Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:39:41 (2227)

1999-12-03 11:39:41# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú bregður svo við að við erum eiginlega orðnir algjörlega sammála ég og hv. þm. Ef við hefðum eina tilraun enn þá yrðum við sennilega algjörlega sammála í þriðja andsvarinu.

Ég er sammála hv. þm. um að þessi mikla miðstýring og miðlægni, bæði sölukerfisins og flutningakerfisins reyndar einnig og þeirra fyrirtækja sem eru stærst á þeim sviðum, er mjög mótdræg landsbyggðinni. Það væri stórkostlegt framfaraskref ef menn gætu orðið sjálfstæðari þar í sölumálum sínum og náð að hafa meira af arðinum í eigin höndum frá upphafi til enda keðjunnar, allt frá veiðum og vinnslu í gegnum flutninga og sölu o.s.frv. Það sem ég veit að hv. þm. kallar stundum á slæmri íslensku ,,profit center`` viðskiptanna yrði í byggðarlögunum þar sem aflinn kemur að landi og hann er verkaður.

Hitt er alveg ljóst, hvað sem líður allri sölumennsku og öllum flutningum, að það yrði skarð fyrir skildi í íslenskum þjóðarbúskap ef t.d. allur rækjuiðnaðurinn á Vestfjörðum legði ekki til þjóðarbúsins eða allar uppsjávarveiðar á Norðausturlandi og Austfjörðum. Það er erfitt að stunda þennan atvinnurekstur öðruvísi en að hafa fólk og byggð á þessum svæðum. Það verður ansi snúið fyrir þjóðarbúið að setja upp verstöðvar á vetrarvertíðunum á hverju ári t.d. í loðnu og síld í janúar, febrúar og mars. Ætli það mundi nú ekki ganga alla vega að höndla þau verðmæti ef ekki væri til staðar aðstaðan sem er á ströndinni hringinn í kringum landið í þessu sambandi?

Samgöngubæturnar eru auðvitað algjört lykilmál þarna. Ef við værum að ræða, ekki um hækkaðan þungaskatt á lengstu flutningaleiðir landsins heldur um nokkra milljarða í viðbót í vegaframkvæmdir á næstu árum þá væri gaman að lifa. Það væri meiri sómi fyrir hæstv. fjmrh. að mæla fyrir því að settir yrðu nokkrir milljarðar í viðbót í rækilegt samgönguátak. Þá hefðu ýmsir glaðst hér í salnum. (Fjmrh.: Bíddu bara rólegur.)