Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:08:38 (2334)

1999-12-06 15:08:38# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að ræða um Byggðastofnun sem nú er. Það má ábyggilega margt að hennar stjórnsýslulegu stöðu finna eða ræða. Hin nýja Byggðastofnun er hins vegar ekkert annað en áhrifalaus lítil stofnun sem sett er inn í ráðuneytið og á að lúta öllum þeim lögum og reglum sem stofnanir á vegum ráðuneyta lúta. (Gripið fram í: Ábending Ríkisendurskoðunar.) Ríkisendurskoðun er bara Ríkisendurskoðun --- við höfum löggjafarvaldið. Þessi stofnun er að fá nákvæmlega sömu stöðu.

Herra forseti. Frómt frá sagt er með þessu frv. verið að leggja Byggðastofnun niður, sem menn geta síðan haft sína eigin skoðun á hvort sé gott eða rétt, og búa til skrifstofu í ráðuneytinu hvort sem mönnum síðan finnst það betra eða verra. En á meðan gerist ekkert í byggðamálum, herra forseti. Það er það sem er hið alvarlega.