Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 10:55:22 (2212)

1999-12-03 10:55:22# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[10:55]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þungaskatturin er að verða frekar vandræðalegt mál hér á Alþingi. Ég held að málið hafi verið meira og minna á dagskrá á hverju þingi frá því að ég kom á þing. Nú er enn á ný verið að breyta, afnema skylduna til að greiða fast árgjald, sameina gjaldskrár og færa gjaldið inn í kílómetrana.

Við fjölluðum lengi um það sem ráðherrann hæstv. nefndi hér, að setja þungaskattinn á olíuna og tryggja ákveðna notkun með litarefnum. Það gekk ekki eftir eins og hæstv. ráðherra nefndi sjálfur. Sú staðreynd liggur fyrir að hin mikla bensínnotkun hér á landi er mikið umhverfismál. Þessi mikla notkun veldur mengun og oft heyrist rætt um hversu miklu umhverfisvænni olían er. Þess vegna spyr ég ráðherrann tveggja spurninga:

Hver er mismunurinn á gjaldi fyrir þungabíla og venjulega jeppa þegar upp er staðið, hvort heldur miðað er við 50.000 km akstur eða 100.000 km? Það er einfaldara fyrir okkur að skilja dæmið með þeim samanburði.

Spurning númer tvö er: Áformar ráðherrann frekari breytingar sem hvetja mundu fólk til að nota frekar bifreiðar með dísilvélum þar sem fyrir liggur að það er umhverfisvænna og væri mjög stórt mál hér?

Spurningarnar eru sem sagt tvær, um muninn á olíugjaldinu fyrir þungabíl miðað við jeppa og ætlar ráðherrann að skoða aukna notkun almennings á olíu?