Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:58:54 (2234)

1999-12-03 11:58:54# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar. Ég þarf því ekki að hafa mörg orð um frv. þó að út af fyrir sig gefi efni þess tilefni til að halda langa ræðu.

Vissulega er hægt að taka undir það sem fram hefur komið hjá ýmsum sem hafa stigið í ræðustól, að fyrirkomulag þungaskattskerfisins er orðið þinginu til vansa því að það er orðið árlegt umfjöllunarefni á þingi og virðist raunar aldrei hægt að taka þannig á málinu að það endist eitthvað til framtíðar.

Þegar skoðaðar eru þær breytingar sem hafa verið gerðar þá hafa þær yfirleitt miðast við að lappa upp á og plástra þungaskattskerfið í stað þess að koma með nýja hugsun og nýjar leiðir. Ég held raunar að allsherjaruppstokkun á þessu kerfi sé leiðin sem við þurfum að skoða. Ég held að nauðsynlegt sé að efh.- og viðskn. fari mjög vandlega yfir frv. og gefi sér þann tíma sem þarf þannig að hægt sé að vonast til þess að við getum afgreitt málið sem lög frá Alþingi í þeim búningi að það þurfi ekki strax aftur að koma fyrir þingið.

[12:00]

Þetta mál kom fyrir þingið á sama tíma fyrir ári síðan. Þá skilaði minni hlutinn séráliti, en sæti í honum áttu hv. þm. Ágúst Einarsson, Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon. Við umræðuna fyrir ári síðan kom einmitt fram hjá Ágústi Einarssyni að hann spáði því að yrði frv. þá að lögum mundi ekki líða á löngu áður en nýtt frv. um endurbætur á því yrði lagt fram. Sannarlega reyndist þingmaðurinn Ágúst Einsson sannspár því nú ári síðar erum við að fjalla um þetta sama mál.

Ég held að við stöndum frammi fyrir þeirri þróun að stóru flutningsaðilarnir eins og skipafélögin hafa fengið sífelld stærri hlut af landflutningunum. Það er mikilvægt að tryggja betur samkeppnisstöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga í vöruflutningum en gert hefur verið. Spurning er hvaða leið eigi að fara í því efni. Sú skýrsla sem hæstv. ráðherra vísaði til og lögð var fyrir 123. löggjafarþing fjallaði um áhrif á breytingar á lögum um gjöld af bifreiðum og fjallaði auðvitað m.a. um þungskattskerfið. Þar var dregin saman ákveðin niðurstaða. Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Að öllu þessu virtu má vera ljóst að ekki er unnt að búa til þungaskattskerfi, sem í senn uppfyllir kröfur samkeppnisyfirvalda um niðurfellingu afsláttar, og kemur til móts við þá sem aka mikið án þess að íþyngja þeim sem aka lítið. Þungaskattskerfi með afsláttarfyrirkomulagi mismunaði gjaldendum þannig að þótti samkeppnishamlandi. Þungaskattskerfi með föstu árgjaldi mismunar gjaldendum eftir akstri og þykir koma illa niður á þeim sem aka lítið. Til að koma á kerfi sem mismunar gjaldendum sem minnst og þar sem skattlagningin miðast við notkun virðast einu raunhæfu leiðirnar að hafa þungaskatt sem kílómetragjald án fasts gjalds og afsláttar eða færa gjaldtökuna inn í eldsneytisnotkunina.``

Það er greinilega fyrri leiðin sem hér er bent á sem hæstv. ráðherra leggur nú fyrir þingið, þ.e. að hafa þungaskatt sem kílómetragjald án fasts gjalds og afsláttar. Hin leiðin, að færa gjaldtökuna inn í eldsneytisnotkunina, er ekki lögð til. Það er aðferð sem ég held að við eigum ekki að gefast upp við fyrir fram og eigum nokkuð að glíma við.

Í nefndaráliti sem minni hluti efh.- og viðskn. lagði fram fyrir ári síðan er lögð til sú leið að taka upp olíugjald í stað eldra kerfis. Í áliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn telur besta kostinn að taka upp einfalt olíu\-gjaldskerfi og leggja alveg af mælagjald þungaskatts. Slík skattlagning á eldsneytisnotkun, eins og olíugjaldið er, væri tvímælalaust jákvæð með tilliti til umhverfismála. Slíkt ætti að verka hvetjandi til orkusparnaðar og þar með auðvelda Íslendingum að standa við alþjóðlegar skuldbindingar á því sviði.

