Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:59:45 (2349)

1999-12-06 15:59:45# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:59]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Frv. sem hér er til umræðu veldur mér miklum áhyggjum. Framtíð þeirrar stofnunar sem frv. fjallar um, Byggðastofnunar, skiptir miklu máli í þeim gífurlega mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir í þróun byggðar í landinu. Því má ekkert fara úrskeiðis við þá stofnun sem mest hlutverk hefur varðandi það að snúa við þeirri óheillaþróun sem við nú stöndum frammi fyrir. Skýrsla Byggðastofnunar, Byggðir á Íslandi -- aðgerðir í byggðamálum, sem kom út fyrir helgi segir mikla sögu í þessu efni.

[16:00]

Á undanförnum árum höfum við séð gerbreytingar á störfum Byggðastofnunar. Áður snerist starf Byggðastofnunar mikið um að bregðast við í einstökum vandamálum í sjávarútvegsfyrirtækjum. Starfsmenn hennar höfðu það hlutverk að vera eins konar slökkvilið sem brygðist við þegar vandinn blossaði upp vítt og breitt um landið.

Á seinustu árum hefur stofnunin getað snúið sér að þróunarmálum eins og er eðlilegt hlutverk slíkrar stofnunar. Vil ég þá sérstaklega benda á stofnun hins nýja þróunarsviðs Byggðastofnunar á Sauðárkróki sem ég tel að þrátt fyrir ungan aldur hafi sannað gildi sitt og hefur haft afgerandi áhrif við störf stofnunarinnar.

Ég vil einnig nefna aukið hlutverk atvinnuþróunarfélaganna úti um land í byggðaverkefnum. Til þeirra hafa verið flutt verkefni og fjármagn til þess að takast á við verkefni í næsta umhverfi sínu. Þetta er ákaflega mikilvægt, þ.e. að heimamenn fái nokkru um það ráðið hvernig þróunarvinnan sem á sér stað fer fram á hverju svæði. Það er grátlegt, hæstv. forseti, að hugsa til þess að þegar ný vinnubrögð hafa verið tekin upp muni hugsanlega verða skellt í bakkgír eða hægt mjög á þeirri vinnu sem komin er af stað við að breyta þeirri þróun sem stýrir fólksflutningum í landinu.

Eins og fram kemur í skýrslu Byggðastofnunar er víða þörf á bráðaaðgerðum. Það er því mjög nauðsynlegt að ekkert trufli vinnu við byggðamálin á þessari stundu. Stjórnsýslubreytingar þurfa því að ganga í gegn með sem minnstu brambolti og óöryggi varðandi stöðu Byggðastofnunar.

Hæstv. forseti. Það eru nokkur ákvæði í frv. sem ég hef sérstakar áhyggjur af en mun einungis nefna þrennt. Það er í fyrsta lagi í 7. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra skal vinna að byggðaáætlun í samvinnu við Byggðastofnun.``

Dr. Bjarki Jóhannesson og hans lið hefur eflt sig mjög til að vinna að slíkum byggðaáætlunum og ég tel það vera afturför ef á að fara að vinna þessar áætlanir í ráðuneytinu, hugsanlega þó í samvinnu við Byggðastofnun og aðra þá aðila sem að málinu koma. Að forræðið sé algerlega í hendi ráðuneytisins tel ég ekki vera gott. En eins og þetta hefur verið, þá hefur Byggðastofnun unnið þessar byggðaáætlanir í samráði og samvinnu við ýmsar stofnanir. Hún hefur kallað til rannsóknastofnanir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri og ýmsar aðrar stofnanir til þess að vinna ákveðin verk varðandi gerð byggðaáætlana. Ég tel það sem sagt mjög mikilvægt að þetta verði áfram á forræði Byggðastofnunar.

Ég vil einnig nefna lánamálin. Því miður held ég að hlutverk Byggðastofnunar verði áfram nokkurt varðandi lánamálin. Lánastofnanir í landinu eru að þróast á þann veg að ekki er jafneinfalt fyrir þá atvinnuvegi sem áður áttu sína atvinnuvegasjóði að leita til lánastofnana. Þess vegna er hlutverk Byggðastofnunar enn þá nokkurt varðandi lánamálin.

Í þriðja lagi tel ég það vera grundvallaratriði að stjórn stofnunarinnar verði kosin af Alþingi. Ég vil nefna tvennt því til stuðnings. Málaflokkurinn er þess eðlis að þeir sem um hann fjalla þurfa að hafa breiðan pólitískan bakgrunn. Við megum ekki láta byggðamálin falla í þann farveg að þau verði pólitískt bitbein manna á milli. Hitt er að sjálfstæði stofnunarinnar er nauðsynlegt til þess að hún geti brugðist við einstaka verkefnum sem upp koma án samráðs við iðnrn. og einnig á grundvelli sjálfstæðis síns valið sér starfsvettvang.

