Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:24:50 (2356)

1999-12-06 16:24:50# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum við þessu frv. um Byggðastofnun, bæði viðbrögðum á Alþingi og eins í blaðagreinum og viðtölum. Þeir sem hafa tjáð sig, sem eru reyndar ekki mjög margir, halda því flestir fram að verið sé að veikja Byggðastofnun mjög með þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir. En þetta er fjarri lagi enda náttúrlega fráleitt að nokkrum manni detti í hug að veikja Byggðastofnun mitt í allri þeirri miklu umræðu sem er um byggðavandann jafnt á Alþingi og meðal þjóðarinnar.

Ég hef reynt að fylgjast með hvað það er sem menn nota til rökstuðnings fullyrðingum um að það eigi að veikja Byggðastofnun. Það sem helst er nefnt er hvaða fyrirkomulag verður haft við val á stjórn stofnunarinnar, hvaða ráðuneyti fer með byggðamálin, að sjálfstæði stofnunarinnar muni minnka og að ekki sé minnst á nýjar fjárveitingar í þessu frv., og er þá gjarnan nefndur til sögunnar einn milljarður.

Ég sat í þeirri nefnd sem undirbjó frv. og ég tók reyndar eftir því í umræðunum hér á fimmtudaginn að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði heldur lítið úr störfum þessarar nefndar og fann henni það m.a. til foráttu að hafa ekki þurft nema tæpa tvo mánuði til að ljúka verkefni sínu. Það fannst hv. þm. bera vott um sýndarmennskustörf auk þess sem hann gat þess af alkunnri hógværð að aðild okkar Sigfúsar Jónssonar að nefndarstarfinu hefði nú ekki verið mikils virði.

Það er nýtt fyrir mér að það sé gagnrýnisvert að nefndir vinni hratt og vel en það gerði þessi nefnd einmitt. Hún hélt mjög marga fundi og fór í vettvangskannanir og vann vel að mínu mati. Álit hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á mér og Sigfúsi Jónssyni læt ég mér nú í léttu rúmi liggja og það heldur ekki fyrir mér vöku. En þessi nefnd hélt á annan tug funda og kallaði til sín mikinn fjölda fólks frá hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins sem tengist byggðamálum, atvinnuþróun og nýsköpun. Nefndin heimsótti Iðntæknistofnun og fundaði með forsvarsmönnum hennar. Einnig var Háskólinn á Akureyri heimsóttur. Þar var rætt við rektor og menn úr atvinnulífinu á Akureyri, auk þess sem nefndin fundaði með tugum nemenda skólans og ræddi við þá um hvaða sýn þau hefðu á málefni landsbyggðarinnar á komandi árum. Það var sérstaklega skemmtilegur fundur. Þetta voru mest ungmenni af landsbyggðinni og það var mjög fróðlegt fyrir okkur að heyra hvernig þau sjá framtíðina fyrir sér og hvað þeim fannst að þyrfti að gerast á landsbyggðinni til að þau ættu möguleika á að halda heim aftur að námi loknu.

Loks heimsótti nefndin ársfund starfsmanna atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni sem var haldinn í Eyjafjarðarsveit og skiptist þar á skoðunum við fundarmenn sem þekkja flestum betur þau vandamál sem við er að glíma á landsbyggðinni. Nefndin ræddi því við mjög marga aðila sem við töldum að hefðu eitthvað fram að leggja í þessari umræðu. Skemmst er frá því að segja, eins og ég hef nefnt áður, að ekki einn einasti þessara viðmælenda okkar nefndi þessi atriði sem eru aðalatriði umræðunnar á Alþingi og í fjölmiðlum, þ.e. hvernig staðið verði að vali manna í stjórn Byggðastofnunar eða hvaða ráðuneyti hún tilheyri, hvort stofnunin teljist sjálfstæð eða hvort einhver milljarður fljóti með.

Það sem þessir viðmælendur okkar lögðu mesta áherslu á var að talsvert skorti á samhæfingu í stoðkerfum atvinnulífsins og að það þyrfti að nýta betur og markvissar það mikla fjármagn sem varið er til þessara mála. Það kom einnig fram mikill vilji til að vinna markvisst að því að ná fram auknu samstarfi og aukinni samhæfingu atvinnuþróunarstarfsins í landinu og mikið rætt um það einmitt að margir væru að vasast í því sama án nokkurrar tengingar á milli, t.d. Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og e.t.v. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Menn töluðu um að Nýsköpunarsjóður ætti að koma að þessu líka og voru mjög uppteknir af þessu og töldu að þegar samið yrði nýtt frv. um Byggðastofnun þá ætti fyrst og fremst að leggja áherslu á þetta. En ég held að þeim hafi verið alveg sama hvernig valið yrði í stjórn.