Það kom fram í umsögnum í fyrra að langflestir vildu olíugjald í stað eldra kerfis.``

Ég held að þetta munum við þurfa að ræða í efh.- og viðskn., þ.e. hvort ekki sé hægt að skoða þessa leið. Þrátt fyrir úrtölur olíufélaganna sem hér hefur verið bent á held ég engu að síður að við eigum að skoða hvort þessi leið sé ekki fær. Við hljótum að stefna að því að fara þá leið.

Herra forseti. Ég vil segja að það er mjög slæmt að frv. er lagt fram eins og hér er gert, án þess að við sjáum áhrifin af þessari breytingu á ýmsa þætti eins og hér hefur verið bent á. Það vantar alveg að sjá áhrifin af þessari breytingu á afkomu þeirra sem við eiga að búa, flutningabílstjórana. Það þarf að skoða áhrifin á flutningsgjaldið, hvort þetta leiðir til hækkunar á vöruverði. Því hefur verið haldið fram hér að það muni gerast. Auðvitað er ekki hægt að afgreiða þetta mál frá efh.- og viðskn. nema skoða slíkar tölur, hvort áhrifin séu þau að þetta leiði til hærra vöruverðs úti á landi.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi ákveðna leið, þ.e. að taka upp sérstakan gjaldflokk fyrir vöruflutninga úti á landi eða langflutninga eins og hann nefndi. Og ef ekki er samkomulag um að fara aðra leið en þá sem hæstv. ráðherra leggur til í megindráttum þá er auðvitað sjálfsagt að skoða það.

Hæstv. ráðherra hefur sagt hér í ræðustól að hann muni reiða fram allar þær upplýsingar sem hv. efh.- og viðskn. kallar eftir og ég vænti þess að þær upplýsingar sem ég hef nefnt verði þá lagðar fyrir nefndina. En auðvitað hefði það átt að vera hér sem fskj. með þessu frv. þannig að við 1. umr. málsins væri hægt að ræða efnislega áhrifin sem þessi breyting mun hafa.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hverjir hafi komið að vinnu og samningu þessa frv. Liggur það fyrir t.d. að stéttarfélag atvinnubílstjóra, þ.e. þeir sem við eiga að búa, séu sammála þessari leið? Var þetta borið undir þá? Var haft samráð við þá um breytinguna sem hér er lögð til? Var haft samráð við FÍB svo dæmi sé nefnt eða Samkeppnisstofnun, vegna þess að frv. er ekki síst flutt vegna athugasemda sem samkeppnisráð hefur ítrekað gert við breytingar sem Alþingi hefur gert á þungaskatti? Vafalaust eru samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun sátt við þessar breytingar þegar búið er að taka út afsláttarfyrirkomulagið. Ég spyr sérstaklega um þá sem við þetta eiga að búa, en auðvitað hafa allar slíkar breytingar áhrif á afkomu atvinnubílstjóranna.

Eins og ég sagði mun ég fjalla um þetta mál í efh.- og viðskn. og mér skilst á þeim sem hafa fjallað um það áður í efh.- og viðskn. að það sé mikið tilhlökkunarefni að glíma við þetta. Ekki ætla ég að skorast undan því. En ég vildi gjarnan, af því ég hef ekki komið að þessu máli áður í nefnd, skoða hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi um einhverjar leiðir sem halda til frambúðar. Eftir að hafa skoðað málið og farið aðeins yfir það þá held ég að olíugjaldsleiðin hljóti að vera eitthvað sem við eigum að stefna að.

Ég vil líka spyrja ráðherrann hvort hann og ríkisstjórnin leggi áherslu á að málið verði afgreitt fyrir jól. Mér finnst málið svo mikilvægt og stórt að við hljótum að þurfa að taka okkur ákveðinn tíma í efh.- og viðskn. til að fjalla um það. Þá væri ágætt nú strax við 1. umr. að fá skoðun hæstv. ráðherra á því.