Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:49:22 (2363)

1999-12-06 16:49:22# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það vekur athygli mína við umræðuna hér um frv. til laga um Byggðastofnun að í gegnum umræðuna hafa engir framsóknarmenn verið viðstaddir að undanteknum hæstv. forseta og það finnst mér einkennilegt. Menn halda kannski að þetta sé afgreitt mál vegna mikils stjórnarmeirihluta enda er því stillt upp þannig að hér er um það að ræða að verið er að uppfylla stjórnarsáttmála með því að skapa fráfarandi ráðherra nýtt djobb.

Þetta frv. til laga vekur mikil vonbrigði vægast sagt. Ég hélt að menn vildu upphefja umræðuna um vanda landsbyggðarinnar á nýtt plan en í mínum augum þá er hér bara um að ræða gamlar lummur úr legnu mjöli án rúsína. Það er verið að færa Byggðastofnun yfir í fagráðuenyti, eitt ráðuneyti sem í grundvallaratriðum er alröng aðferð. Það á ekki að nálgast málið á þann hátt. Það bendir til þess að menn líti á vanda landsbyggðarinnar sem uppbyggingarvandamál, að átaka sé þörf í uppbyggingu, og þá væntanlega á iðnaðarsviði ef menn ætla að tengja þetta við iðnaðarmálin. En það er nú öðru nær í samfélaginu á Íslandi árið 1999. Það sem við þurfum á að halda er fjölþætt yfirsýn á vanda landsbyggðarinnar og þess vegna veldur miklum vonbrigðum að menn skuli ekki hafa notað tækifærið einmitt núna þegar frv. um Byggðastofnun var smíðað að reyna að upphefja nýja sýn og finna nýjar leiðir til þess að ganga í þessi mál og leysa úr vandanum.

Vandi landsbyggðarinnar er nefnilega fjölþættur. Hann er að stærstum hluta í mínum huga afleiðing miðstýringar, miðstýringar sem við framköllum sjálf með stjórnsýslulegum athöfnum. Það má segja að fólksflóttinn af landsbyggðinni hafi fyrst hafist fyrir alvöru með þátttöku hins opinbera, Alþingis Íslendinga og ríkisstjórnar, í massífri uppbyggingu með Breiðholtsáætlun. Og síðan koll af kolli þar sem menn fara í og framkvæma og taka ákvörðun um stórkostlegar framkvæmdir á vegum hins opinbera, stofnana hins opinbera og síðan í iðnaðaruppbyggingu. Þetta eru stóru málin í hnotskurn.

Það er ekki bara samfélagið Ísland sem hefur uppskorið ávextina af slíkum ráðahag. Þetta má finna um allan heim. Þjóðir, sérdeilis nýfrjálsar þjóðir, hafa mjög gjarnan lent í þessum vanda. Þó að það sé ekki sambærilegt þá sjáum við þetta hjá nýfrjálsum þjóðum niður alla Afríku og jafnvel Suður-Afríku þar sem mönnum hefur láðst að endurskoða stjórnkerfið á sama tíma og þeir öðluðust sjálfstæði. Það hefur mjög víða leitt til miðstýringar, miðstýringar sem við erum að uppskera ávextina af.

Það er ergilegt til þess að vita að við skulum ekki horfa á þessa hluti í því ljósi heldur ætlum við að beita sömu gömlu aðferðunum sem við vitum fullvel að hafa ekki skilað árangri. Við höfum áratuga reynslu af innspýtingu fjármagns í gegnum Byggðastofnun en þó hefur sérdeilis kannski kastað tólfunum á síðasta áratug vegna þess að landsbyggðin með stuðningi Byggðastofnunar hefur tapað í áróðursstríði sem grundvallaðist á því að landsbyggðarfyrirtæki fengu gjarnan peninga lánaða í gegnum Byggðastofnun en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og nærliggjandi sveitarfélögum fengu peninga lánaða úr bönkum og sparisjóðum á hinum frjálsa markaði.

Hvernig var svo svanasöngurinn við útlánatöpin eftir mikla efnahagslega lægð? Hvernig var svanasöngurinn? Það var alltaf verið að punda opinberu fé og tapa opinberu fé úti á landi. En það var ekkert rætt um að við vorum að tapa milljörðum og milljarðatugum vegna þess að fyrirtæki fóru á hausinn einnig á höfuðborgarsvæðinu og nægir þar að nefna mjög mikil gjaldþrot, t.d. í byggingariðnaði og stórkostleg gjaldþrot vegna uppbygginga á hótelum.

Þetta áróðursstríð er tapað vegna þess að því er klínt á landsbyggðina að vegna milligöngu Byggðastofnunar um lán þá sé þetta opinbert fé sem er tapað. En ætli það sé nú ekki þannig að í raun höfum við, þjóðin, borgað þessi töp að jöfnu, hvort sem þetta hefur verið lánað á vegum Byggðastofnunar eða lánað á vegum bankakerfisins? Það er staðreynd málsins. Og þetta áróðursstríð, þessi áróður hefur verið landsbyggðinni ákaflega andstæður og þorri almennings gerir sér ekki nokkra grein fyrir því að útlánatöpin hér á þessu svæði voru stórkostlegri og miklu stærri en nokkurn tíma úti á landi. Enda sýna skýrslur frá þróunarsviði Byggðastofnunar svart á hvítu, sem hefur unnið mjög gott verk á mörgum sviðum við að kortleggja hluti, að svona eru málin í raun og veru.

