Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:09:47 (2335)

1999-12-06 15:09:47# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, EKG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Fyrir samhengi málsins vil ég aðeins fá að rifja það upp að á sínum tíma þegar sú ákvörðun var tekin við myndun núv. hæstv. ríkisstjórnar að færa stjórnskipulega stöðu Byggðastofnunar frá forsrn. til iðnrn., þá mótmælti ég þeim hugmyndum, talaði gegn þeim í mínum þingflokki og lét það koma fram opinberlega. Þetta varð hins vegar niðurstaðan í þeim umræðum og viðræðum sem fóru fram, það varð niðurstaðan við myndun ríkisstjórnarinnar að þannig skyldi þetta verða. Ég samþykkti þessa stjórnarmyndun og mun að sjálfsögðu þess vegna lúta því að þetta varð niðurstaða málsins, þrátt fyrir að ég hafi haft efasemdir og athugasemdir og lýst andstöðu við það á sínum tíma, þá get ég að sjálfsögðu ekki annað en fylgt því eftir sem ég sjálfur hef samþykkt á fyrri vettvangi. Og þó svo að ég hafi lýst þessum efasemdum mínum, þá stend ég að þeirri hugmynd að færa stjórnskipulega stöðu Byggðastofnunar yfir til iðnrn.

Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að nauðsynlegt sé að vekja athygli á því að frv. felur í sér annað og meira en bara það að flytja stofnunina frá einu ráðuneyti til annars. Það er líka verið að breyta stjórnskipulegri stöðu stofnunarinnar að því leytinu til að hún er í dag svokölluð sjálfstæð stofnun, sem er að vísu mjög óalgengt með aðrar ríkisstofnanir og verður samkvæmt orðanna hljóðan í 1. gr. frv. sérstök stofnun í eigu ríkisins og heyrir undir yfirstjórn iðnrh. og er þess vegna miklu líkari mörgum öðrum stofnunum sem starfa núna sem ríkisstofnanir. Ég er hins vegar alveg ósammála því sem hér hefur verið sagt, m.a. af hv. síðasta ræðumanni, að þar með sé stofnunin orðin ónýt stofnun og þar með sé hún ekki líkleg til að geta tekið á nokkrum sköpuðum hlut. Það held ég sé algjörlega ofmælt. Með því værum við að segja að þetta ætti við um til að mynda Flugmálstjórn sem er samkvæmt stjórnskipulegri stöðu sérstök ríkisstofnun og heyrir undir samgrh. Við skulum ekki tala með þeim hætti að stofnanir sem ekki eru sjálfstæðar séu um leið ónýtar stofnanir sem ekki er hægt að brúka til þeirra verkefna sem við ætlumst til af þeim. Engu að síður breytist stofnunin. Möguleikar þeirra sem þar starfa hvort sem það eru stjórnarmenn, starfsmenn eða forustumenn til að taka ákvarðanir af þeim toga sem teknar hafa verið á vettvangi Byggðastofnunar minnka sem þessu nemur. Það er eðli sjálfstæðra ríkisstofnana að niðurstöðum þeirra verður ekki áfrýjað til æðra stjórnvalds, það er einfaldlega þannig. Þess vegna hefur stofnunin haft mikið sjálfstæði. Hún hefur lagt fram tillögur og ábendingar í raun og veru án þess að hæstv. forsrh., sem hefur verið hinn stjórnskipulegi yfirmaður stofnunarinnar, hafi endilega haft mikið með það að gera. Þannig hefur t.d. byggðaáætlunin verið unnin að frumkvæði og algjörlega á ábyrgð stjórnar Byggðastofnunar. Byggðaáætlunin hefur síðan verið lögð fyrir hæstv. forsrh. sem hefur flutt hana, oft að undangengnum einhverjum breytingum, en engu að síður er það ljóst að forræði málsins hefur alltaf verið hjá Byggðastofnun.

