Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:01:47 (2216)

1999-12-03 11:01:47# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í stærðfræðinni þekkjum við vandamál sem menn hafa verið að glíma við í gegnum aldir og síðan hefur verið sannað að það er óleysanlegt. Við erum hérna að glíma við svipað. Við erum að glíma við landsbyggðarstyrk, að styrkja landsbyggðina og jafnframt að leggja á skatt sem á ekki að trufla samkeppni. Þetta gengur ekki upp. Þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh. hvort það sé rétt að blanda saman sköttum og félagslegri hjálp eins og við erum að reyna að gera hér en gengur aldrei upp.

Frv. sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir rétt áðan er nefnilega dæmi um það þegar verið að tala um öryrkja og umönnunargreiðslur og annað slíkt í skattalögum. Við erum með fullt af þessu hér á Íslandi. Við erum að blanda saman skattalögum og félagslegri hjálp og það gengur yfirleitt ekki upp. Spurning mín er hvort hæstv. fjmrh. gæti ekki hugsað sér að hafa félagslega hjálp til landsbyggðarinnar inni í félagslegum lögum og hafa síðan skattaákvæðin inni í skattalögum. Ég tel eðlilegast að menn borgi fyrir notkun á vegum miðað við hvernig þeir slíta þeim og það ætti þá að vera háð þyngd eins og hér er reyndar lagt til þannig að það sé eins konar þjónustugjald. Síðan mætti hugsanlega taka inn í umhverfissjónarmið með því að leggja skatt á það efni sem er brennt, bensín eða olíu.