En hvers vegna eru þau öfl sem hér inni tala fyrir einkavæðingu ríkisbankanna núna, hörð á því að til hliðar þurfi að vera nánast opinber ríkisbanki í formi Byggðastofnunar til þess að lána út á landsbyggðina? Hv. 1. þm. Vestf., Einar K. Guðfinnsson, taldi það algjöra nauðsyn að Byggðastofnun lánaði beint út vegna þess að aðrir vildu ekki koma að því. Sömu öfl eru á sama augnablikinu á fullu við að einkavæða ríkisbankana og vilja helst selja bæði Landsbanka og Búnaðarbanka. Þetta er aðferðafræði sem gengur engan veginn upp. Það er ekki fyrir hvítan mann að skilja hvert menn eru að fara með þessu.

Ég held að staðreyndin sé sú að menn eru fastir í gömlum aðferðum og þeir komast ekki upp úr fari sem þeir innst inni viðurkenna að hefur ekki skilað þeim árangri sem ætlast var til og þess vegna er um að gera og alveg nauðsynlegt að finna nýjar aðferðir.

Til þess að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar er lykilatriði í mínum huga að efla frumkvæði heimamanna. Stjórnsýslan hér hefur oft sloppið mjög billega frá hlutum með því að fela Byggðastofnun umsýslu vandamálaverkefna úti á landi. Ég held að það sé úrelt aðferð sem ekki skili árangri til frambúðar. Við eigum að koma beint inn og styrkja atvinnuþróunarfélög heimamanna þannig að þeir hafi frumkvæði og áræði heima fyrir til þess að fara í hlutina. Það er mjög einfalt að gera með beinum framlögum ríkisins á fjárlögum og þarf enga milligöngu til. Ég er með öðrum orðum þeirrar skoðunar að það form á Byggðastofnun sem við erum með í dag og það áframhald sem þetta frv. til laga á að leiða af sér sé úrelt fyrirbæri. Við eigum að vera með opinn huga og finna nýjar leiðir til þess að ná árangri.

Í atvinnuþróunarfélögunum skortir ekki viljann. Þar skortir oftast fjármuni. Með beinum stuðningi við atvinnuþróunarfélögin er hægt að lyfta grettistaki úti á landi. En hverjar eru lausnirnar? Ég tel að lausnirnar séu fyrst og fremst fólgnar í því að kaupa sér ekki frið með því að halda að vandamál landsbyggðarinnar verði leyst með framkvæmdum, en það er að mínu mati undirtónn þess að setja Byggðastofnun undir iðnrn. Í fjölbreyttu margbreytilegu nútímasamfélagi þarf að taka á öllum málum, leysa öll mál og hafa hugann við öll mál hvað varðar stöðu og þróun landsbyggðarinnar. Það dugar ekki eitt og sér að koma með atvinnutækifæri eða verksmiðjur. Það vita allir í dag. Þetta gildir fyrir öll ráðuneyti. Það verður að fara í alla þætti, félagsmálin o.s.frv.

Ég nefndi áðan miðstýringuna. Ríkisstjórnin fékk sérstakar aðgerðir í byggðamálum samþykktar í góðu samkomulagi á síðasta ári. Þar er tekið margþætt á málum sem ég tel að allflestir aðilar hafi verið sammála um að gætu skilað verulegum árangri. Þetta eru fjölþættar aðgerðir. En fjárlög ársins í ár eins og þau eru að þróast tala sínu máli. Þar eru lykilatriði skorin niður hvað varðar stöðu og mátt og framtíðarþróun landsbyggðarinnar, t.d. til vegamála. Þar eru lykilþættir skornir niður eins og hafnamál. Þar eru skornir niður hlutir eins og rafvæðing sveita með þrífasa rafmagni. Framlög til hitaveitna á köldum svæðum eru skorin niður frá því sem var og ekki eru uppfylltar kröfur um greiðslur til þeirra sem sannarlega hafa hafið framkvæmdir eða eru í þann mund hefja þær, aðstoð við námsmenn, og svona mætti lengi telja.

Lausnir í byggðamálum þurfa í mínum huga að byggjast á miklu róttækari hugmyndum. Ég tel að þróunarsvið Byggðastofnunar, eins og það hefur unnið síðustu ár, hafi lyft grettistaki. En ég er sannfærður um að við þessa lánaútdeilingu eða lánaumsýslu Byggðastofnunar má setja mjög stórt spurningarmerki því að staðreyndin er nefnilega sú að endurlán Byggðastofnunar eru alls ekkert hagstæð lán. Reynslan sýnir það. Byggðastofnun hefur verið að lána með hærri vöxtum en tíðkast á hinum almenna markaði.

