Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:00:44 (2258)

1999-12-03 14:00:44# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Ég held að hún hafi verið upplýsandi að ýmsu leyti, bæði varðandi það hve margvíslegur vandinn er og víðfeðmur. Hér hafa lagt orð í belg ýmsir sveitarstjórnarmenn sem gerst mega til þekkja. En það var líka upplýsandi, herra forseti, að heyra orð hæstv. fjmrh. og átta sig á hvernig annars vegar ríkið og hins vegar sveitarfélögin tala í austur og vestur þegar kemur að tekjustofnum. Ljóst er að þarna þarf einhvern afruglara á milli. Menn eru einfaldlega ekki að tala um sömu hlutina.

Það fengust því miður engin svör, herra forseti, til þeirra sem hafa vænst þess að fasteignagjöldin yrðu í samræmi við matið á eignum þeirra. Það voru engir tímafyrirvarar inni í þessu loforði ríkisstjórnarinnar, aðeins kynt undir væntingunum. Því munu sveitarfélögin, vegna þess þrýstings sem kominn er á málin, í mörgum tilfellum verða af tekjum. Þau munu lækka álagningarstuðla sína. Það kemur í þeirra hlut að mæta væntingum fólksins en ekki ríkisstjórnarinnar. Þetta er vítahringur, herra forseti.

Ég tók eftir því að hæstv. félmrh. hefur aðrar áherslur heldur en hæstv. forsrh. og það er vel. Félmrh. hæstv. hefur skilning á því hvernig byggðavandinn hefur afgerandi áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og er því, eins og hann sagði réttilega, stærsti vandinn sem við er að eiga.

Herra forseti. Þann vanda verða menn að leysa með því að tala saman, ekki með því að misskilja hver annan viljandi eða óviljandi og tala svo hver í sína áttina svo engin leið er að heyra að þeir hafi nokkru sinni rætt um málið.