Jarðalög

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:26:32 (2167)

1999-12-02 12:26:32# 125. lþ. 34.3 fundur 227. mál: #A jarðalög# (lögræðisaldur) frv. 119/1999, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef jarðalögunum er misbeitt, eins og sagt var áðan, þá vegur ákvæði stjórnarskrárinnar að þyngra. Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, hafa margir úrskurðir verið felldir úr gildi á seinni árum. Annaðhvort hefur ekki verið rétt að staðið eða sveitarstjórnir beitt valdi til að velja sér ábúendur á jarðir o.s.frv. Þetta er því ákvæði sem ekki gengur upp og þarf að skoða.

Hverjir skipa þessa nefnd? Forveri minn í starfi skipaði í þessa nefnd. Hún kemur að einhverju leyti frá landbúnaðinum. Í þessari nefnd eru hv. alþingismenn, þar er fulltrúi frá bændasamtökunum. Ég kann ekki að telja upp nöfnin á þessari stundu en Jón Höskuldsson lögfræðingur hefur leitt starf nefndarinnar. Ég hygg að í henni sitji hv. þm. Jón Kristjánsson og Einar Kr. Guðfinnsson. Þessum þremur nöfnum man ég eftir í svipinn, hæstv. forseti.