Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:19:50 (2354)

1999-12-06 16:19:50# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi það í upphafi ræðu sinnar að hún hefði áhyggjur af þessu frv. Ég veit að hún vill vel í byggðamálunum og vill ekki að menn séu að gera neinar vitleysur. Hún nefndi nokkur dæmi í því sambandi og minntist m.a. á lánamálin. Það er alls ekkert verið að veikja þann þátt í starfsemi stofnunarinnar. Ég hef nefnt hér áður alla þá fjölmörgu aðila sem nefndin sem samdi frv. hitti. Flestir þeirra lögðu mikla áherslu á að stofnunin héldi áfram lánastarfsemi. Það er reyndar orðið svo að stærri fyrirtækin taka ekki lán í Byggðastofnun því þau geta fengið þau hagstæðari annars staðar. En minni og meðalstór fyrirtæki sækja mjög í þetta því að lánastofnanirnar leggja sig ekki eftir að skipta við þau fyrirtæki.

Hv. þm. nefndi, eins og fleiri hafa reyndar gert, að nauðsynlegt sé að Alþingi kjósi stjórnina og væri þá meiri friður um stofnunina. Ég efast um að það skipti öllu máli hvað varðar frið um stofnunina hvernig stjórnin er saman sett eða til orðin og býst við að þó að ráðherra skipi hana þá verði stuðst við styrkleikahlutföllin hér á þingi eftir sem áður. Í sjálfu sér finnst mér það ekkert heilagt að þetta sé endilega gert á þennan hátt og má auðvitað skoða það í meðferð Alþingis á málinu.

Hv. þm. vitnaði einnig í Davíð Þór Björgvinsson prófessor eins og fleiri þingmenn hafa gert og ályktun hans um stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar og þær breytingar sem verða á henni við þetta og allt er þetta rétt. En ég minni enn einu sinni á stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem gerð var 1996, stjórnsýsluúttekt á Byggðastofnun þar sem Ríkisendurskoðun taldi eðlilegt að breytingar á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar yrðu teknar til athugunar þannig að stjórnsýslusambandi yrði komið á milli ráðherra og stofnunarinnar. Og það er einmitt verið að gera.

Ég vil svo segja að ég er sammála hv. þm. um að framtíð Byggðastofnunar skiptir miklu máli en ég fullyrði að alls ekki er verið að veikja hana með þeirri breytingu sem hér er í farvatninu, þvert á móti.