Jarðalög

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:32:56 (2172)

1999-12-02 12:32:56# 125. lþ. 34.3 fundur 227. mál: #A jarðalög# (lögræðisaldur) frv. 119/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:32]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ef hæstv. landbrh. ætlar að ganga úr skugga um að breytingar yrðu á kjörum íslenskra bænda við að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu, þá ætti hann að tala við sinn eigin Evrópuvírus í stóli hæstv. utanrrh. Ég er ansi hræddur um að sá ágæti ráðherra mundi upplýsa hann um það að allar þessar reglur Evrópusambandsins mundu ekki setja þær kvaðir á íslenska bændur að þeir mættu ekki ráðstafa eignum sínum til jafns við aðrar stéttir.

Það er hins vegar ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að reglur eða skilyrði um samþykki jarðanefndar og möguleika hennar á að rifta kaupsamningi bónda og skipa honum að eiga viðskipti við annan aðila um sölu á bújörð sinni en honum sjálfum þóknast, sé eitthvað sem heyrir sögunni til. Ég held að ekki sé lengra síðan en rétt tæp tvö ár að slíkt mál kom upp þar sem afskipti af slíkum viðskiptum voru talin óærleg.