Nefndin sem samdi frv. var sammála um að Byggðastofnun hafi verk að vinna á þessu sviði og reyndi að miða tillögugerð sína við það. Ég ætla að nefna hérna örfá atriði úr þessu frv. sem ég tel að skipti máli.

Í fyrsta lagi að lögð er aukin áhersla á hlutverk Byggðastofnunar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og jafnframt að stofnunin styðji áfram við atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni og vinni að samræmingu og eflingu þeirrar starfsemi. Sú breyting sem Byggðastofnun beitti sér fyrir á síðasta kjörtímabili, að stórefla atvinnuþróunarstarfið úti á landi og færa það alfarið í hendur heimamanna með öflugum fjárstuðningi, hefur gefist vel og hér er gert ráð fyrir að þessi þáttur í starfsemi Byggðastofnunar haldi áfram og verði jafnvel efldur, m.a. með samhæfingu atvinnuráðgjafar eins og margir viðmælendur okkar lögðu áherslu á.

[16:30]

Þar má t.d. nefna atvinnuvegabundna ráðgjafarstarfsemi í landbúnaði og ferðaþjónustu. Einnig teljum við að Byggðastofnun geti gegnt veigamiklu hlutverki varðandi fræðslu og endurmenntun þeirra sem starfa við atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni. Reynslan hefur verið sú að menn endast einhverra hluta vegna ekki mjög lengi í þessum störfum. Við teljum að það gæti orðið til þess að menn entust betur ef þeir fengju endurmenntun og fræðslu með reglulegu millibili. Þannig hyrfu þeir ekki til annarra starfa. Reyndar er mjög algengt að þessir menn séu yfirboðnir af þeim sem skipta við þá. Ef þeir standa sig vel í starfi þá bjóða fyrirtækin þeim gjarnan hærri laun og fá þá til starfa. Það er að sumu leyti ágætt en er náttúrlega vont fyrir starfsemi félaganna.

Í öðru lagi vil ég nefna þá áherslu sem lögð er á að Byggðastofnun hafi frumkvæði að uppbyggingu atvinnulífs og nýsköpunar á landsbyggðinni og heimild til að leita eftir samstarfi við aðra um fjármögnun. Þessi breyting er í samræmi við þál. um byggðamál sem samþykkt var á Alþingi í vor. Segja má að Byggðastofnun hafi riðið á vaðið með slíkt samstarf sl. sumar þegar stofnunin beitti sér fyrir því að stofnað var fiskvinnslufyrirtæki á Þingeyri. Það hefur núna tekið til starfa. Þegar unnið var að því í sumar komu fram efasemdir um að stofnunin hefði heimild til slíkrar starfsemi. Í nýjum lögum um Byggðastofnun er gert ráð fyrir að stofnunin hafi heimild til þess.

Í þriðja lagi bendi ég á að meiri áhersla er lögð á að stofnunin stundi rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun en gert er í gildandi lögum og þá jafnframt að samstarf verði aukið við erlenda aðila á sama starfssviði í löndum þar sem aðstæður eru svipaðar og hérna, t.d. í Skotlandi, Noregi, Írlandi og austurströnd Kanada, undir það fellur jafnframt aukið norrænt samstarf og samstarf á Evrópuvettvangi.

Í fjórða lagi vil ég nefna að stjórn Byggðastofnunar verður heimilt að fela forstjóra að ákvarða lánveitingar Byggðastofnunar samkvæmt reglum sem stjórnin mun setja. Ég tel þetta til bóta og hef lengi verið þeirrar skoðunar að venjulegar lánsumsóknir eigi að afgreiðast sem fyrst af forstjóra og forstöðumanni lánasviðs en lán yfir ákveðinum áhættumörkum fari til nánari umfjöllunar í stjórn. Mér finnst ósköp gamaldags að pottþéttur umsækjandi um nokkurra milljóna kr. lán skuli þurfi að bíða vikum og jafnvel mánuðum saman eftir svari við umsókn sinni. Einnig er gert ráð fyrir að stjórn Byggðastofnunar geti falið fjármálastofnunum afgreiðslu og innheimtu lána og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar. Með þessu er Byggðastofnun skapaður sveigjanleiki til að laga rekstur sinn að breyttum aðstæðum. Mér sýnist upplagt að fela fjármálastofnunum úti á landi þessa umsýslu og skapa með því ný störf á landsbyggðinni.