Ég tel að það sé galli á frv. að gert er ráð fyrir að þessi þáttur málsins, þ.e. stefnumótandi byggðaáætlun til fjögurra ára, flytjist til, þ.e. forræðið eða vinnan að því máli flytjist að mestu leyti til iðnrn. og það hafi ekki annað hlutverk gagnvart Byggðastofnun en að bera þetta undir stofnunina. Þetta tel ég vera mjög óskynsamlega aðferð. Við höfum sérfræðilega stofnun, sem Byggðastofnun vissulega er, og það er að mínu mati miklu eðlilegra að gangur málsins sé sá að Byggðastofnun vinni að undirbúningi þessarar stefnumótandi áætlunar en sé síðan flutt inn í þingið af þeim ráðherra sem hefur með stjórnskipulegt vald eða hefur hina stjórnskipulegu stöðu að vera yfirmaður stofnunarinnar. Þetta hefur að mínu mati gefist vel. Hins vegar má deila endalaust um þessar almennu byggðaáætlanir sem gerðar hafa verið og eru gerðar. Stjórn Byggðastofnunar hefur unnið að því nýmæli, ef við getum sagt sem svo, að fylgja eftir þessari áætlun með skýrslu þeirri sem hv. þm. hafa nú undir höndum, Byggðir á Íslandi, og má segja sem svo að sé á vissan hátt eftirfylgni þeirrar byggðaáætlunar sem núna er í gildi og var að mínu mati tímamótaplagg í byggðaumræðunni hér á landi.

[15:15]

Ég tel að við ættum í meðförum þingsins að skoða hvernig við getum styrkt stofnunina. Það er mjög mikilvægt að hún sé sterk. Hún þarf auðvitað að sinna því mikla hlutverki að hringja viðvörunarbjöllum, hafa áhrif, sýna frumkvæði, taka af skarið, miðla nýjum upplýsingum og freista þess að móta nýja stefnu vegna þess að mjög margt er að brjótast um í stefnumótun á sviði byggðamála úti um allan heim. Það hefur verið ljóður á umræðunni hér á landi hversu einangruð hún hefur verið. Umræðan um þessi mál hefur ekki verið á sama stigi og úti í heimi. Ég held, virðulegi forseti, að skynsamlegt væri að nefndin sem tekur þetta mál að sér skoðaði þann þátt málsins. Í annan stað tel ég að það yrði til þess að styrkja og auka sjálfstæði stofnunarinnar ef öðruvísi yrði valið í stjórn hennar. Ég er alveg sammála því sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði. Auðvitað er þetta ekki aðalatriði málsins en yrði ásamt öðru til að styrkja sjálfstæði stofnunarinnar.

Ég tek heils hugar undir að það hefur verið mikill galli á atvinnuþróunarstarfi í landinu hversu dreift það er. Við sjáum á mörgum sviðum að í raun er mikið fjármagn til ráðstöfunar til atvinnuþróunarstarfsemi víða í landinu. Eins og hv. 4. þm. Vesturl. vakti alveg réttilega athygli á fer mikið af peningum t.d. í gegnum hendur hæstv. iðnrh. sem maður mundi ætla að rynnu hér eftir í gegnum Byggðastofnun. Hæstv. ráðherra hefur fengið til úthlutunar að mig minnir 80 millj. kr. á ári hverju undanfarin ár vegna þess sem kallað hefur verið arðgreiðslur Landsvirkjunar. Síðan hefur auðvitað verið unnið margs konar atvinnuþróunar- og styrktarstarf á vegum Iðntæknistofnunar. Það er alveg hárrétt að mikilvægt er að reyna að samþætta þessa starfsemi.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á að Byggðastofnun hefur mótað, fylgt eftir og hrint í framkvæmd nýrri stefnu fyrir atvinnuþróunarstarf í landinu. Í raun er það ekki lengur þannig að atvinnuþróunarstarfsemi sé á sviði Byggðastofnunar heldur hefur Byggðastofnun falið atvinnuþróunarfélögum á landsbygðinni að vinna þetta verk. Stofnunin hefur varið til þeirra talsvert miklum fjármunum í þessu skyni. Nú er á forræði, ábyrgð og að frumkvæði heimamanna hvernig til tekst. Ég held að þetta sé mjög skynsamlegt. Við erum ekki lengur með þessa miðstýrðu hugsun í atvinnuþróunarstarfi heldur er það lagt upp í hendurnar á heimamönnum. Ég vildi sjá, virðulegi forseti, áframhald á þessari þróun. Ég tel raunar fullt tilefni og mikla möguleika til, í breyttu skipulagi Byggðastofnunar sem nú heyrir undir iðnrh., að færa starfsemi af þessu tagi meira út á landsbyggðina. Ég vek í þessu sambandi athygli á starfsemi sem núna fer fram af hálfu Iðntæknistofnunar á þessu sviði sem augljóst er að flytja á eins mikið og hægt er, nema kannski grunnrannsóknirnar, út í atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni. Ég vil, virðulegi forseti, árétta að mikilvægt er að unnið verði á þessu sviði.

