Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:13:43 (2351)

1999-12-06 16:13:43# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi að nauðsynlegt væri að stjórnin væri skipuð af ráðherra til þess að hana mætti gagnrýna. Ég held að það sé viðtekin venja að menn geti rætt málefni einstakra stofnana og það hefur verið gert sem betur fer, m.a. Byggðastofnunar, þrátt fyrir að stjórnin sé skipuð af Alþingi. Hins vegar tel ég augljóst að þegar breiður pólitískur bakgrunnur er á bak við stjórn slíkrar stofnunar þá skapist um hana meiri friður og menn geti með það pólitíska bakland sem stjórnin hefur unnið að þeim áherslum sem þeir hafa í málaflokknum. Ég held að það sé ekkert sérstaklega vænlegt til árangurs að einn ráðherra pikki út --- það hefur stundum verið nefnt að handvelja --- stjórnarmenn til að stjórna slíkri stofnun. Menn hljóta þá að spyrja hvort ekki sé jafngott að hafa þá ráðuneytisstarfsmenn í því starfi.

Varðandi það hvaða verkefni einkaaðilar geta ekki unnið, þá er það auðvitað margt. Ég vil óska eftir því hins vegar að þessir sjóðir sem hv. þm. nefndi, Nýsköpunarsjóður og Þróunarfélagið, fari að skipta sér af sem flestum atvinnumálum á landsbyggðinni. Það væri mjög góð þróun. En það er raunar margt í samræmingarstarfi ráðuneyta sem slík stofnun þarf að benda á og skoða (Forseti hringir.) og ég mun, hæstv. forseti, klára að svara þessu á eftir ef ég fæ tækifæri til þess.