Stuðningur stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 16:34:40 (2110)

1999-11-23 16:34:40# 125. lþ. 31.18 fundur 187. mál: #A stuðningur stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn# þál., Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[16:34]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um stuðning stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn en flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Páll Magnússon og Hjálmar Árnason. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa í samráði við landbúnaðarráðherra starfshóp er fái það hlutverk að gera tillögur um hvernig stjórnvöld geti stutt íslenska matreiðslumenn í þeirri viðleitni að auka útflutning á þekkingu þeirra og matargerðarlist en auka um leið útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum, svo sem kjöti, grænmeti og mjólkurafurðum, en einnig fiski og fiskafurðum og fullunnum matvælum. Verkefni starfshópsins verði að:

1. Leggja mat á árangur sem íslenskir matreiðslumenn hafa þegar náð á erlendri grund og hvernig hann hefur náðst.

2. Leggja mat á hvort stjórnvöld geta stuðlað að frekari árangri á þessu sviði og gera tillögur um hvernig auka má útflutning á þekkingu og færni íslenskra matreiðslumanna.

3. Gera tillögur um hvernig auka megi útflutning íslensks hráefnis og fullunninna matvæla í tengslum við framangreint.

Hópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum í skýrslu eigi síðar en 15. apríl 2000.``

Íslenskir matreiðslumenn eru fagmenn á heimsmælikvarða. Það sýnir fjöldi verðlauna og viðurkenninga sem þeir hafa fengið heima og erlendis. Matreiðsla er því í raun ekki lengur iðngrein heldur listgrein. Starf íslenskra matreiðslumeistara hefur mjög mikið landkynningargildi og það sýna störf matreiðslumeistara en þeir hafa verið í fararbroddi á þessum sviðum.

Hluti af nútímaferðamennsku og ferðaþjónustu felst m.a. í kynningu á matvælum. Flestir ferðamenn hafa áhuga á því að kynnast þjóðarréttum, sérréttum og öðru því sem tengist viðkomandi landi. Þróun veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu og reyndar um allt land er skýrt dæmi um þessa framþróun þar sem t.d. er hægt að benda á að ýmsir fiskréttir eða fiskur sem áður var ekki nýttur til manneldis þykir nú herramannsmatur og má fá á mörgum veitingastöðum.

Auk þess má benda á sérstaka rétti á ákveðnum landsvæðum. Hver kannast t.d. ekki við bleikjuna frá Kirkjubæjarklaustri, lundann úr Vestmannaeyjum, skelfiskinn úr Breiðafirðinum, nautakjötið frá Þorvaldseyri, hákarlinn frá Bjarnarhöfn, svo einhver dæmi séu nefnd?

Íslenskir matreiðslumenn hafa lagt grunn að nýjum landvinningum í útflutningi matvæla frá Íslandi og geta gert enn betur ef rétt er á málum haldið. Íslenskar landbúnaðarvörur eru auðvitað gæðavörur. Hér eru miklir möguleikar ekki síst í útflutningi á lambakjöti sem er einstakt að gæðum. Það má líka nefna hið heilnæma íslenska grænmeti sem hér er framleitt, mjólkurafurðir sem sífellt meira er neytt af hér á landi. Síðan má nefna fisk og fiskafurðir.

Þegar hráefni er meðhöndlað af snilld eins og íslenskir matreiðslumenn gera margfaldast gildi þess. Nágrannaþjóðir eins og Norðmenn hafa nýtt sér matreiðslumeistara í þessu skyni, þ.e. þeir nýta matreiðslumeistara til að kynna norskan fisk og fiskafurðir.

Þar sem ég var að tala áðan um heilnæmi grænmetis, þá fékk ég þær upplýsingar frá Hollustuvernd að nú ekki alls fyrir löngu var verið að gera könnun á spænskum paprikum sem hingað hafa verið fluttar til landsins og kom í ljós að ákveðin varnarefni sem sprautað er yfir þær og auka líftíma þeirra eru langt yfir leyfilegum mörkum samkvæmt reglugerðum. Þess vegna þurfum við að gæta mjög að því að passað sé vel upp á okkar heilnæma hráefni.

Það er dálítið merkilegt með okkur Íslendinga að við veltum gjarnan fyrir okkur verði á matvörum en við vitum ekki alltaf hvað við erum að borða. Við erum tilbúin að greiða mikla peninga fyrir merkjavörur t.d. þegar við erum að kaupa okkur bíla, föt, hljómtæki eða þess háttar en þegar kemur að matvörunni þá horfa menn allt of mikið á verðlagningu en minna á þau gæði sem í boði eru.

