Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:06:59 (2220)

1999-12-03 11:06:59# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:06]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fyrst um olíugjaldið. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra orðaði það þannig að hann hefði ekki gefið það frá sér að tekist yrði á við olíugjaldið. Nú þekkja þingmenn það að fyrirrennari hans í starfi gerði margar ítrekaðar tilraunir til að breyta þessu kerfi og gaf margar yfirlýsingar um það á ferli sínum að hann ætlaði sér það. En það varð aldrei af neinum efndum hvað þetta varðaði.

Mér finnst ekki nógu skýrt að heyra það hjá hæstv. ráðherra að hann hafi ekki gefið þetta frá sér. Ég óska eftir því að hann svari því hvort hann ætlar sér að láta vinna málið og koma með það inn í Alþingi og hvenær hann stefnir þá að því að það komi til umfjöllunar í hv. Alþingi. Ég held að full ástæða sé til að taka á þessu og einfalda þessi mál og koma þeim þannig fyrir að einhver sanngirni sé í því hvernig þessir skattar koma niður.

Annað sem hæstv. ráðherra nefndi rétt áðan var spurningin um eigendur þeirra bíla sem eiga samt sem áður að fá möguleika á því að velja um fast gjald. Er ekki um það að ræða að atvinnubílstjórar sem nýta sér slíka bíla muni þá kæra þetta fyrirkomulag í beinu framhaldi af því sem hér hefur verið gert vegna þess að mönnum hefur ekki líkað sú mismunun sem var í stóru bílunum? Og hefur þá nokkra þýðingu að koma með málið enn einu sinni hér í gegn og eiga von á því að það verði kært til Samkeppnisstofnunar þannig að menn fái þetta í hausinn aftur?

Síðan langar mig að segja að þó að hæstv. ráðherra hafi sagt hér áðan að það að þetta gjald kæmi á með þessum hætti mundi ekki hafa neina verulega hækkun í för með sér, þá er enginn vafi á því að það mun hafa í för með sér verulega hækkun á einstökum stöðum úti á landsbyggðinni.