[17:00]

Við svona endurlánamál eykst hættulega þungi áróðursstríðsins gegn landsbyggðinni. Hvað heldur t.d. hinn almenni borgari þegar fréttir berast af því að 100 milljónir hafi verið lánaðar til uppbyggingar á hóteli á Seyðisfirði? Þorri almennings í landinu heldur að Byggðastofnun láni þetta alfarið og framlagið fari með beinum eða óbeinum hætti til Seyðisfjarðar. Lendi þetta hótel í vandræðum þá verður söngurinn hér: Við þurfum að borga.

Atriði eins og þetta eru mikilvæg í umræðunni og það verður að taka tillit til þeirra. Það verður að fara nýjar leiðir í þessum dúr, fjármagna og örva til framþróunar með öðrum meðulum en hingað til hafa verið notuð. Þar nefni ég sem lykilatriði bein framlög og styrkingu til atvinnuþróunarfélaganna. Það er ekki ósanngjarnt, atvinnuþróunarfélög um allt land hafa fengið sáralítil framlög.

Hvernig vinnur stóra atvinnuþróunarfélag höfuðborgarsvæðisins? Hver borgar það? Hver borgar áratugavinnu í iðnrn. við að finna stóriðjutækifæri? Hvar hefur stóriðjan lent og hin stóru högg í uppbyggingu? Er það ekki hér? Í raun má segja að iðnrn. og umsýslan í kringum það, öll vinnan við að fá hingað t.d. stóriðju og orkufrekan iðnað sé hið eina og sanna atvinnuþróunarfélag höfuðborgarsvæðisins.

Með þessum rökum má með sanni segja að réttlætanlegt sé að styrkja þessa pósta beint. Ég sá fyrir mér minni háttar breytingu á Byggðastofnun. Ég tel að þurft hefði að efla þróunarsviðsvinnuna sem auðvitað gæti áfram verið á Sauðárkróki. Ég held að það hefði engin goðgá verið að þessi þáttur hefði áfram heyrt undir forsrn., sem innanríkisráðuneyti. Ég hafði séð fyrir mér og beini því til þeirra sem fjalla um málið í nefndum að það verði skoðað hvort þróunarsviðið eigi ekki að gefa tóninn til ráðuneytanna, vera vaktari þess að farið sé að stjórnsýslulögum og kröfum hins háa Alþingis á ráðuneytin. Ég veit ekki betur en að á undanförnum árum hafi stjórnsýslan unnið þvert á það sem hið háa Alþingi hefur ákvarðað.

Hvernig var þróunin á síðasta ári varðandi fjölgun á opinberum störfum í stofnunum og ráðuneytum? Hún var þveröfug við það sem Alþingi ályktaði. Hér á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði þeim störfum um 400 meðan þeim fækkaði um 200 úti á landsbyggðinni, öfugt við stefnuna. Byggðastofnun sem slík ætti, kannski með breyttu nafni, að heyra undir forsrn. Þróunarsviðið verði eflt til að gefa tóninn inn í öll ráðuneytin og finna út af hverju vilji Alþingis gengur ekki eftir. Erum við ekki sammála um það, alla vega þegar við tölum úti á göngum, að þetta sé mylla sem vinni bara sjálfstætt og á móti því sem við erum að tala um? Ég get nefnt mýmörg dæmi þar sem slíkt er uppi.

Byggðamál þurfa nýja hugsun. Það þarf upplýsingar eins og fram hefur komið hjá mörgum hv. þingmönnum. Ég er sammála því og tel að þróunarsviðsvinnan sé ágætt innlegg í það. Ég vil nota tækifærið hér til að hrósa þeim hafa sem settu fram þessar grunnupplýsingar á mjög skilmerkilegan hátt. Það er okkar, hv. þingmenn, að vinna úr því. Það er óásættanlegt að bera fram gamla lummu eins og hér er, úr legnu mjöli án rúsína. Þetta verður ekki það verkfæri sem þarf því að hugsunin er röng og þar skortir yfirsýn. Hugsunin er sú að reisa verksmiðjur, koma eins og jólasveinn og skaffa eitt stykki hér og eitt stykki þar, vera ánægður yfir og stæra sig af því.

Að stjórna margbreytilegu nútímasamfélagi krefst yfirsýnar. Þessi þrenging er röng og skilar ekki árangri. Ég ætlast til þess, hæstv. forseti, að menn taki rökum í þessu máli, að frv. til laga um Byggðastofnun verði stokkað upp og hugsað að nýju frá grunni. Það er eina leiðin til að ná árangri í stað þess að hjakka í sama farinu, yppta öxlum ár eftir ár og furða sig á því að við skulum ekki ná árangri við að hægja á fólksflóttanum, hvað þá að stöðva hann.

Þetta er meginmálið, virðulegi forseti. Ég læt hv. nefnd það eftir að taka róttækt á þessum málum og búa til nýtt frv. til laga um Byggðastofnun sem hafi þá yfirsýn til að bera sem nauðsynleg er í þessum málum.