvótakerfi. Er ekki hægt að mæla með þeirri aðferð að hæstbjóðandi fái notið aðgangs að byggðakvótanum.

Þetta bráðabirgðaákvæði um byggðakvótann, sem er einungis plástur á núverandi kerfi, er tilkomið vegna þess að kvóti sem var í raun atvinnuréttur fólks í viðkomandi byggðarlögum var seldur í burtu. Það hefur valdið samdrætti í sjávarútvegi og erfiðleikum í mjög mörgum byggðarlögum. Ef sú regla hefði verið mörkuð að þeir sem búsettir eru í sveitarfélaginu og hefðu stofnað til útgerða þar og hefðu minni aflaheimildir en t.d. 50 þorskígildi fengju forgang þá væri í raun verið að stuðla að því að nýliðum gæfist kostur á að koma undir sig fótunum.

Sveitarfélögin þurfa á því að halda að stuðlað verði að festu í sjávarbyggðunum á nýjan leik með því að festa þar kvóta sem jafngildi atvinnuréttar. Markmið með bráðabirgðaákvæði í lögunum er að gera íbúum í sjávarplássum landsbyggðarinnar kleift að nýta áfram þá auðlind sem er grundvöllur byggðarinnar, þ.e. fiskimiðin úti fyrir ströndinni. Leikreglur þurfa að vera þannig að dugmiklir menn geti hafið atvinnurekstur og náð árangri og þannig geti atvinnulíf blómstrað á nýjan leik. Með ákvæðinu um byggðakvóta, sem er eins og áður var sagt plástur á núverandi kerfi, ætti að leitast við að styrkja stöðu minni flotans í landinu og styrkja stöðu byggðarlaganna sem hafa um langa hríð byggt atvinnu sína á sjávarafla.

Það liggur ljóst fyrir að frjálst kvótabrasksútboð, þar sem þeir stóru hafa forgang, er ekki sú lausn sem Frjálslyndi flokkurinn vill standa að. Þar fá núverandi sægreifar ráðið allri verðmyndun og þar með algeran forgang umfram nýliða í útgerð.