Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:53:42 (2255)

1999-12-03 13:53:42# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Áhyggjur sveitarstjórnarmanna af stöðu fjármála sveitarsjóða sinna eru miklar og það er eðlilegt. Skuldasöfnun sveitarfélaganna er hættulega mikil og við verðum að vera sífellt vakandi yfir stöðu sveitarfélaganna.

Það er hins vegar ljóst að sveitarfélögin eins og aðrir hafa notið aukinna tekna vegna hins almenna góðæris sem ríkir nú í landinu. Sveitarfélögin eru ekki eins stór hluti hins opinbera fjármálakerfis og víða gerist erlendis en það er hins vegar ljóst að sveitarfélögin gegna miklu hlutverki í því kerfi og það er hlutverk þeirra að líta til almennra efnahagslegra markmiða sem reynt er að ná við stjórn landsins, eins og ríkisins. Við hljótum þá sérstaklega að vísa til ábyrgðar stærri sveitarfélaganna.

Hlutur sveitarfélaganna í hinum opinbera rekstri er núna 27% og hefur verið að aukast frá því 1996 þegar hann var 22,7%. Sveitarfélögin eiga að hafa sjálfstæði en eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að ríki og sveitarfélög hafi samráð um megináherslur og efnahagsleg markmið og það gera ríki og sveitarfélög.

Í starfshópi þeim sem hefur verið nefndur hér um mat tiltekinna skattalagabreytinga kom fram að ýmsar breytingar hafa haft neikvæð áhrif á sveitarfélögin en hitt er óumdeilt að það hafa einnig orðið jákvæð áhrif. Jákvæðu áhrifin orsökuðust af auknum stöðugleika í efnahagslífinu og uppsveiflunni sem varð í samfélaginu sem tvímælalaust hefur komið sér vel fyrir sveitarfélögin. Dæmið er því ekki svo einfalt að það nægi að greiða í einu lagi þessa 2 milljarða sem hér voru nefndir og þar með sé dæmið gert upp. Þannig er ekki hægt að leysa þessi mál og þess vegna var þessi nefnd sett á stofn, tekjustofnanefndin, sem hefur það hlutverk m.a. að taka fyrir fasteignagjöldin sem hér hafa verið nefnd og það munum við gera í þeirri nefnd sem nú starfar.