Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:48:47 (2253)

1999-12-03 13:48:47# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur verið nefnd á nafn nefnd um tekjustofna sveitarfélaga sem vinnur að því að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga með því fororði að kanna hvort tekjur sveitarfélaga séu nægilegar til þess að sinna þeirra lögbundnu verkefnum. Það hefur verið unnið að þessu núna síðustu vikurnar. Í þessari nefnd eiga sæti fulltrúar frá sveitarfélögunum og það starf sem hefur verið unnið þar er í góðri sátt. Þetta er yfirgripsmikið og flókið verkefni sem nefndin hefur með höndum og þess er ekki að vænta að því ljúki fyrr en á næsta ári.

Við höfum kannað sérstaklega t.d. útsvarið sem er megintekjustofn sveitarfélaganna. Nefndin hefur velt því fyrir sér hvort aflétta ætti þaki af útsvarinu og gefa það bara frjálst til sveitarfélaganna, þær ákvarðanir. En þá er sá hængurinn á að við höfum viljað skoða stjórnarskrárákvæði í því sambandi því að samkvæmt stjórnarskránni hefur ríkið skattlagningarvaldið þannig að það er að ýmsu að hyggja í þessu.

Nefndin mun starfa að þessum málum af fullum krafti og þar á meðal fasteignaskattsmálinu sem er á hennar herðum en ekki er að vænta álits nefndarinnar fyrr en á næsta ári. Vonandi verður það fyrr en síðar og við setjum okkur það mark að ljúka störfum okkar á þessum vetri.

Varðandi (Forseti hringir.) tekjur sveitarfélaganna þá er ljóst að sveitarfélögin hafa fengið tekjur af útsvarinu vegna hækkaðra launa. En það eru þau fjölmennustu og sterkustu (Forseti hringir.) sem hafa notið þess, þar sem spennan er mest í atvinnulífinu. Það er eitt af þeim vandamálum (Forseti hringir.) sem við stöndum frammi fyrir.

(Forseti (ÍGP): Enn minni ég hv. þingmenn á að virða tímamörk.)