Í því sambandi vil ég vekja athygli á því að í 11. gr., síðustu málsgrein þessa frv., er athyglisverð stefnumótun sem ég tel nauðsynlegt að fylgja eftir. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Stjórn Byggðastofnunar getur tekið ákvörðun um að gera samninga um að fela fjármálastofnunum afgreiðslu og innheimtu lána, sem og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar.``

Segja mætti að þarna séu opnaðir möguleikar á hagræðingu og því að flytja verkefni út á landsbyggðina. Auðvitað er ekki sama hvernig þetta er gert. Það er t.d. ljóst mál að stóru bankarnir, Íslandsbanki, Búnaðarbanki og Landsbankinn, hafa fyrst og fremst verið að efla starfsemi sína á höfuðborgarsvæðinu og dregið úr henni á landsbyggðinni. Þeir færa t.d. alls konar fjármálalega þjónustu, bókhald og þess háttar frá stofnunum úti á landi og til Reykjavíkur. Þetta er auðvitað gagnstætt stefnumótun Alþingis, þrátt fyrir að þarna sé um að ræða ríkisbanka. Ég tel að þarna séu opnaðir möguleikar á að færa verkefni af þessu tagi út á land í fjármálastofnanir dreifbýlisins til að vinna úr. Það væri mjög í samræmi við þá stefnumótun sem unnið hefur verið að innan Byggðastofnunar fram að þessu.

Ég er hins vegar ósammála því sem fram kom í máli hv. 5. þm. Norðurl. v. að óeðlilegt sé að Byggðastofnun vinni að rannsóknar- og þróunarverkefnum. Þvert á móti tel ég að það sé eitt af því skársta sem gert hefur verið í byggðamálum á undanförnum árum að efla þá starfsemi. Hér ætlaði allt vitlaust að verða, m.a. í nafni starfsöryggis starfsmanna Byggðastofnunar, þegar sú sjálfsagða og eðlilega ákvörðun var tekin að færa verkefni þróunarsviðs Byggðastofnunar út á land, norður á Sauðárkrók. Þetta hefur tekist mjög vel. Þar starfar nú ungt, áhugasamt og vel menntað háskólafólk sem m.a. hefur sótt þekkingu sína í erlenda háskóla. Það kann vel við sig í starfi í þessu norður í Skagafirði, eins og eðlilegt er. Þessi starfsemi hefur tekist mjög vel. Fyrir þessa starfsemi hefur það gerst að umræðan um byggðamál í landinu hefur gerbreyst. Það er úr sögunni að menn komist upp með að halda áfram þessari umræðu í upphrópunarstíl. Þróunar- og rannsóknarvinnan hefur haft það í för með sér að umræðan er upplýstari og hægt að svara með rökum á grundvelli þekkingar sem þetta fólk hefur aflað, m.a. í samstarfi við háskólana í landinu, bæði á Akureyri og hér í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika nauðsyn þess að efla þennan þátt málsins og Byggðastofnun á að hafa frumkvæði í þessu, að færa þessa miklu þekkingu inn í landið og miðla henni áfram. Ég vil vekja athygli á því að skýrslan sem við erum öðrum þræði að ræða í dag, um byggðir á Íslandi, byggist á viðurhlutamikilli rannsóknarstarfsemi og athugunum fólks sem hefur aflað sér sérþekkingar á þessu sviði. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þennan þátt stofnunarinnar þurfi að efla.