Talandi um lánastarfsemi og fjármálaumsýslu má nefna að nokkuð skiptar skoðanir hafa á undanförnum árum verið um hvort Byggðastofnun eigi yfir höfuð að reka lánastarfsemi eða ekki. Nefndin sem samdi þetta frv. bar það undir flesta viðmælendur sína og þeir voru undantekningarlítið þeirrar skoðunar að lánastarfsemin hafi mikilvægu hlutverki að gegna í þjónustu við atvinnulífið á landsbyggðinni. Margir nefndu einnig, eins og kom fram hér í ræðu hv. 1. þm. Vestf. fyrr í dag, að lánastarfsemin væri ekki síst nauðsynleg vegna þess að bankakerfið væri neikvæðara í garð landsbyggðarinnar en áður.

Í fimmta lagi má nefna að í þessu frv. segir að ráðherra ákveði staðsetningu Byggðastofnunar að fenginni tillögu stjórnar. Ég held að nauðsynlegt sé að hafa þetta á hreinu í lögum með tilliti til þess gauragangs sem varð þegar stjórn Byggðastofnunar ákvað að flytja þróunarsvið stofnunarinnar til Sauðárkróks. Ýmsir drógu í efa að fyrir því væri lagaheimild. Með þessu er ég ekki að segja að til standi að flytja stofnunina frá Reykjavík þó sumir segi reyndar að skrýtið sé að staðsetja hana á eina blettinum á Íslandi sem ekki er á starfsvæði Byggðastofnunar. Það er sem kunnugt er allt landið að undanskildu höfuðborgarsvæðinu.

Ég nefndi fyrr þá gagnrýni sem helst hefur komið fram á þetta frv. Mér finnst hún heldur léttvæg. Varðandi val á stjórn þá finnst mér eðlilegt að stjórnin spegli nokkuð styrkleika stjórnmálaflokkanna í landinu. Aðferðin sem notuð er við það val er ekki stórt atriði og mér væri að meinalausu að það ákvæði frv. breyttist í meðförum þingnefndar.

Gagnrýnt hefur verið að í þessu frv. skuli ekki standa að Byggðastofnun sé sjálfstæð. Í því sambandi má minna á að þegar Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluendurskoðun á Byggðastofnun árið 1996 þá taldi Ríkisendurskoðun eðlilegt að breytingar á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar yrðu teknar til athugunar með það fyrir augum að stjórnsýslusambandi yrði komið á milli ráðherra og stofnunarinnar. Ég hef reyndar aldrei komið auga á mikilvægi þessa sjálfstæðis. Byggðastofnun verður aldrei og á ekki að vera ríki í ríkinu. Ég tel að best sé fyrir Byggðastofnun að vera í sem mestu og bestu sambandi við stjórnvöld því að án þess næst enginn árangur.

Gagnrýni á að ekki skuli gert ráð fyrir sérstökum framlögum til Byggðastofnunar við þessa lagasetningu finnst mér á misskilningi byggð. Hér er verið að setja lög um almenna starfsemi stofnunarinnar en fjárveitingar ríkisins til hennar eru að sjálfsögðu ákveðnar á fjárlögum og eiga ekki heima í þessu lagafrv.

Varðandi ákvörðun sem tekin var í vor um að færa byggðamálin frá forsrh. til iðnrh. þá hafði ég á þeim tíma efasemdir um að það væri rétt. Ég sé þó þann kost við þá tilhögun að þar er stærstur hluti atvinnuþróunarstarfsemi ríkisvaldsins kominn í tengsl við eitt og sama ráðuneytið. Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að þessi starfsemi eigi að vera í nánari tengslum við ríkisvaldið en verið hefur til þessa. Ég tel að Byggðastofnun, Iðntæknistofnun, Nýsköpunarsjóður, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og kannski fleiri stofnanir eigi að vera í meira samstarfi um atvinnuþróun á landsbyggðinni en verið hefur.

Það kom t.d. fram hjá forstjóra Nýsköpunarsjóðs í viðræðum við okkur nefndarmenn að ekkert samstarf hefði verið milli Nýsköpunarsjóðs og Byggðastofnunar. Reyndar má líka segja það um Byggðastofnun og Iðntæknistofnun að sáralítið samband hefur verið þar á milli. Mér finnst það óeðlilegt. Þetta er afskaplega tengd starfsemi og báðar þessar stofnanir vinna mjög mörg og góð verkefni fyrir landsbyggðina. Þær eiga auðvitað að vinna saman. Þannig nýtist best það fé sem ríkið leggur til þessara mála.

