Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:35:54 (2249)

1999-12-03 13:35:54# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hefja máls á þessu umræðuefni. Því miður eru nokkur sveitarfélög í miklum vanda stödd. Ég vil taka það fram að flest eru þau í bærilegu standi og stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, vegur auðvitað mjög þungt í því efni (Gripið fram í.) þar sem hlutirnir virðast vera í býsna góðu lagi. (Gripið fram í.) Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var rædd í gærkvöldi og hafi ég tekið rétt eftir þá hugsar Reykjavíkurborg sér á næsta ári að greiða niður skuldir um 2 milljarða og verja til þess svipuðu hlutfalli eða sama hlutfalli hreinna skatttekna og gengur til að borga niður skuldir hjá ríkinu.

Þetta breytir því ekki að nokkur sveitarfélög eru í þröng. Sum þeirra eiga verðmætar eignir, t.d. hlutabréf sem þau geta lagað skuldastöðu sína með því að selja, en sum ekki. Ný sveitarstjórnarlög, eða fjármálakafli þeirra, á að skapa sveitarfélögunum skilvirkara umhverfi til að fylgjast með þróun fjármála sinna og eftirlitsnefnd sem sett var upp í samræmi við þau lög er tekin til starfa og er að athuga efnahag sveitarfélaga sem eru komin í krítíska stöðu.

Herra forseti. Ég lít svo á að langstærsta efnahagsvandamálið í þjóðfélaginu séu þjóðflutningarnir hér innan lands. Það er náttúrlega ógurleg blóðtaka fyrir sveitarfélögin sem fólkið er að flýja þegar fækkun er um eða yfir 10% á einu eða tveimur árum og hús standa auð, vannýttar þjónustubyggingar, hálftómir skólar. En þjónustan er jafndýr. Snjómoksturinn er ekkert minni þó að fækki í sveitarfélaginu og færri séu til að borga.

En það er líka dýrt fyrir viðtökusveitarfélögin að búa við þessa þjóðflutninga. Þjóðhagsstofnun sló á það í fyrra að hver einasti einstaklingur kostaði viðtökusveitarfélögin 3--5 milljónir, og það er bara kostnaður sveitarfélagsins, ekki kostnaður fjölskyldnanna af því að koma sér upp húsnæði. Ef við færum nú milliveginn, lékum okkur að tölum og segðum að það kostaði 4 milljónir að taka við hverjum einstaklingi þá yrðu þetta svona 8 milljarðar fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að taka við þessum árlega skammti upp á 2.000 manns.

En sagan er ekki öll sögð með því því að þar fyrir utan er kostnaður fjölskyldnanna og 2.000 manns á höfuðborgarsvæðið á ári útheimta líklega eins og tvær nýjar íbúðir á hverjum einasta degi ársins. Það verður auðvitað til þess að sprengja upp húsnæðiskostnað og húsnæðiskostnaður í Reykjavík stendur að baki þriðjungi af vísitöluhækkun undanfarinna mánaða. Og vísitalan spennir upp skuldir sveitarfélaga og skuldir heimila.

Fasteignamatið hækkaði í Reykjavík sem ekkert er við að segja og sjálfsagt réttilega, en 1994 báðu sveitarfélögin um að reikningsstuðull Reykjavíkur yrði heimilaður um allt land. Stjórnarsáttmálinn gefur fyrirheit og í stjórnarsáttmála núverandi stjórnar er ákvæði um að breyta þessu óréttlæti. En sveitarfélögin á landsbyggðinni þurfa tekjur í staðinn. Tekjustofnanefndin er að störfum og hún á að finna lausn á þessum vanda. Jöfnunarsjóður þarf auknar tekjur. Það er hægt að hugsa sér að hækka þjónustuframlagið eða taka upp fólksfækkunarframlag en sveitarfélögin verða að fá tekjur í staðinn. Þau komast ekki af annars.

Nefnd kannaði áhrif skattbreytinga á fjárhag sveitarfélaga við upptöku fjármagnstekjuskatts, tryggingagjalds, breytinga á skattfrádrætti lífeyris og skattfrelsi hlutabréfa og það kom í ljós að sveitarfélögin hefðu fengið meiri tekjur að óbreyttum lögum. (Forseti hringir.) Ég er að verða búinn, herra forseti.

Á hitt ber að líta að sveitarfélögin hafa hagnast á góðri efnahagsstjórn í landinu. 1997 voru bókfærðar skatttekjur sveitarfélaganna og (Forseti hringir.) jöfnunarsjóðs 40,5 milljarðar og 1999 (Forseti hringir.) er áætlað að þær verði 49 milljarðar.

(Forseti (ÍGP): Ég vil minna hæstv. ráðherra og þingmenn að virða tímamörk.)