Ég vil, hæstv. forseti, vitna í prófessor Davíð Þór Björgvinsson sem hefur tekið út stjórnsýslulega stöðu Byggðastofnunar frá lögfræðilegu sjónarmiði. Það er mat hans að eins og stofnunin er núna hafi stjórn stofnunarinnar æðsta vald í málefnum hennar og ákvarðanir stjórnar eru endanlegar og þeim verður ekki skotið til æðra stjórnvalds til endurskoðunar. Af því leiðir jafnframt að ákvörðunum stjórnar verður ekki breytt nema af henni sjálfri nema að því marki sem lög leyfa.

Varðandi frv. sem nú liggur fyrir þá hefur einnig verið leitað til prófessorsins um þessa lögfræðilegu stöðu stofnunarinnar ef af þessum breytingum verður og hann segir, með leyfi forseta:

,,Í 1. mgr. 1. gr. frv. er lagt til að Byggðastofnun verði undir yfirstjórn iðnrh. Þá er í 2. mgr. 3. gr. gert ráð fyrir að iðnrh. skipi stjórn Byggðastofnunar. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frv. segir beinlínis, að sú breyting sem hér sé lögð til á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar feli í sér að iðnrh. fari með yfirstjórn Byggðastofnunar og að stofnunin og stjórn hennar beri ábyrgð á sínum störfum gagnvart ráðherra. Með þessu móti gefist kostur á að skjóta ákvörðunum stjórnar til ráðherra sem æðra stjórnvalds til endurskoðunar. Í greinargerð kemur enn fremur fram að þetta sé í samræmi við hið almenna fyrirkomulag í íslenskri stjórnsýslu.

Vissulega fela þessar breytingar í sér að ráðherra fær mun meira vald varðandi innri málefni stofnunarinnar og ákvarðanir hennar í einstökum málum heldur en gildandi lög gera ráð fyrir. Á sama hátt er afnumið sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ráðherra. Frá sjónarmiði stjórnsýsluréttarins er um að ræða grundvallarbreytingu á stöðu stofnunarinnar í stjórnkerfinu.``

Þetta er varðandi lögfræðilega matið á því hver staðan er en ég tel að það hafi einnig byggðapólitískar afleiðingar að breyta þessu á þennan hátt. Eins og ég nefndi er mjög nauðsynlegt að friður skapist um störf þessarar stofnunar.

Ég legg því eindregið til að vald stofnunarinnar verði óbreytt frá því sem nú er og stjórnin verði þingkjörin. Byggðamálin eiga sem sagt að vera viðfangsefni allra stjórnmálaflokka.

Vegna hins víðtæka verkefnasviðs sem Byggðastofnun verður að hafa hér á landi umfram sams konar stofnanir á Norðurlöndunum og í Evrópu þá hef ég miklar áhyggjur af því hvernig til takist við að flytja stofnunina á milli ráðuneyta. Augljóst er að það er mjög vandasamt. Það er nauðsynlegt að sterkt samband sé á milli Byggðastofnunar og flestallra annarra ráðuneyta.

Það kom m.a. sterkt fram í rannsókn Stefáns Ólafssonar fyrir Byggðastofnun sem gerð var 1998, að mig minnir, að það er margt annað en atvinnumál sem hefur áhrif á byggðaþróun. Það má nefna menntun og menningu, samgöngumál, heilbrigðismál og atvinnumál sem heyra undir önnur atvinnuráðuneyti en iðnrn. eins og t.d. sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Þetta er reyndar línan sem fram kemur í þál. um stefnu í byggðamálum sem unnin var af Byggðastofnun. Hún var lögð fram á Alþingi af forsrh. og samþykkt á Alþingi 3. mars sl. Stefnan þar er mjög skýr og hún tekur á fjórum meginþáttum, þ.e. nýsköpun í atvinnumálum, í öðru lagi menntun, þekking og menntamálum, í þriðja lagi jöfnun lífskjara og í fjórða lagi á bættri umgengni við landið.

Það gefur augaleið að svo fjölbreytt stefnumörkun tekur til málaflokka og stofnana sem heyra undir nánast öll ráðuneyti. Því hlýtur að vera auðveldara að fást við þau efni þegar stofnunin heyrir undir forsrn. að ná samstarfi við fagráðuneyti og stofnanir. Augljóst er að iðnrn. getur aldrei haft boðvald yfir öðrum ráðuneytum en það er grundvallaratriði að hægt sé að vinna með þeim hætti að samráð og samstarf sé á milli stofnunarinnar og ráðuneyta.

Hæstv. forseti. Ég vil óska eftir því við hv. allshn. að hún skoði sérstaklega stjórnsýslulega stöðu Byggðastofnunar. Eins og ákvæði eru nú í frv. á ég erfitt með að styðja ákvæðið eins og það kemur fram í 3. gr. Ég tel þessa áherslu hafa grundvallarþýðingu hvert bakland stofnunarinnar er.

Eins og ég var að rekja áðan brýni ég hv. allshn. að skoða það sérstaklega hvernig samvinna milli ráðuneyta getur farið fram, samvinna ráðuneyta og stofnana og ég tel auðvitað að á því finnist lausn en það er afskaplega mikilvægt að lögð verði í það vinna og það verði mjög skýrt hvernig á að vinna þvert á stofnanir og ráðuneyti og engin óvissa verði í því varðandi starf að byggðamálum.