Fjarvera ráðherra

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 16:50:04 (2113)

1999-11-23 16:50:04# 125. lþ. 31.93 fundur 167#B fjarvera ráðherra# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Samkvæmt þeirri dagskrá sem þingmenn hafa fyrir framan sig eru 18 mál á dagskrá þessa fundar. Þar af eru átta þingmannamál. Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að helminginn af þessum átta þingmannamálum, eða fjögur mál, hefur forseti þurft að taka út af dagskrá fundarins vegna fjarveru ráðherra. Þar sem ég á eitt af þessum málum sem tekið hefur verið út af dagskrá sá ég ástæðu til að vekja athygli á því vegna þess að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, þ.e. bætta stöðu þolenda kynferðisbrota, sem ég tel afar brýnt að komist hér á dagskrá en ekki er hægt að taka á dagskrá vegna þess að hæstv. dómsmrh. sá sér ekki fært að vera við þessa umræðu. Sama gilti um þrjú önnur mál sem snerta sjávarútvegsmál, en þau þurfti að taka út af dagskrá vegna fjarveru hæstv. sjútvrh.

Við hv. þingmenn erum því vissulega vanir að þunnskipað sé á ráðherrabekkjunum þegar þingmannamál eru á dagskrá. Það er auðvitað mjög miður og mér finnst, herra forseti, full ástæða til þess þegar þingmannamál eru á dagskrá að viðveruskylda ráðherra verði tekin sérstaklega upp í forsn., ekki síst þegar þess hefur sérstaklega verið óskað að ráðherrarnir séu viðstaddir umræðu um þingmannamál.

Nú er að hefjast svokölluð nefndavika. Þá eru þingfundir ekki haldnir heldur starfa þingmenn í nefndum þannig að það fer að verða þröngt um, ef ég þekki þingið rétt, að taka þingmannamál á dagskrá fyrir jólin. Þess vegna er það mjög slæmt þegar við höfum svigrúm til, að ekki sé hægt að ræða þessi þingmannamál, sem þingmenn telja auðvitað mjög brýn, vegna fjarveru ráðherranna.

Ég vildi vekja athygli á þessu, herra forseti. Ég hafði beðið um að hæstv. dómsmrh. yrði viðstaddur þessa umræðu þegar ákveðið var að taka þetta mál á dagskrá. Dómsmrh. tjáði mér í gær að hún ætti erfitt með að vera við þessa umræðu. Þar sem ég sá að málið yrði seint á dagskránni þá ítrekaði ég það í morgun við ritara hæstv. dómsmrh. hvort hæstv. ráðherra gæti ekki séð sér fært að vera viðstödd þar sem málið yrði seint tekið á dagskrá á þessum degi. Ég hef ekkert heyrt enn þá frá dómsmrn., dómsmrh. eða ritara hæstv. ráðherra um það mál.

Á þessu vildi ég vekja athygli um leið og ég minni á að hæstv. ráðherrar hafa hér viðveruskyldu líka, ekki síst þegar kallað er eftir þeim við umræður um þingmannamál. Ég óska eftir því að fjarvera ráðherranna, þegar óskað er eftir því að þeir séu viðstaddir, verði tekin fyrir í forsn.