Loks vil ég, virðulegi forseti, vekja athygli á einu varðandi starfsemi Byggðastofnunar. Stundum hefur verið rætt hvort ekki væri eðlilegt að fella niður heimildir stofnunarinnar til að annast lánastarfsemi. Sú þróun sem verið hefur, m.a. á fjármálamarkaðnum á undanförnum árum, hefur leitt til þess að meiri þörf er á því núna en nokkru sinni fyrr, a.m.k. frá því að ég fór að fylgjast með þessu máli, að lánastarfsemi Byggðastofnunar haldi áfram og verði efld. Sannleikurinn er sá og ég þekki það af reynslu sem stjórnarmaður stofnunarinnar að fyrirtæki utan af landsbyggðinni hafa staðið frammi fyrir því að hið nýja fjármálaumhverfi sem hefur að langmestu leyti orðið til góðs í þjóðfélagi okkar hefur hins vegar mjög takmarkaðan skilning á þörfum einstakra fyrirtækja á landsbyggðinni. Ég fullyrði að víða er ekki einu sinni til staðar sú nauðsynlega sérþekking sem þarf til þess að taka þessar ákvarðanir. Byggðastofnun hefur þar með þurft að koma að málum sem hún þurfti ekki að skipta sér mikið af hér áður.

Í gamla daga lánaði t.d. Fiskveiðasjóður Íslands sjálfvirkt til fyrirtækja í sjávarútvegi út á 1. veðrétt þeirra. Síðan komu aðrar lánastofnanir og hjálpuðu upp á sakirnar eins og efni stóðu til. Arftaki þessarar stofnunar, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins, vinnur ekki svona. Ég er ekki að gagnrýna það út frá forsendum bankans. Þetta er einfaldlega staðreynd og mat margra lánastofnana á eignum á landsbyggðinni er þannig að Byggðastofnun hefur orðið að koma þar inn öflugar en áður. Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti, að ég tel að styrkja þurfi lánadeild Byggðastofnunar og efla. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að mörg verkefni úti á landi eru í eðli sínu áhættusöm og getur farið svo að stofnunin þurfi á sérstökum styrk að halda til að geta stutt þá starfsemi. Ég vil að þetta komi glögglega fram.

Virðulegi forseti. Þetta voru fremur almennar hugleiðingar um þessa stofnun í upphafi máls. Ég tel að mjög margt hafi orðið til bóta í starfi stofnunarinnar á undanförnum árum, sérstaklega með frumkvæði stofnunarinnar, ekki síst stjórn hennar sem hefur unnið að því að færa verkefni eftir föngum út á land. Þar með hefur hún aukið ábyrgðina hjá einstaklingunum sem þar búa svo hægt sé að laða fram frumkvæðið sem þarf sem er forsenda hinnar nauðsynlegu endurreisnar atvinnulífsins á landsbyggðinni. Ég tel mikilvægt að unnið sé í þeim anda. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að þeir þættir frv. sem lúta að t.d. gerð byggðaáætlana og sjálfstæði stofnunarinnar séu efldir til að stofnunin geti tekið á í þeim erfiðu málum sem víða er við að glíma á landsbyggðinni. Við þurfum að bregðast við þeim vegna þess að það er þjóðfélagslega óhagkvæmt fyrir okkur að sú byggðaþróun haldi áfram sem hefur verið á undanförnum árum.