Mér finnst allt of algeng, reyndar í fjölmargri starfsemi ríkisins og ekki bara á þessu sviði, sú tilheiging ríkisstofnana að verja túngarð sinn, passa að aðrar stofnanir komist ekki inn í landhelgina hjá sér. Auðvitað eiga skyldar stofnanir að vinna saman þannig að það fé sem lagt er til þessara mál nýtist sem best. Ég tel að með þessu frv. sé stefnt í þá átt.

Mér hefur líka fundist sérkennilegt að iðnrh. skuli hafa verið að deila út arðinum af Landsvirkjun, 80 millj. kr. á ári. Nú mun það fé renna til Byggðastofnunar sem er auðvitað eðlilegt.

Varðandi samstarf stofnana má nefna að einnig væri jákvætt að tengja saman lánastarfsemi Byggðastofnunar, Lánasjóðs landbúnaðarins og Ferðamálasjóðs. Þessar lánastofnanir eru oft að sinna sömu málum. Þeir sem kunna á kerfið gera kannski út á alla sjóðina í einu. Auðvitað eiga þessir sjóðir að vinna meira saman. Ég tel að frv. og sú breyting sem ráðgerð er á Byggðastofnun stefni öll í þá átt. Ég tel það af hinu góða. Ég er sannfærður um að samstarf og samvinna þessara stofnana sem ég hef nefnt og kannski fleiri muni aukast eftir þessa breytingu, til hagsbóta fyrir landsbyggðina.

Byggðastofnun sendi í síðustu viku frá sér skýrsluna Byggðir á Íslandi sem er unnin af starfsmönnum þróunarsviðs. Ég tel að þessi skýrsla skilgreini vel þann vanda sem við er að glíma á landsbyggðinni. Hún hefur það fram yfir margar aðrar skýrslur að henni fylgja tillögur þróunarsviðs Byggðastofnunar, tillögur um aðgerðir til úrbóta á fjölmörgum sviðum. Ég tel skýrsluna afskaplega vel unna og staðfesta það sem ég hef áður sagt hér á Alþingi um starfsemi þróunarsviðisins á Sauðárkróki sem hefur farið afskaplega vel af stað.

Þær tillögur sem þarna eru settar fram hafa reyndar þegar vakið nokkur viðbrögð. Menn eru ýmist með eða á móti einstökum tillögum sem eðlilegt er. Ég tel tillögurnar gott innlegg í þær aðgerðir sem fram undan eru en ég held að byggðamálin verði tvímælalaust eitt af höfuðviðfangsefnum stjórnvalda á næstunni. Menn tala hér eins og þetta sé auðvelt viðfangs en þannig er það auðvitað ekki. Við verðum að athuga að störfum hefur fækkað alveg gríðarlega í höfuðatvinnuvegum landsbyggðarinnar, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Reyndar er þeirri þróun spáð áfram. Fækkunin í fiskvinnslunni er alveg geysilega mikil sem skapast náttúrlega af því að menn hafa verið að tæknivæða þessi störf. Það er ekki endilega bein fækkun á störfum heldur eru störfin að flytjast til. Fólkinu sem vinnur í frystihúsunum og fiskvinnslustöðvunum fækkar en á móti fjölgar störfum í tæknifyrirtækjum og fyrirtækjum sem framleiða tæknibúnað. Þau störf eru yfirleitt á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna flytjast störfin suður. Þannig flytjast þau frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar og ef ekki finnast ný störf í staðinn þá er auðvitað vandi á höndum. Fólkið flytur enda reynist erfitt að finna starfsemi í stað þeirra starfa sem tapast í fámennum byggðarlögum.

Alþingi samþykkti mjög góða ályktun um byggðamál sl. vor. Nú þegar hefur sumu af því sem þar er lagt til verið hrint í framkvæmd. Annað er í undirbúningi. Ég tel að hin nýja skýrsla Byggðastofnunar um stöðu byggðanna á Íslandi sé mjög gott innlegg í þessar aðgerðir. Hins vegar er ekki nóg að gera skýrslu, það þarf að fylgja því eftir sem gera þarf. Ég held samt að bæði þessi skýrsla og margar aðrar skýrslur Byggðastofnunar síðustu tvö eða þrjú árin, skýrsla Stefáns Ólafssonar, skýrsla Háskólans á Akureyri, skýrsla Haraldar Líndals Haraldssonar og nú þessi skýrsla skilgreini betur en áður þann vanda sem við er að etja. Í nýjustu skýrslunni koma fram tillögur til úrbóta og nú ríður á að menn fylgi því eftir og taki hraustlega á þessum málum.