Það má líka benda á að í raun er of lítil samkeppni milli sömu kjöttegunda. Hins vegar þegar líða tekur að jólum fara menn að auglýsa Húsavíkurhangikjöt, birkireykt SS-hangikjöt, KEA-hangikjöt, Sambandshangikjöt og Goðahangikjöt, svo einhver dæmi séu nefnd. Þetta getum við gert með miklu fleiri vörutegundir og er þetta jákvætt dæmi um hvað hægt er að gera með fleiri vörutegundir. Ég vil sjá í framtíðinni upprunavottorð vöru þar sem fram kemur hvaðan hráefnið er og hver er framleiðandinn, hvaða afurðastöðvar hafa unnið hráefnið o.s.frv. Ég vil líka sjá í framtíðinni verðmerkingar þannig að neytandinn sjái hvernig verðmætamyndunin er, þannig að fram komi hver hlutur framleiðandans eða bóndans er í rauninni, hver er hluti ríkisins, hver er hluti milliliðanna, afurðastöðvanna og síðan söluaðilanna. Þetta er gert t.d. í Frakklandi. Með því móti sjáum við best hverjir eru hinir sönnu vinir neytandans. Þetta nefni ég og mér finnst það nauðsynlegt þar sem fram hefur komið gríðarleg fákeppni í dagvöruverslun, t.d. á höfuðborgarsvæðinu og í raun í landinu öllu.

Starf matreiðslumeistara getur haft verulegt uppeldislegt gildi, svo sem forvarnagildi. Það má benda á að íslenskir matreiðslumenn voru með merkilega sjónvarpsþætti þar sem verið var að kenna unga fólkinu að meðhöndla íslenskt hráefni og elda. Íslenskir matreiðslumenn geta bent á hollustugildi vörunnar og næringar- og orkugildi þannig að það er sjálfsagt að benda á það uppeldislega hlutverk sem þeir geta haft.

Það má einnig benda á mikilvægt starf bænda í þessum efnum og samvinnu þeirra við matreiðslumenn við framleiðslu á landbúnaðarvörum, hvort heldur er við hefðbundna framleiðslu, vistvæna framleiðslu eða lífræna framleiðslu. Einstaka bændur hafa sýnt þessari þáltill. minni mikinn áhuga og fyrir það er ég afar þakklátur og ég er einnig þakklátur fyrir hve matreiðslumeistarar hafa sýnt tillögunni mikinn áhuga.

Fram undan er ein virtasta matreiðslukeppni í heimi. Það er svokölluð Bocuse d'Or keppni í Lyon í Frakklandi sem verður haldin árið 2001. Þetta er í annað sinn sem íslenskum matreiðslumönnum er boðið í slíka keppni. Á síðasta ári keppti Sturla Birgisson matreiðslumeistari í Bocuse d'Or keppninni og hann mun einnig keppa árið 2001.

Það hefur einnig verið ákveðið í þessari keppni að lambakjöt eigi að vera aðalhráefni keppninnar. Hér er því komið gullið tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að koma íslensku lambakjöti á framfæri á bestu veitingastöðum heims vegna þess að þeir kokkar sem þarna keppa koma einmitt frá fremstu veitingastöðum í heimi.

Þess má geta að hver keppandi í Bocuse d'Or keppninni notar hvorki meira né minna en 40 lambaskrokka. Heildarmagn í keppninni er því um 800 skrokkar. Flutningsmenn þessarar tillögu hvetja stjórnvöld, framleiðendur, afurðasölufyrirtæki og alla þá er þetta mál varðar að kynna sér þetta vegna þess að hér er um mjög mikilvægt málefni að ræða sem vert er að gefa gaum. Með þáltill. þessari eru fylgiskjöl frá Gissuri Guðmundssyni matreiðslumeistara en hann er einmitt gjaldkeri Klúbbs matreiðslumeistara. Í fylgiskjölunum er m.a. starfsáætlun Klúbbs matreiðslumeistara en þeir munu m.a. taka þátt í keppni er tengist menningarborgum Evrópu árið 2000 þar sem fram fer m.a. kynning á fiski og fiskafurðum. Þar kemur líka við sögu félag, sem heitir Matvís, sem er heildarsamtök þeirra sem fást við mál sem tengjast matvælaframleiðslu.

Einnig kemur fram í þessum fylgiskjölum efling varðandi útflutning á íslenskum afurðum. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er starf Klúbbs matreiðslumeistara mjög merkilegt starf sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Á fundi sem ég var á ekki alls fyrir löngu sagði forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, þegar hann talaði um störf Klúbbs matreiðslumeistara og matreiðslumeistara á Íslandi að hér væru í raun komnir nýir sendiherrar Íslands. Ég tek heils hugar undir þau orð og hvet þingmenn til að kynna sér þessa tillögu og ég vænti þess að hún hljóti brautargengi í þinginu og að okkur takist það ætlunarverk að koma íslensku lambakjöti á framfæri í hinni frægu frönsku alheimskeppni, sem ég sagði frá áðan, og þá er ég viss um að þar opnast nýjar leiðir við að framleiða lambakjöt og koma á heimsmarkað.