Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:57:24 (2348)

1999-12-06 15:57:24# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég get létt áhyggjum af hv. þm. Það er ekkert vafamál að í Samfylkingunni á ég vel heima með áherslur mínar í byggðamálum og það er eins og fram kom í fögnuði hv. þm. að áhugi minn á byggðamálum er mikill, hefur verið það lengi og mun verða það um ókomna framtíð.

Það er einnig ljóst að ég er sammála hv. þm. um áhersluna í Fljótsdalsvirkjun og tengi það verkefni beint við byggðamál og tel mig hafa fært nokkur rök fyrir því í þeirri umræðu sem átti sér stað um það mál.

Það er líka vonandi að hv. þm. hafi rétt fyrir sér í því að ekki sé verið að veikja Byggðastofnun. Ég vona að satt reynist en ítreka enn óskir mínar til þingnefndarinnar um að það verði skoðað sérstaklega vegna þeirra varnaðarorða sem ýmsir hafa látið falla í þá átt.

Síðan er vitnað til úttektar Ríkisendurskoðunar um að nauðsynlegt sé að koma á stjórnsýslutengslum milli ráðherra stofnunarinnar. Ég hef óljósan grun um að þar hljóti að hafa verið rætt um hæstv. forsrh. Það er því afar mikilvægt að við áttum okkur á því að nú er þarna færsla á milli og hér er um fagráðuneyti að ræða sem nú mun taka við stofnuninni, en áður var að hluta til væntanlega ætlast til þess að hæstv. forsrh. stundaði margs konar samræmingu milli ráðuneyta sem auðvitað er mjög mikilvægt í þessum málaflokki.

Einnig er athyglisvert að hlusta á túlkun hv. þm. á því ákvæði að hæstv. iðnrh. fari með það vald að ákveða staðsetningu Byggðastofnunar. Ég vona að gott á viti og hæstv. iðnrh. skoði það mjög gaumgæfilega hvort ekki sé tími til þess kominn að kanna hvort Byggðastofnun eigi ekki heima í hinum dreifðu byggðum.